15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4579 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

Reglur LÍN um barnsmeðlög

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Samkvæmt lögum nr. 72/1982 og reglugerð frá 1982 eiga íslenskir námsmenn rétt á fjárhagsaðstoð úr Lánasjóði ísl. námsmanna til framhaldsnáms í stofnunum sem gera sambærilegar kröfur til undirbúnings náms nemenda og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Skv. 2. gr. sömu laga gildir þetta einnig um nemendur ákveðinna sérskóla sem greindir eru í 2. gr. reglugerðar nr. 578/1982 eða einstaka árganga þeirra skóla. Í 3. gr. sömu laga segir að opinber aðstoð við námsmenn samkvæmt lögunum skuli nægja hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hafi verið tekið til fjölskyldustærðar, framfærslukostnaðar þar sem nám er stundað, tekna námsmanns og maka hans, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanna. Og þá segir að nánari ákvæði um úthlutun námslána og styrkja skuli setja í reglugerð.

Eins og áður hefur verið rakið er nú komin upp sú staða að lán hafa verið skert og eins og fram hefur komið skaut Stúdentaráð Háskóla Íslands því til Lagastofnunar Háskólans hvort rétt væri að telja barnsmeðlög til tekna. Og það var samdóma álit þeirra lagaprófessora sem um málið fjölluðu að svo væri ekki, hvorki skv. barnalögum né skattalögum og þeir töldu stjórn Lánasjóðs bresta heimild til að setja slíkt skerðingarákvæði í úthlutunarreglur. Þessar niðurstöður voru sendar menntmrh. svo sem fram hefur komið og hæstv. menntmrh. sendi stjórn Lánasjóðsins bréf með eindregnum tilmælum um að fella þetta skerðingarákvæði niður. Stjórn Lánasjóðsins tók ekki tillit til þessara óska né heldur álits Lagastofnunar um að það væri andstætt lögum að telja meðlög til tekna og hvergi hefur komið fram rökstuðningur stjórnarinnar vegna þessa nema lítillega í máli hæstv. menntmrh. áðan og það er nú kannski ekki mjög sannfærandi.

En þá vaknar sú spurning hvort stjórn Lánasjóðsins hafi talið sig hafna yfir íslensk lög. Ef litið er á lánareglur sjóðsins og upptalningu þess sem í þeim teljast tekjur námsmanna, þá kemur þar fram að þar eru m.a. taldar vera tekjur: barnalífeyrir, mæðralaun, barnabætur, barnabótaauki og fæðingarstyrkur, fyrir nú utan meðlagið. Þetta telst til tekna og ég vil vekja athygli á því að allt þetta sem hér er talið á að bæta foreldri upp tekjutap annars vegar og kostnað hins vegar vegna barns eða barna.

Ég held því fram að það sé mjög hæpið að telja þessa fjármuni til beinna tekna og ég undirstrika það að frá samfélagsins hálfu eru þeir ætlaðir til þess að stuðla að umönnun og velferð barnsins þó svo þeir gangi til foreldris eða foreldra eðli málsins samkvæmt. Í lögum um Lánasjóðinn stendur að hlutverk hans sé m.a. að jafna aðstöðu fólks til náms. Einstæðir foreldrar hafa óumdeilanlega lakari aðstöðu til náms en einhleypir þó að bætur, lífeyrir og styrkir frá Tryggingastofnun létti þeim róðurinn. Því tel ég hæpið að skerða lánsréttindi þeirra vegna þessa. Það tekur hvort sem er enginn hærra lán en hann þarf á að halda því að menn eru meðvitaðir um að það kemur að skuldadögum.