15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4581 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

Reglur LÍN um barnsmeðlög

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram, umræðu um Lánasjóðinn og það atriði í úthlutunarreglum hans er snertir meðlag, hvort það teljist tekjur námsmanns eða eign barns. Hingað til hefur það ekki vafist fyrir löglærðum mönnum að meðlag sé eign barnsins og hefur sú skoðun stuðst við skýran hæstaréttardóm frá árinu 1954. Það sætir því furðu að slík regla skuli hafa komist inn í úthlutunarreglur Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég vil því lýsa yfir stuðningi mínum við þær kröfur sem stúdentar hafa gert og býst við að minn flokkur styðji þær að fullu.

Í mínum huga er það annars vítavert í þessu máli, sú staðreynd að þegar mistökin koma í ljós þá er vitleysan ekki leiðrétt þrátt fyrir álit Lagastofnunar sem ekki aðeins er byggð á skatta- og barnalögum heldur nefndum hæstaréttardómi. Þess í stað er álitið dæmt ómerkt þar sem meiri hluta sjóðstjórnarinnar fannst erfitt að kyngja niðurstöðunni. Ég hef enga trú á að meiri hluti sjóðstjórnarinnar geti ekki fallist á rökin í áliti Lagastofnunar. Þau eru skýlaus. Önnur sjónarmið en lagasjónarmið eru í lok bréfs stjórnar sjóðsins til formanns Vöku, en þar segir: „Stjórnin stendur fast við þá skoðun sína að núgildandi regla sé fullkomlega lögmæt.“

Sá lærdómur sem við þm. eigum að draga af þessu máli er að vanda til lagasetningar því að allt of oft vill það henda að reglur sem embættismannakerfið og ráðherrar setja samrýmast ekki lögum sem samþykkt hafa verið hér á Alþingi. Ég vil að lokum styðja þessa kröfu og þakka fyrir þessa umræðu.