15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4583 í B-deild Alþingistíðinda. (3172)

Reglur LÍN um barnsmeðlög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs af tveim ástæðum. Annars vegar vegna þeirrar staðhæfingar sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði í frammi í máli sínu er hann sagði að lán hefðu verið mjög skert í tíð þriggja ráðherra Sjálfstfl. Mér finnst engin ástæða til að láta svona hlutum ómótmælt þegar það gerðist í fyrsta sinn í sögu Lánasjóðsins um áramótin 1984–1985 að 100% framfærsluáætlun var fullnægt. Þetta hafði aldrei gerst fyrr. Ár eftir ár hafði gildistöku laganna um að lánið yrði 100% verið frestað en þau tóku gildi um þessi áramót, 1984–1985. Og mér finnst engin ástæða til þess að láta menn ómótmælt halda öðru fram. Hins vegar ráðlegg ég þessum sama hv. þm. að kanna reikninga sjóðsins og bera saman við fjárlagaupphæðir, m.a. frá þeirri tíð er hans eigin flokksbróðir sat í embætti menntmrh., og raunar frá því er sami hæstv. þáv. ráðherra sat í embætti fjmrh. Væri þá e.t.v. minna um þessar staðhæfingar.

Hin ástæðan sem olli því að ég kvaddi mér hljóðs var sú að ég tek heils hugar undir það sjónarmið að barnsmeðlag á ekki að telja til tekna foreldra. Ég tel það vera grundvallaratriði í eðli meðlaganna. Þetta atriði kom m.a. fram í umræðum sem fram fóru um frv. til barnalaga nú fyrir nokkru síðan. Hitt er annað mál að mér er kunnugt um það að þessi regla, sem lánasjóðsstjórn framkvæmdi frá því í haust, hefur ekki nema í sumum tilfellum orðið til einhverrar lækkunar á lánum vegna þess að áður hafði meðlagið áhrif á lánsfjárhæðina og hefur alla tíð haft. Það er umdeilanlegt, ég játa það, en svo hefur þetta verið. En um leið og þessi regla var sett í haust var verulega hækkaður grundvöllurinn sem gengið var út frá um lán til einstæðra foreldra þannig að þeir hefðu að sögn formanns stjórnar Lánasjóðsins eitt og hálft lán í raun og veru, en foreldri í sambúð með börn hefði eitt og fjórðung láns. Þannig að núna hafa einstæðir foreldrar, þrátt fyrir þetta, mun hærra lán en eftir öðrum reglum. Hitt er svo annað mál að mér finnst það langtum skýrara og eðlilegra að það sé ljóst að meðlögin teljist ekki til tekna. Jafnvel þó að útkoman úr talnadæminu sé þessi eins og raun ber vitni, þá tel ég að það eigi ekki að gera. Hafi það verið orðalag reglunnar að meðlagið teldist til tekna og það orðið einhverjum til íþyngingar, þá tel ég sjálfsagt að það verði leiðrétt við fyrsta tækifæri og styð það.