15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4550 í B-deild Alþingistíðinda. (3158)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla utanrrh. að beiðni allra þingkvenna stjórnarandstöðuflokkanna. Þessi beiðni var lögð fram eftir að vitnaðist um mikinn umframkostnað vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, svo mikinn reyndar og óvæntan að hæstv. fjmrh. hinn nýi varð ekki bara hissa, heldur forviða, og bað um skýringar. Við lögðum því beiðni okkar fyrir hann þar sem við vissum að hann átti von á ítarlegri skýrslu frá ríkisendurskoðanda. Þegar beiðnin var borin upp til samþykktar hér á þingi var gerð athugasemd og talið réttara að hæstv. utanrrh. tæki að sér að svara henni, málið heyrði undir hann. Okkur fannst svo sem sama hvaðan gott kæmi og þegar síðan hæstv. utanrrh. lýsti sig mjög fúsan að láta kanna þetta mál ítarlega og gefa um það skýrslu vorum við því samþykkar. Við áttum því satt að segja von á gagnrýnni, hlutlausri og málefnalegri skýrslu þar sem tekið væri á málunum.

Það svar sem okkur berst er þó ekki þannig vaxið. Það er að vísu gefið af mönnum sem segja má að hafi ekki haft þessi mál beint á sinni könnu, en hins vegar er þar lítil tilraun gerð til þess að kryfja mál til mergjar, miklu fremur að berja í brestina og gera lítið úr yfirsjónunum. Svo langt er reyndar gengið í þeim efnum að settar eru fram kostnaðartölur sem fá ekki staðist til samanburðar við þær tölur sem Ríkisendurskoðun ber fram í sinni skýrslu sem rædd var hér í þinginu í desember og enginn hefur vefengt hana.

Í heiðninni um skýrslu spyrjum við þingkonur fyrir hönd kjósenda eins og þær hagsýnu húsmæður sem við erum og viljum vera og ég vitna í skýrslubeiðnina þar sem við biðjum um að hæstv. ráðherra „gefi Alþingi skýrslu um útgjöld og kostnað við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Í skýrslunni verði gerð grein fyrir áætluðum kostnaði annars vegar og endanlegum kostnaði hins vegar. Ef um umframkostnað er að ræða er óskað eftir að gerð verði grein fyrir því af hverju hann stafar og [ég les með sérstakri áherslu] hver beri ábyrgð á honum.

Óskað er eftir sundurliðun í eftirfarandi þætti: Undirbúningskostnað, verktakakostnað, hönnunar- og umsjónarkostnað og fjármagnskostnað á byggingartíma. Óskað er eftir sérstakri sundurliðun á verkþáttum og útboðsáföngum verktakakostnaðar. Einnig er óskað eftir sundurliðun í innlendan og erlendan kostnað.“

Í skýrslu ráðherra er hins vegar sagt um áætlanir byggingarnefndar um byggingarkostnað og ég vitna, með leyfi forseta:

„Áætlanir byggingarnefndar um byggingarkostnað til ársins 1987 sem hér segir:

1984: 254,7 millj. kr., 1985 301 millj. kr., 1986 1002,3 millj. kr. og 1987 986,2 millj. kr., samtals 2 milljarðar 544 millj. 200 kr.“

Enn stendur: „Byggingarnefnd gerði því ráð fyrir að byggingarkostnaður yrði 2544,2 millj. kr. eða 61 millj. kr. meiri en bókfærður byggingarkostnaður er áætlaður til verkloka.

Þessar áætlanir byggingarnefndar sem hún lagði fyrir Fjárlaga- og hagsýslustofnun gerðu því glögga og raunsæja grein fyrir byggingarkostnaði. Um umframkostnað samanborið við þessar áætlanir er því ekki að ræða. Ekki er heldur um að ræða umframkostnað ef viðmiðunaráætlun frá 1983 ásamt því endurmati sem fram fór á henni er borin saman við bókfærðan byggingarkostnað. En samkvæmt því endurmati er hún 2909 millj. kr. á verðlagi 1. sept. 1987.“

Þar sem þessar tölur standast ekki samanburð við þær tölur sem Ríkisendurskoðun hefur gefið lá beint við að biðja um athugasemdir Ríkisendurskoðunar á fundi með forsetum Alþingis og formönnum þingflokka þann 8. þ.m. Þetta gerði ég og mér barst síðan svohljóðandi svar frá Ríkisendurskoðun sem ég les upp hér, með leyfi forseta:

„Í framhaldi af fundi með forsetum Alþingis og formönnum þingflokka sem sæti eiga á Alþingi þann 8. febr. 1988 þar sem rætt var um skýrslu Ríkisendurskoðunar um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og skýrslu utanrrh. til Sþ., þskj. 303, vill Ríkisendurskoðun taka fram eftirfarandi:

1. Áætlaður kostnaður. Áður en bygging flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli hófst höfðu verið gerðar ýmsar kostnaðaráætlanir. Sú kostnaðaráætlun sem lögð var til grundvallar í meðferð Alþingis á málinu á sínum tíma var sem hér segir:

Byggingarkostnaður 33,5 millj. bandaríkjadala, áætlaðar verðhækkanir á byggingartíma 8,5 millj. bandaríkjadala, samtals 42 millj.

Þessi kostnaðaráætlun framreiknuð til 1. sept. 1987 er að fjárhæð 2 milljarðar 121 millj. kr. Í skýrslu utanrrh. er getið um aðrar áætlanir, svo sem frumáætlun að upphæð 57 millj. bandaríkjadala og það sem nefnt er áætlanir byggingarnefndar um byggingarkostnað samtals að fjárhæð 2 milljarðar 544 millj. 200 þús. kr.“ Er það von að manni fatist í svo stórum upphæðum? Það er ekki daglega sem maður hefur þær á tungu sér eða á milli handanna.

„Þær „áætlanir“ eru þó ekki annað en samlagning á fjárveitingabeiðnum byggingarnefndar frá ári til árs. Ríkisendurskoðun hefur ekki fengið í hendur og er ekki kunnugt um að á vegum byggingarnefndar hafi nokkurn tíma verið gerð heildstæð kostnaðar áætlun um framkvæmdina eftir að framkvæmdir hófust.

2. Byggingarkostnaður. Í skýrslu utanrrh. er byggingarkostnaður talinn vera samtals 2 milljarðar 483 millj. kr. Hér er um bókfærðan kostnað á breytilegu verðlagi og áætlaðan kostnað frá september 1987 og fyrir árið 1988 að ræða og því ekki samanburðarhæfur að mati Ríkisendurskoðunar. Framreiknaður byggingarkostnaður til 1. sept. 1987 telst vera 2 milljarðar 992 millj. kr. og byggir Ríkisendurskoðunin þar á tölum fengnum frá Seðlabanka Íslands og ráðgjöfum byggingarnefndar.

3. Samanburður áætlana og raunkostnaður. Í skýrslu utanrrh. er bókfærður kostnaður borinn saman við fjárveitingabeiðnir byggingarnefndar og komist að þeirri niðurstöðu að um svipaðar fjárhæðir sé að ræða. Að áliti Ríkisendurskoðunar er hér um ósambærilegar tölur að ræða. Einnig er í skýrslunni sett fram endurmetin áætlun frá ágúst 1983 að upphæð 42 millj. bandaríkjadala og komist að því að með því að taka tillit til viðbóta og magnaukninga sé sú áætlun 2 milljarðar 909 millj. kr. í stað 2 milljarða 121 millj. kr. Að áliti Ríkisendurskoðunar lítur samanburðurinn út sem hér segir, sbr. bls. 3 og 4 í skýrslu Ríkisendurskoðunar, tölurnar eru færðar til verðlags 1. sept. 1987:

Framkvæmdakostnaður 2 milljarðar 992 millj. kr., kostnaðaráætlun 2 milljarðar 121 millj. kr., viðbætur 653 millj. kr., magnaukningar 135 millj. kr., óskiptur kostnaður 83 millj. kr. og samtals 2 milljarðar 992 millj. kr. Eins og að ofan greinir eru meginskýringar á krónutöluhækkun byggingarkostnaðar viðbætur og magnaukning, enda hefur kostnaðaráætlun frá árinu 1983 verið framreiknuð til 1. sept. 1987, svo og byggingarkostnaður. Í skýrslu utanrrh. er meginskýringin talin vera verðhækkanir á byggingartíma.“

Ég mun láta ljósrita þetta plagg og dreifa því til þm. nú á eftir og læt ég tilvitnun lokið í það.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvernig stendur á því að ráðuneytið og ráðherra sendir frá sér svona skýrslu? Hvar liggur hollusta hans? Hverjum skuldar hann skýringu? Er það frumskylda hans að vernda samráðherra sína eða ber honum að gefa Alþingi og þjóðinni skýr og óvilhöll svör um það hvernig almannafé hefur verið ráðstafað? Þetta færir okkur að því meginefni sem einkenndi umæður um flugstöðina fyrir jól, ábyrgð og reyndar líka siðgæði þeirra sem fara með opinberar stöður og almannafé.

Jón Gauti Pétursson, bóndi á Gautlöndum í Mývatnssveit, hafði forsjá og umsjón með annarra manna fjármunum frá unga aldri og í tæpa hálfa öld. Eftir hann var höfð þessi vísa:

Tók ei þátt í trölladans,

trúr á vegi sannleikans.

Aldrei hvarf úr umsjá hans

eyris virði nokkurs manns.

Þetta var siðfræði þeirra tíma. Kannski má kenna hana við ungmennafélagshreyfingu í byrjun aldarinnar. En hversu algeng skyldi hún vera nú? Hvernig stendur á því að í skoðanakönnun rétt um það leyti sem við reynumst hamingjusamasta þjóð í heimi lýsa aðeins 24% aðspurðra því yfir að þeir telji stjórnmálamenn segja sannleikann? Það eru sem sé 2/3 aðspurðra sem virðast ekki treysta stjórnmálamönnum. Þetta finnst mér alvarlegt. Og hvað er það sem almenningi finnst ótraustvekjandi við stjórnmálamenn? Geta það verið vinnubrögðin? Við heyrum talað um spillingu, fyrirgreiðslupólitík, bitlinga, hagsmunatengsl.

Mörg dæmi, stór og smá, hafa komið fram á sl. árum sem varpa ljósi á samtryggingarkerfi þeirra sem fara með völd. Almenningur hefur komist að raun um að þetta er ósýnilegt þéttriðið net, mannhelt ef svo ber undir, bæði til að halda utan um sína og varna öðrum inngöngu í skjólið. Það er notað til að viðhalda aðgangi að völdum og hefð þess er svo ævagömul og viðtekin að fólk tekur því nærri eins og lögmáli og býst í raun ekki við því að menn verði látnir sæta ábyrgð, þeir sem eru innan þessa nets.

Má ég bregða ljósi á málið með því að vitna í ummæli tveggja manna sem ég ætla að séu nokkuð vel með á nótunum og hafi reynslu af þessu kerfi. Fyrsta tilvitnun mín, með leyfi forseta, kemur úr tímariti sem ég er nú reyndar ekki viss um hvert er en er trúlega eitt af lífunum, Nýtt líf, Mannlíf, Framhaldslíf, ég veit ekki hvað það er, en greinin er eftir Vilhjálm Egilsson og heitir: Hvað kostar kunningjaþjóðfélagið. Mig langar að lesa upphaf þessarar greinar, með leyfi forseta, og merkilegt nokk stendur hér — ég hef ekki tekið eftir því fyrr — stendur hér til hliðar „Um áratug hinna glötuðu tækifæra“. Þetta er tveggja ára gömul grein í það minnsta, kannski þriggja:

„Formaður stjórnar fjárfestingarlánasjóðsins er nýkominn heim af stjórnarfundi í sjóðnum. Hann borðar kvöldmatinn og horfir á sjónvarpsfréttirnar. Hann er afslappaður, enda hafa umræðurnar á stjórnarfundinum verið mjög friðsamlegar og ekkert nema hefðbundin mál verið á dagskrá. Eftir sjónvarpsfréttirnar tekur hann upp símtólið og hringir í nokkra menn. Þetta eru þingmenn. Hann tilkynnir þeim hvaða mál hafi verið tekin fyrir og hver hafi fengið afgreiðslu. Hann veit að þingmennirnir bíða í ofvæni eftir að geta hringt sjálfir í þá sem sóttu um lánin til þess að skýra þeim frá því að þeir hafi fengið jákvæða afgreiðslu. Enn fremur vilja þingmenn láta þá vita sem urðu fyrir frestun að allt sé gert sem mögulegt er til þess að málið geti komist í höfn á næsta fundi.

Eftir símhringingarnar sest sjóðstjórnarformaðurinn í hægindastólinn með kaffibolla við hliðina og heldur áfram að horfa á sjónvarpið. En hann er annars hugar og einbeitir sér ekki að hinu lélega sjónvarpsefni heldur er að skemmta sér við að hugsa til þingmanna sem margir hverjir hafa rauðþrútnir af æsingi strax byrjað að hringja og lýsa því fyrir umbjóðendum sínum hversu mikið þeir lögðu á sig til þess að fá lánin í gegn. Hann hlær í huganum vegna þess að flestir þm. höfðu ekkert talað við hann um málin sem voru afgreidd, heldur fengu þeir bara að vita um málin fyrstir allra til þess að geta látið umbjóðendurna halda að lánin hafi fengist fyrir þeirra tilverknað.

Stjórnarformaðurinn hlær líka í huganum að öllum frjálshyggjuungunum sem skrifa hvassyrtar greinar í blöðin um spillinguna í sjóðakerfinu. Hann sér enga raunverulega spillingu. Honum finnst þetta nokkurs konar leiksýning, spillingarleikur eða leikin spilling. Hann hlær sérstaklega að síðustu grein frjálshyggjupostulans sem kallaði svona kerfi sjálfvirka spillingu þar sem kerfið væri orðið hnökralaust og líkti mönnum eins og formanni sjóðstjórnarinnar við embættismenn Stóra bróður í bók Orwells 1984.“ Áfram heldur hann.

„Íslenska þjóðfélagið er kunningjaþjóðfélag. Þegar fyrirtæki verða gjaldþrota og þegar rekstur þeirra stöðvast eru það ekki einhver fjarlæg tíðindi, heldur oftast mál sem snerta ættingja, vini og samherja. Þegar stjórnandi fyrirtækis sækir um lán til fjárfestingar eru arðsemisútreikningarnir ekki bara svartar tölur á hvítum pappír þar sem öllu máli skiptir hvort plús eða mínus er fyrir framan niðurstöðutöluna og hversu stór hún er, heldur er verið að tefla um framtíðaratvinnumöguleika hjá mörgum frændum og gömlum leikfélögum. Og þegar stjórnandinn ætlar að víkja úr starfi einhverjum letingjanum sem allt eitrar í kringum sig með söguburði og illmælgi er hann vinsamlega minntur á það að frænka bankastjórans sé náskyld ömmu letingjans og það séu tveir þingmenn í ættinni. En hvað skyldi kunningjaþjóðfélagið kosta?" spyr dr. Vilhjálmur Egilsson.

Annar maður sem mig langar að vitna í, er hv. þm. Albert Guðmundsson sem var í viðtali fyrir skömmu við Alþýðublaðið. Þar stendur haft eftir þm. og reyndar er vitnað hér í einn flokk og ég hef tekið dæmi af mönnum er tengjast eða hafa tengst honum af því að þau voru nærtæk og ég átti ljósritin, en vitanlega viðgengst þetta alls staðar og er ekkert sérstaklega verið að vitna til þess flokks umfram aðra. Það á við alla stjórnmálaflokkana, fjórflokkana a.m.k.

„Fólk áttar sig ekki á því að Sjálfstfl. hefur notað það fjöldafylgi sem hann hefur til að auka vald hinna fáu. Það er þetta alræði hinna fáu í skjóli kosninga og fjöldafylgis sem gerir Sjálfstfl. sterkan.“ „Og hverjir eru hinir fáu," spyr spyrillinn. „Hvað heldurðu að það séu margir sem ráða Íslandi? Kallarðu það marga ef það eru tíu fjölskyldur sem ráða? Alræði hinna fáu ræður á Íslandi í dag. Þú kemst ekki áfram neins staðar ef þú stígur á anga hinna stóru í þjóðfélaginu.“

Aftur er spurt: „Er það í krafti peninga sem þetta fólk ræður?" „Já, í krafti peninga og aðstöðu. Hvað heldurðu að það séu margir þessara 32 aðila sem buðu í Útvegsbankann á móti Sambandinu sem buðu eigin peninga? Farðu í gegnum þann lista og sjáðu hvaðan þeir koma, frá hvaða sjóðum, frá hvaða stofnunum, fyrirtækjum.“ Og áfram er spurt:

„Og þetta fólk náði saman á einum sólarhring til að leggja fram tilboð?" „Það náði ekkert saman á einum sólarhring. Þetta er þróun sem er afskaplega sniðuglega byggð upp í gegnum áratugi.“ Og ég legg áherslu á það að ég er ekki að vega sérstaklega að einum flokki. Ég held að þetta gildi alls staðar. Þetta er bara tekið sem dæmi og ég bið þm. að íhuga það.

Já, það er einkennandi hve samtrygging þeirra er einhuga sem staðið hafa í forsvari fyrir ákvörðunum um almannafé alveg án tillits til þess hvernig tekist hefur til. Oft er jafnvel slegin skjaldborg um þá sem hafa gert mistök eða brotið af sér. Stundum eru þó færðar fórnir eða menn látnir farast ef þarf að losna við þá. Þeir sem ákvarða um almannafé eru oft ósínkir á að veita sér og lagsbræðrum sínum ýmis forréttindi sem almenningi bjóðast ekki. En hafa þeir velt fyrir sér fordæmisgildinu sem slíkt hefur? Er það rétt að kostnaður við rekstur 10 ráðherrabíla sé rúmlega tvöfalt hærri en allur rekstur Hæstaréttar og tvöfalt hærri en allur rekstur Fiskvinnsluskólans? Hvers vegna þurfa bankastjórar ráðherrakjör á bílum? Hvaða sérþarfir hafa þeir sem venjulegt fólk hefur ekki?

Nú er samdráttur í þjóðfélaginu. Hvernig ætla stjórnvöld að sýna fordæmi? Ætla þau að byrja á sjálfum sér? Eða er það bara almenningur sem á að spara? Kannast þm. við orðatiltækið eða máltækið „Eftir höfðinu dansa limirnir.“ Kannast þeir við orðatiltækið „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það.“ Er siðgæði í íslenskum stjórnmálum í raun annað en tíðkast víða í nágrannalöndum okkar? Eru siðferðisstaðlar okkar þjóðfélags aðrir? Hvers vegna hefur það verið þjóðaríþrótt hérlendis að svíkja undan skatti? Er siðleysi skattsvika og opinberra fjársvika af sama toga spunnið? Endurspeglar siðferði stjórnmálamanna siðferði þess samfélags sem velur þá til starfa?

Bandaríkin eru annar aðili að byggingu þessarar flugstöðvar sem hér er til umræðu. Orð hefur stundum farið af spillingu tengdri forsetaembætti Bandaríkjanna vegna þeirra miklu fjármuna sem frambjóðendur þurfa að hafa til þess að geta boðið sig fram. Ég hef heyrt talað um 20–25 millj. dollara sem það kosti hvern mann sem lætur sér detta í hug að hann geti orðið forseti Bandaríkjanna. Það er dágóður hluti af flugstöð. Er þá stundum ýjað að því að fjársterkir hagsmunaaðilar standi að baki forseta og geti síðan haft áhrif á gerðir hans. Hvað sem rétt er í þessum efnum virðist samt vera til ferill innan bandarísks stjórnkerfis þar sem hægt er að taka á málum tengdum spillingu eða misferli og nægir að minna á Watergate og vopnasölumál sem snertu Íran og síðan fjársendingar til Contra-skæruliðanna. Þessi mál voru tekin fyrir á Bandaríkjaþingi og þau voru krufin jafnvel þó að það væri óþægilegt fyrir þá sem valdamestir eru.

Það má minna á fleiri mál úr nágrannalöndum okkar. Astrid Gjertsen var ráðherra í Noregi sem falsaði leigubílanótur allt að 30 þús. norskum krónum. Henni var vikið úr embætti. Ritt Bjerregaard var ráðherra í Danmörku. Hún hafði búið á of dýru hóteli að mati samráðherra sinna og þingsins. Henni var vikið úr embætti. Uwe Reimer nýtti sér skattaívilnanir á lögmætan hátt, en það þótti siðlaust. Cecil Parkinson eignaðist barn utan hjónabands. Hann vék úr embætti. Breskur ráðherra, annar, Profumo, átti samband við vændiskonu sem líka átti samband við rússneskan mann. Hann vék úr embætti. Það eru ótal slík dæmi sem mætti telja upp sem lýsa sterkri hefð til þess að segja af sér ef menn telja sig ekki hafa risið undir ábyrgð sem þeim var falin eða hafi þeir varpað hinum minnsta bletti á þá opinberu stöðu sem þeir gegndu. Jafnvel þegar stjórnmálastefnan er þannig að menn eru ekki sáttir við hana segja menn af sér víða erlendis þó að það sé auðvitað ekki algilt.

Það er enginn vafi í mínum huga að þeir sem taka að sér fulltrúahlutverk í stjórnmálum, opinbera stöðu eða embætti, taka jafnframt á sig aukna siðferðilega ábyrgð. Ábyrgð þeirra sem gegna áhrifastöðum er ekki einungis gagnvart stöðu sinni og umbjóðendum og sjálfum sér, heldur er hún einnig fólgin í því fordæmisgildi sem staða þeirra hefur, því eins og ég áðan sagði: eftir höfðinu dansa limirnir. Heilindi þeirra sem annast ákvarðanatöku er varðar velferð manna og ráðstöfun almannafjár verða að vera óvefengjanleg. Slíkir einstaklingar verða stöðugt að vera vakandi fyrir því að þeir lendi ekki í neinni þeirri stöðu sem gæti hindrað þá í því að taka málefnalega afstöðu og gegna hlutverki sínu sem skyldi.

Það er stutt síðan nýkosinn bæjarstjóri á Akureyri vék sér af fundi Byggðastofnunar vegna þess að hann sá fyrir sér hagsmunaárekstra á þeim fundi sem hann gæti sjálfur lent í. Hann sætti ámæli fyrir þetta en svaraði: Menn verða að hafa eitthvert siðferði.

Það skiptir meginmáli að kosnir fulltrúar séu í lifandi tengslum við þjóðlífið til þess að þeir beri skynbragð á þarfir þjóðfélagsins og einstaklinganna. Það gegnir hins vegar allt öðru mali um afskipti þeirra og tengsl við ýmsar fyrirgreiðslu- og fjármálastofnanir sem geta mjög auðveldlega stefnt hlutleysi þeirra í voða. Hið íslenska kunningjaþjóðfélag og ættartengsl hafa síðan án efa einnig gert mörgum erfitt um vik þegar taka þarf málefnalega afstöðu án tillits til þess hverjir eiga í hlut. Kunningja-, ætta- og stjórnmálatengsl eru burðarásar þess samtryggingarnets sem hefur bjargað mörgum frá slæmu falli en fleygt öðrum hálfa eða alla leiðina upp eftir framabrautinni.

Stjórnmálamenn sækjast eftir því að sýna festu við að stjórna öðrum. Því skyldi þeim líðast það að sýna sjálfum sér linkind og undanþágur? Það er kominn tími til þess að ráðamenn beiti því valdi sem þeim hefur verið falið til þess að taka í lurginn á sjálfum sér í stað þess að beita því eða misbeita gegn öðrum. Þessi kinokun ráðamanna við því að taka ábyrgð á gerðum sínum er meinsemd í íslensku þjóðfélagi og veldur vaxandi vantrausti almennings á stjórnvöldum og Alþingi. Samkrull stjórnmálamanna og ýmissa ráðandi stofnana í þjóðfélaginu í gegnum pólitísk ráð og nefndir hefur leitt til þess að þeir hafa oft óeðlilega mikil völd og áhrif, einkum í meðferð almannafjár. Umræða meðal almennings lýsir mikilli óánægju og gremju með þetta athæfi og í mínum huga er það einungis spurning um það hvenær menn byrja að sýna það hugrekki sem þarf til að rjúfa öryggi samtryggingarinnar og vernd kunningjaþjóðfélagsins, sýna þann manndóm að taka ábyrgð á gerðum sínum og ætlast til þess sama af öðrum. Kannski verður þetta fyrst þegar fleiri húsmæður koma inn í stjórnsýsluna og færa þangað annálaða ábyrgðartilfinningu sína.

Það er reyndar ekki orð í þeirri skýrslu sem hæstv. utanrrh. færir okkur hér um ábyrgðarhlutdeildina sem sérstaklega er spurt um og ég verð að segja að mér finnst það mjög miður. Það er ljóst að mikill skortur hefur verið á tengslum milli ráðherra og ráðuneytisins og þeirra sem ráðuneytið hefur falið verkefni. Að einhverju leyti hefur þó trúlega verið um að ræða traust milli manna sem vel þekkjast, samkomulag um að framkvæma verkefni sem allir voru sáttir um, gæluverkefni gætum við sagt, hvað sem það kostar. Stjórnarleg ábyrgð eða stjórnunarleg ábyrgð var óvefengjanlega í höndum utanrrh. á hverjum tíma og ráðuneytisins þó svo að undirmenn eða verktakar hafi í raun framkvæmt mistökin. Það er einnig ljóst að ekki var nægileg heildarsýn yfir verkið meðan það var í framkvæmd eins og tekið var fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það verður að fara í saumana á öllu þessu stjórnunar- og framkvæmdaferli bæði í þessu ráðuneyti og í öllum öðrum ráðuneytum til þess að tryggja að slíkt komi ekki fyrir aftur. Við höfum ekki efni á fleiri svona ævintýrum. Og við getum ekki liðið það að ævintýramennirnir gangi ævinlega ósárir frá leiknum þegar síðan eru hundeltir fulltrúar almennings sem hafa jafnvel mun minni yfirsjónir á sinni könnu. Það er einmitt þetta sem við þurfum að ræða hér í þinginu: Hvernig ætlum við að standa að því að gera stjórnkerfið og stjórnunarferlana trúverðuga? Því að ég er alveg viss um að við viljum það öll. Mér dettur ekki í hug að neinu ykkar sem hér sitjið líki það að einungis 24% almennings í landinu skuli halda að við segjum satt. Mér þykir það bara mjög slæmt. Ha! Að vera aðili að starfsgrein þar sem einungis 24% almennings halda að við séum að segja sannleikann. Mér finnst það bara afleitt og við hljótum öll að þurfa og vilja bæta þar úr skák. Og það dugar ekki lengur að veigra sér stöðugt við því að taka hlutlaust og málefnalega á málunum.

Mig langar til þess að vitna í þann lærdóm sem Ríkisendurskoðun taldi að mætti draga af þessu síðasta ævintýri okkar, vonandi því síðasta, flugstöðvarævintýrinu. En þar segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Lærdómur sem draga má af framkvæmdinni: Ríkisendurskoðun telur að af þessu máli megi draga ýmsar ályktanir í sambandi við meiri háttar opinberar framkvæmdir," og þetta á auðvitað við allar meiri háttar opinberar framkvæmdir, „m.a. eftirfarandi:

1. Vanda til við undirbúning framkvæmda, einkum að fyrir liggi góð skilgreining á verkefninu og væntanlegum gangi þess.

2. Vanda til áætlanagerðar, einkum samræmdrar framkvæmda- og fjárhagsáætlunar, framkvæma stöðuga endurskoðun meðan á verkefni stendur og tryggja upplýsingagjöf til réttra aðila.

3. Vanda til vinnubragða við gerð fjárlagatillagna og fjárlagagerðar.

4. Varast skal breytingar á verktíma og áður en ákvörðun er tekin um breytingu frá samþykktri áætlun og/eða hönnun skal athuga svo sem unnt er hvaða afleiðingar breytingin hefur.“

Hæstv. utanrrh., það er mjög auðvelt að ljósrita bls. 10 í skýrslunni. (Utanrrh.: Ég á skýrsluna.) Nú fer ég fram á það við hæstv. ráðherra að hann láti taka eitt eintak fyrir hvern ráðherra, nei, þrjú eintök fyrir hvern ráðherra og þrjú eintök fyrir þá sem starfa í ráðuneytunum. Ég legg til að hann mæli með því að þeir hengi eitt eintak fyrir ofan rúmið sitt, næsta eintak verði við morgunverðarborðið og þriðja eintakið verði á skrifborðinu, þannig að þeir geti haft það fyrir augunum svo að við þurfum ekki að ganga í gegnum þetta eina ferðina enn, minna sig á það.

Vegna þess sem hæstv. ráðherra var að tala um að auðvitað hefði þetta getað orðið ódýrara langar mig að vitna hérna í blað sem þm. var sent. Það var sérstakt auglýsingablað frá tímaritinu Time og fjallaði um Möltu. Þar segir í örlitlum dálki að stjórnin á Möltu hafi gefið grænt ljós til framkvæmda fyrir nýja flugstöð. Hún á að kosta 30 millj. bandaríkjadala. Henni á að vera kleift að afgreiða tvær og hálfa milljón farþega á ári sem er sagt vera mun meira en Malta þurfi á að halda í bráð. En floti Möltu eru tíu Boeing-þotur sem taka á sig 137 flug á hverri viku til og frá Bretlandi. Og síðan eru önnur 35 flug til og frá París og Róm í hverri viku. Ég kann nú ekki samanburðartölur frá Íslandi, en þetta er greinilega mun nettari og ódýrari flugstöð sem Möltubúar telja sig þurfa.

Nei, við verðum að taka upp ný og betri vinnubrögð án þess þó að reka hér þjóðfélag sem leitar uppi sökudólga af hefndarlöngun. Um slíkt er ekki að ræða. Umfjöllun hlýtur alltaf að þurfa að vera tillitsöm, vinsamleg og réttlát. Menn í svokölluðum ábyrgðarstöðum og opinberum stöðum verða einfaldlega að standa ábyrgir gerða sinna eins og þeir ætlast til af hinum almenna borgara. Leikurinn við „litlu gulu hænuna“ dugar ekki lengur. Það þýðir ekki að vísa stöðugt á aðra og neita að taka til sín annað en það sem gott þykir.

Atferli stjórnvalda hefur fordæmisgildi. Því vil ég biðja menn að hyggja að. Síðan vænti ég þess að hæstv. ráðherra svari þeim örfáu fyrirspurnum sem ég beindi til hans. Mér finnst þetta mál vera prófmál á vissan hátt um svo fjarskalega mörg önnur mál sem við þurfum ekki að endurtaka og eigum ekki að endurtaka. Við eigum að læra af mistökum okkar.