15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4583 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

Reglur LÍN um barnsmeðlög

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil láta mína skoðun koma fram í þessu máli. Það á ekki undir neinum kringumstæðum að hegna námsmönnum fyrir að eiga börn. Það á frekar að verðlauna þá hvort sem þeir eru einstæðir eða ekki einstæðir. Þeir eru að gegna því hlutverki sem þjóðfélaginu er nauðsynlegt þegar þeir eiga börn.

Ég tek undir áskorun á hæstv. ráðherra um að lögin taki gildi þegar í stað og þeir sem hafa þurft að þola skerðingu námslána vegna barnsmeðlaga fái endurgreitt þegar í stað. Ég hef unnið í mörg ár við hliðina á hæstv. ráðherra, með honum og undir hans stjórn og ég þekki hans hjartalag það vel að það er ekki hans verk að stöðva framkvæmdina á þann hátt sem ég hef lagt til hér og nú. Og ég vil láta það koma fram að ef hann þarf á stuðningi Borgarafl. að halda til þess að ná árangri þá er hann fyrir hendi. Þá er sá stuðningur fyrir hendi. Hann hefur þá 7 þm. af 63.

Ég vil líka lýsa vantrú minni á það að ríkisstjórnin þurfi þrátt fyrir allt að ná þessum barnsmeðlögum frá námsmönnum til þess að rétta halla ríkissjóðs. Ef svo er þá eru það ekki bara eldhúsin á Íslandi sem standa undir hallanum á ríkissjóði með matarskattinum heldur líka barnsmeðlögin. Og ég mótmæli því.