15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4568 í B-deild Alþingistíðinda. (3161)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal leitast við að svara einhverju af því sem hér hefur fram komið. Að vísu verð ég að viðurkenna að ég er eflaust ekki nægilega vel kunnugur sumu af því sem um er fjallað þar sem ég kom seint að þessu máli og stundum þegar stórt er spurt verður lítið um svör.

Áður en ég kem að einstökum atriðum vil ég segja það um ágæta ræðu hv. fyrsta fyrirspyrjanda, Guðrúnar Agnarsdóttur, hv. þingkonu, að eflaust er það allt ákaflega vel meint sem hv. þm. sagði um bætt siðferði. Ég get tekið undir mjög mikið af því. En mín reynsla af Íslendingum hefur hins vegar verið sú að þeir fullnægi langsamlega flestir þessum kröfum sem hv. þm. setti fram og séu sem betur fer ráðvandir og heiðarlegir einstaklingar. Ég er þeirrar skoðunar að þeir einstaklingar sem ég bað að vinna þessa skýrslu séu það. Ég er sannfærður um að þeir hafa unnið verkið af samviskusemi og ef hér eru settar fram fullyrðingar þá tek ég fulla ábyrgð á þeim. Ég las yfir skýrsluna og hnaut því miður ekki nægilega snemma um það sem ég gerði athugasemd við, þ.e. fullyrðingu í lok skýrslunnar. Ég gerði athugasemd við hana í framsöguræðu og hvað ekki átt við Ríkisendurskoðun. Ég tel að sú athugasemd mín sé fullgild sem hvert annað þingskjal því hún birtist að sjálfsögðu í þingtíðindum.

Ég held hins vegar að það sé staðreyndin að um þessa blessaða flugstöð hefur ýmislegt verið sagt sem ekki stenst og nefndar tölur sem eru langt umfram það sem hv. þm. eru að tala um nú.

En þá um þessa skýrslu sem mjög er deilt á. Ég átti von á því af fyrri viðbrögðum. Ég hafði að vísu ekki séð athugasemdir Ríkisendurskoðunar fyrr en rétt nú. Það er vegna þess að ég var ekki á þingi síðustu viku og hafði ekki farið í hólfið mitt. En hver er í raun munurinn, svona í fljótu bragði?

Í 3. mgr. í skýrslu minni er tekið fram að upphafleg áætlun hafi verið reiknuð til verðlags 1. sept. 1987 2 milljarðar 121 millj. kr. Þetta er sama tala og Ríkisendurskoðun byggir á svo a.m.k. þessum tölum ber saman. Síðan segir að sé þessi tala framreiknuð með öllum viðbótum á byggingartíma, magnaukningum o.fl. sem þarna er talið upp, þá sé talan 2 milljarðar 909 millj. kr. E.t.v. hefði átt að setja punkt þar og vera ekki með fleiri bollaleggingar um kostnað. Við hefðum þá getað borið þessar tölur saman við það sem Ríkisendurskoðun segir að sé framkvæmdakostnaður. Hver er hann? 2 milljarðar 992 millj. kr. Þarna munar 83 millj. kr. sem er ekki mikið.

Hins vegar töldu þeir sem skýrsluna unnu æskilegt að bera saman byggingarkostnað á ýmsum öðrum grundvelli. Bera má saman byggingarkostnað, ekki síst í verðbólguþjóðfélagi á ýmsum grundvelli. Færa má allan kostnað til upphaflegs verðlags. Það má færa allan kostnað til lokaverðlags. Það er gert í því sem ég rakti áðan. Einnig má bera saman byggingarkostnað á bókfærðu verðlagi og þær áætlanir sem voru gerðar fyrir hvert einstakt ár. Það töldu þessir menn æskilegt að gera einnig. Hvergi er sagt að þessar tölur, samanlagðar áætlunartölur byggingarnefndar séu endanlegur kostnaður á verðlagi 1. sept. 1988. Ég skil ekki gagnrýni Ríkisendurskoðunar þar á. Þarna er verið að bera saman bókfærðan kostnað á hverju ári með þeim verðhækkunum sem höfðu orðið til þess tíma, þ.e. í lok hvers árs frá því að byrjað var á byggingunni, ekki uppfært til ársins 1988 og áætlanir sem gerðar voru fyrir hvert ár. Bent er á að mismunurinn á þessum áætlunum og bókfærðum kostnaði þannig lagt saman o.s.frv. sé ekki mikill, mig minnir 61 millj. kr. Þetta er í samræmi við fyrri samanburðinn sem er á framreiknuðu verðlagi 1. sept. 1988. Munurinn á framkvæmdakostnaði samkvæmt Ríkisendurskoðun, áætlun með verðbótum o.fl. er 83 millj. kr. eins og ég sagði áður. Eðlilegt er að munurinn sé nokkru meiri því vitanlega hafa verðhækkanir orðið áfram á tímabilinu og þegar allt er reiknað til endapunkts þá bætast þær við.

Eftir því sem ég sé í fljótu bragði er munurinn á þessu tvennu sá að í þeirri skýrslu sem ég legg fram eru dregnar fram verðhækkanir á tímabilinu betur en gert er hjá Ríkisendurskoðun. Ég óskaði eftir því að það yrði látið koma fram að í upphaflegri áætlun, sem mér var ekki ljóst fyrr en ég fór að kynna mér skýrslu Ríkisendurskoðunar, hafði verið gert ráð fyrir verðlagshækkunum á byggingartíma upp á 238 millj . kr. Þá var byggt á áætlun um verðlagsbreytingar upp á 25% á byggingartímanum en verðlagsbreytingar átímanum urðu 88%. Ég held að það hljóti að vera hverjum einasta manni ljóst að svo mikill munur á áætlaðri verðlagsbreytingu og raunverulegri hlýtur að hafa mikil áhrif á byggingarkostnað.

Ég óskaði eftir því að farið yrði mjög vandlega í þessa útreikninga. Verðlagsbreytingar voru reiknaðar ætíð frá þeim tíma sem framkvæmd var lokið. Útreikningar þessir eru í töflu sem er upp á fleiri síður. Niðurstaðan var sú að verðlagshækkanir hefðu orðið svo miklu meiri en upphaflega var áætlað eins og kemur fram í skýrslunni.

Ég verð að viðurkenna það að ég sé ekki að skaði sé gerður þótt kostnaðarsamanburði sé fram haldið eftir þriðju málsgrein, en eins og ég sagði áðan hefði kannski mátt setja þar punkt og segja hreinlega á eftir: Ríkisendurskoðun telur heildarkostnaðinn 2 milljarða 992 millj. kr. Mismunurinn er þetta mikill. Hann er 83 millj. Það breytir svo ekki hinu, sem kemur glöggt fram, að við bygginguna var bætt ýmsu sem nemur samtals samkvæmt þessum tölum í skýrslunni 788 millj. kr., þ.e. mismuninum á 2 milljörðum 121 millj. kr. og 2 milljörðum 909 millj. kr. eða samkvæmt Ríkisendurskoðun 871 millj. kr. En í þessu er að sjálfsögðu ekki eingöngu um að ræða hreinar viðbætur við bygginguna heldur eins og fram kemur magnaukningar sem höfðu verið rangt áætlaðar, ranglega áætlaður hlutur Bandaríkjamanna, þ.e. ekki tekið nægilega tillit til þess verðfalls sem varð á dollarnum á tímanum. Er ekki rétt að fá það fram? Það er gert samkvæmt tölum frá Seðlabankanum svo vonandi er þessum mönnum sem unnu skýrsluna ekki þar um að kenna.

Ég taldi vera til bóta, að fá slíkt fram. Hins vegar er ég að velta því fyrir mér nú hvort menn hafi í raun og veru kunnað að lesa nægilega úr því sem hér er sett fram og hvort það sé nógu greinilegt. Vel má vera að svo sé.

Staðreyndin er sem sagt þessi: Á byggingartíma er bætt við framkvæmdum sem nema líklega um 380 millj. kr. og það er sannarlega gagnrýnisvert því það er ekki gert eftir réttum leiðum. Það hef ég ætíð sagt. Hins vegar eru magnaukningar, hönnunarmistök, breyting á dollaranum og fleira þess háttar sem vissulega má kenna hinu og þessu um, ég veit þó ekki hverjum um fall dollarans. Vissulega hafa, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, orðið, einnig að mínu mati, mjög alvarleg mistök í hönnun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er það dregið fram.

Ég tel að þau mistök í hönnun megi ekki síst rekja til þess að ákveðið var við upphaf byggingarinnar að þeir staðlar skyldu ráða íslenskir eða amerískir sem lengra gengu og þetta olli verulegri flækju í hönnun. Mönnum var slíkt ekki ætíð ljóst. Einnig olli það verulegum vandræðum að stöðug samráð þurftu að vera á milli hönnuða hér á landi og í Bandaríkjunum.

Út af því sem sagt var um loftræstikerfið þá er það alveg hárrétt að þar urðu t.d. mjög alvarleg mistök. Láðst mun hafa að láta amerískan hönnuð loftræstikerfisins vita um allstórar breytingar sem gerðar voru á byggingunni og breyttu öllum þörfum til loftræstingar. Loftræstingarkerfið var aðallega hannað í Bandaríkjunum því að þar eru kröfur um slík kerfi töluvert strangari en hér.

Ég tel það vera satt að segja mjög slæmt mál að byggingin skuli ekki vera hönnuð annaðhvort alveg eftir amerískum stöðlum eða alveg eftir íslenskum. Ég tel að svona hlutur flæki mjög málið og það er áreiðanlega eitt af því sem við eigum að læra af svona byggingu. Við eigum að hafa hreinar línur þegar gerðar eru kröfur til staðla, ekki síst þegar um svo flókin mannvirki er að ræða.

Ég vek athygli á því að um aðra þætti í þessari skýrslu hefur ekki verið rætt og mér skilst ekki vefengt það sem hér er sett fram um sundurliðun kostnaðar, um erlendan og innlendan kostnað, þ.e. skiptingu á honum og um fjármögnun, og það er út af fyrir sig töluvert afrek sýnist mér í þessu máli.

Hér hefur hins vegar verið spurt um ýmislegt. M.a. spurði hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir að því hver bæri ábyrgðina. Ég tel það liggja alveg ljóst fyrir. Ég vek athygli á því sem fram kom hjá fyrrverandi hæstv. utanrrh. í umræðu í desember að hann bæri tvímælalaust ábyrgð á þeim tíma sem hann var utanrrh. Ég held að enginn hafi reynt að skjóta sér undan ábyrgð. Þar sem segir í viðauka mínum að allar tillögur um breytingar á byggingunni, stækkun o.s.frv., hafi verið lagðar fyrir utanrrh. og samþykktar af utanrrh. tel ég að sýni að utanrrh. ber ábyrgð. (GHelg: Er slíkt ekki rætt á ríkisstjórnarfundum?) Nei. Nei, það er mjög gegnumgangandi í íslenskri stjórnsýslu að viðkomandi fagráðherra ber ábyrgð á þeim málum sem forseti Íslands felur honum að fara með. Eins og löglærðir menn hafa hvað eftir annað sagt er íslenska ríkisstjórnin ekki fjölskipað stjórnvald. Þannig að það hefur ekki verið rætt á ríkisstjórnarfundum.

Skýrsla byggingarnefndarinnar hefur verið mjög gagnrýnd hér. Ég vil taka það fram að byggingarnefndin spurði mig að því hvort ég hefði við það að athuga að hún gerði algjörlega á eigin ábyrgð grein fyrir sínum sjónarmiðum á því sem hana og Ríkisendurskoðun greinir á um. Og ég sagði að ég gæti ómögulega haft neitt við það að athuga, enda væri það algjörlega á ábyrgð byggingarnefndar. Ég skal taka það fram að ég hef flett þeirri skýrslu, ég hef ekki reynt að meta hana á neinn máta og ekki haft nein afskipti af því sem þar er sett fram. Ég tel það vera rétt sérhvers einstaklings að skýra sitt mál, líka hér fyrir hinu hv. Alþingi.

Að hvaða leyti þessar skýrslur stangast á sem við höfum verið að ræða hér, þá á ég við skýrslu mína og það sem Ríkisendurskoðun hefur látið frá sér fara, þá sé ég satt að segja ekki þegar ég hef rakið málið að mjög mikill munur sé en ég mun biðja þriðja aðila að fara yfir þetta, einhverja tölufróðari menn en mig og ef ég má leyfa mér að segja kannski suma hv. þm. aðra, sem fjallað hafa um málið, einhverja sem þekkja þetta dálítið og eru hlutlausir í þessari skýrslugerð. Ég mun gera það, þó það sé ekki nema mér sjálfum til fróðleiks, og sjálfsagt er að láta alþm. það í té.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði um nokkur atriði sem eru kannski dálítið annars eðlis en eru þó öll mikilvæg. Hann ræddi nokkuð um tilhögun mála á varnarsvæðunum. Samkvæmt lögum frá 1954, ef ég man rétt, segir að allt sem leiði af dvöl varnarliðsins skuli falla undir verksvið utanrrh. Ég hef oft haft mínar efasemdir um sumt af þessu. Ég viðurkenni að vísu að þetta er mjög æskileg tilhögun til þess að samband við varnarliðið sé á sem einfaldastan máta og sé við eitt ráðuneyti að eiga. Það er enginn vafi á því að í gegnum árin hefur það stuðlað að því að fjölmörg mál, sem upp hafa komið og koma stöðugt, hafa leyst tiltölulega fljótt. Menn sjá, hygg ég, allir að ef um mjög mörg ráðuneyti væri að ræða væri þetta miklu flóknara.

Hins vegar skal ég viðurkenna það að ég hef ekki verið ásáttur við alla framkvæmd - og mun gera ráðstafanir til þess að ákveðin tengsl verði við ýmsa aðila í stjórnkerfinu. Ég nefni t.d. Flugmálastjórn sem ég tel að hafi ekki nálægt því verið nægilega mikið viðriðin mál á Keflavíkurflugvelli og hef gert ráðstafanir til þess að flugvallarstjóri þar og flugmálastjóri og fulltrúi varnarliðsins hafi stöðug samráð um þau mál. Ég tel einnig mjög eðlilegt að skipulagsstjóri ríkisins fjalli um mál þarna á þessu svæði. Samráð hefur reyndar verið haft við hann. Skipuð var fyrir allmörgum árum skipulagsnefnd varnarsvæða og eftir því sem ég best veit hefur verið gott samráð á milli hennar og skipulagsstjóra ríkisins, enda tengjast þessi mál mjög. Byggðirnar þarna í kring eru að sjálfsögðu háðar því skipulagi sem ákveðið er á varnarsvæðinu, við skulum segja hávaðamörk og fjölmargt fleira, og tvímælalaust óhjákvæmilegt að gott samráð sé.

Um byggingarnefndir sveitarfélaganna er það að segja að þær hafa ekki verið tilkvaddar. Það er hárrétt. Mun hafa verið litið svo á allt frá upphafi að byggingar á svæðinu væru háðar ákvörðun utanrrh. eða þeirra manna sem hann kveður til, þ.e. varnarmáladeild og þeirra byggingarnefnda sem hafa verið settar á fót. Sú leið hefur verið farin að setja á fót byggingarnefndir og þær hafa verið látnar meta hvort byggingar á svæðinu fullnægi íslenskum stöðlum. En ég vil einnig benda á það að varnarmáladeild hefur haft í sinni þjónustu, hygg ég æði lengi, byggingarfróða menn. T.d. hefur starfað þar alllengi, og er aðeins nýlega hættur, Hörður Bjarnason, fyrrverandi húsameistari, sem er einnig kunnugur öllum byggingarkröfum. Hann hefur starfað þar eftir að hann hætti sem húsameistari og m.a. haft það verkefni að yfirfara byggingar og ganga úr skugga um að þær fullnægi íslenskum byggingarkröfum. Jafnframt hafa verið kvaddir verkfræðingar til slíkra starfa.

Það var fróðlegt að heyra það sem byggingarfróður hv. þm. sagði hér áðan. Ég er ekki dómbær á það. Fróðlegt væri að vita hvort það er rétt sem hann sagði um t.d. jarðskjálftaþol þessarar byggingar. Vissulega verð ég að vona að þess hafi ítarlega verið gætt af þeim byggingarfróðu mönnum sem til voru kvaddir.

Ég vona að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín hefur verið beint. Ég hef a.m.k. gert það eins vel og þekking mín á þessu máli leyfir. Ég skal láta skoða nánar þau önnur atriði sem komu fram í þessum samanburði og vissulega það sem Ríkisendurskoðun lagði fram. Ég er ekki að vefengja Ríkisendurskoðun en ég er heldur alls ekkert viss um að allt sé rétt sem hún hefur um málið sagt. Það leyfi ég mér að segja. Ég held satt að segja að þegar þetta er borið vandlega saman þá sé munurinn miklu minni en liggur í þeim orðum sem koma fram í bréfi Ríkisendurskoðunar.