15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4547 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Með þingmáli 16 er farið fram á skýrslu utanrrh. um útgjöld og kostnað við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Skýrsla þessi hefur legið nokkuð lengi fyrir þinginu eða frá því í desembermánuði. Ég gaf þeim sem skýrsluna unnu fyrirmæli um að vinna hana tölulega þannig að glöggt kæmi fram í hverju viðbótarkostnaður við flugstöðina felst.

Mér sýnist að það hafi verið gert þannig að það eigi að liggja nokkuð glöggt fyrir í þessari skýrslu. Hitt er svo ljóst að vegna nokkuð langs byggingartíma og mikilla breytinga á verðlagi á þessum byggingartíma, auk þess sem við verkið bættust nokkur kostnaðarsöm verk, þá verður þetta mál að öllu leyti töluvert flóknara en annars væri. Ég óskaði því eftir því að sett yrði fram smávegis viðbót við þessa skýrslu og er hún á þskj. 343. Segir í fyrirsögn til nánari skýringar við spurningu um framkvæmdir og ábyrgð á flugstöðinni. Eru það þrír liðir sem ég vona að skýri þessi mál nokkuð nánar.

Nú er það svo, herra forseti, að mjög ítarlega hefur verið rætt um flugstöðvarbygginguna í sambandi við skýrslu Ríkisendurskoðunar og ég sé ekki ástæðu til að fara ítarlega í þessa skýrslu, enda geri ég ráð fyrir að hv. þm. hafi skoðað hana vandlega og því væri réttara að leitast við að svara fyrirspurnum sem fram kunna að koma frá hv. flm. þeirrar beiðni sem skýrslan er byggð á og frá öðrum þm. En þó ætla ég að fara hratt yfir helstu liði skýrslunnar.

Í beiðni um skýrslu er fyrst tekið fram að gerð verði grein fyrir áætluðum kostnaði annars vegar og endanlegum kostnaði hins vegar. Ef um umframkostnað er að ræða er óskað eftir að gerð verði grein fyrir því af hverju hann stafar og hver beri ábyrgð á honum.

Í fyrsta kafla skýrslunnar er áætlaður kostnaður rakinn. Nú er það staðreynd að nokkrar áætlanir um byggingarkostnað voru gerðar. Það er í fyrsta lagi frumáætlun, sem svo hefur verið kölluð, um byggingu flugstöðvar. Síðan viðmiðunaráætlun fyrsta byggingaráfanga flugstöðvar, en þar sem jafnframt var fjallað um byggingarkostnaðinn í heild sinni og svo áætlanir byggingarnefndar um kostnað. Og þó þær séu ekki út af fyrir sig mjög frábrugðnar þá er þó þess að geta að á þessum tímum verða töluverðar verðhækkanir sem gera matið að ýmsu leyti dálitið erfitt.

Í fáum orðum sagt, eins og kemur fram á bls. 2 í skýrslunni, er bókfærður grunnkostnaður vegna framkvæmda 1 milljarður 321 millj. kr. og verðhækkanir sem verða á hverju tímabili eru upp á 1 milljarð 162 millj. kr. Samtals er bókfærður kostnaður þá 2 milljarðar 483 millj. kr.

Samkvæmt þeirri áætlun sem gerð var árið 1983 og hér er kosið að miða við var áætlaður framkvæmdakostnaður 936 millj. kr. Verðhækkanir voru áætlaðar þá þegar að yrðu 238 millj. kr. eða samtals 1 milljarður 174 millj. kr.

Eins og kemur fram í þessum samanburði þá er mismunur á grunnkostnaði 385 millj. kr. Verðhækkanir á þessum tíma urðu hins vegar 924 millj. kr. umfram það sem áætlað hafði verið en eins og ég sagði áðan voru verðhækkanir áætlaðar 238 millj. kr.

Samtals verður því hækkun umfram áætlun 1 milljarður 309 millj. kr. Eins og fram er tekið í skýrslunni eru í þessum áætlunartölum ekki þær viðbætur, sem ákveðnar voru á byggingartímanum.

Þessar tölur eru síðan skýrðar allmiklu nánar í skýrslunni og m.a. einnig rakið hvers vegna viðbætur voru að mati byggingarnefndar taldar nauðsynlegar. Er þar fyrst og fremst um það að ræða að fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll jókst langt umfram það sem áætlað hafði verið á árunum 1982–1987.

Og þar sem var sérstaklega að því spurt, og mér þótti ekki koma nógu greinilega fram í skýrslunni, hver bæri ábyrgð á þeim viðbótum sem ákveðnar voru, þá er tekið fram í þeim viðauka sem ég nefndi áðan að allar tillögur um stækkanir umfram upphaflega niðurskorna kostnaðaráætlun voru samþykktar af utanrrh.

Í beiðni um skýrslu er farið fram á sundurliðun á undirbúningskostnaði, verktakakostnaði, hönnunar- og umsjónarkostnaði og fjármagnskostnaði á byggingartíma. Leitast er við að sundurliða þetta í kafla sem nefndur er „sundurliðun kostnaðar“ í skýrslunni og eru þar birtar tölur þar sem þessi sundurliðun kemur fram.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að lesa þær töflur hér upp. Þar er bæði sundurliðun á verkþáttakostnaði og sömuleiðis sundurliðun á erlendum og innlendum kostnaði. Þarna er einnig talinn upp sá búnaður sem byggingarnefnd hefur samið um kaup á frá útlöndum í megindráttum, eins og t.d. landgöngubrýr og þess háttar hlutir, og vona ég að þessi sundurliðun kostnaðar sé viðunandi að mati þeirra sem um spyrja.

Rétt er að geta þess að stærsti liður þessa sundurliðaða kostnaðar er að sjálfsögðu verktakakostnaður sem er án verðhækkana 1 milljarður rúmur eða 76% heildarframkvæmdakostnaðar. En með verðhækkunum er verktakakostnaður 1 milljarður 883 millj. kr. Hönnunar- og sérfræðingaþjónusta er 90 millj. kr. án verðhækkunar eða 7% heildarframkvæmda. Með verðhækkunum er þessi kostnaður 169 millj. kr.

Enn fremur er í beiðninni óskað eftir upplýsingum um það hvernig umframkostnaði verði mætt, þ.e. hvort fé til hans kemur úr ríkissjóði með því að taka erlent lán eða með öðrum hætti. Í skýrslunni er kafli um fjármögnun. Eins og þar kemur fram er byggingin fjármögnuð með erlendum lánum að mjög stórum hluta, en að hluta með framlagi Bandaríkjamanna sem er upp á 20 millj. dollara. Það framlag í dollurum hefur verið óbreytt frá því sem ákveðið var í upphafi og að sjálfsögðu með mikilli breytingu á dollarnum á þessu tímabili hefur hlutur Bandaríkjaframlagsins af heildarbyggingarkostnaði minnkað. Svarið við þessu er einfaldlega þetta að byggingin hefur eða okkar hluti hennar hefur verið fjármagnaður með erlendum lánum.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi hefur þetta mál verið mjög ítarlega rætt og ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu um of nema sérstaklega sé eftir því óskað og hef því ekki talið rétt að lesa hér upp nema aðeins einstök atriði af því sem í skýrslunni er.

Að lokum vil ég leyfa mér að segja það að þessi gífurlega mikla framkvæmd er vissulega slík að ástæða er til að ræða málið ítarlega og mér er fyllilega ljóst að margt í þessari framkvæmd má gagnrýna. Ég hygg hins vegar að við getum fagnað öðru sem þarna hefur tekist vel. E.t.v. getum við áfellst okkur sjálf fyrir að hafa samþykkt þessa gífurlegu framkvæmd. Ég get að vísu sagt að fyrst þegar málið var lagt fyrir var ég því mótfallinn, en ég samþykkti síðan endanlega ávörðun og þær fjárveitingar sem ákveðnar voru til byggingarinnar og er því að þessu leyti að sjálfsögðu jafnábyrgur hverjum öðrum.

Það er enginn vafi á því að reisa hefði mátt mannvirki sem hefði verið fullkomlega boðlegt en ekki kostað nema lítinn hluta af þessu glæsimannvirki sem er risið. Ég er einnig sammála því að ýmislegt má gagnrýna af því sem gert var á byggingartíma og það er enginn vafi á því að þarna hafa orðið mistök í hönnun, jafnvel veruleg mistök í hönnun, sem hafa leitt til verulegs aukakostnaðar. Þó hygg ég að sérstaklega sé gagnrýnisvert að ýmsar þær viðbætur sem ákveðnar voru hafi ekki farið rétta boðleið og ekki verið lagðar fyrir fjárveitingavaldið og hið háa Alþingi. Mér er ljóst að þessar viðbætur voru ákveðnar í m.a. þeirri góðu trú að þær rúmuðust innan þeirra fjárveitinga sem gert hafði verið ráð fyrir. Svo varð þó ekki að öllu leyti. Ég held hins vegar að við getum viðurkennt að þarna er risið glæsilegt mannvirki sem er hlið flestra þeirra sem til landsins koma og hefur vitanlega gjörbreytt því ófremdarástandi sem orðið var í flugstöðvarmálum á Keflavíkurflugvelli. Ég hygg að við getum verið ánægð með flugstöðina að þessu leyti.

Ég vil að lokum aðeins geta um eitt atriði. Í byggingu þessarar flugstöðvar er ýmsu enn ólokið. Sumt má e.t.v. bíða en annað að mínu mati ekki.

T.d. er ekki unnt að bíða annan vetur með að ljúka þeirri hitaveitu sem gert er ráð fyrir. Þar er eingöngu bráðabirgðahitaveita og hefur það valdið vandræðum í þeim kulda sem hefur verið upp á síðkastið. Ekki er síður illt að ekki hefur enn tekist að ljúka þeim listaverkum sem um var samið við listamenn. Ég vil geta þess að ég geri mér vonir um að við endanlegt uppgjör á þeim verkþáttum sem unnið var að á sl. ári, og m.a. eftir uppgjör við verktaka, verði eitthvert fjármagn eftir þannig að unnt verði að standa við þennan samning um listaverkið. En það og hitaveitan eru þau mál sem ég hef sett efst á lista af þeim verkum sem ólokið er.