16.02.1988
Efri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4594 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

60. mál, iðnaðarlög

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Því miður var ég staddur erlendis í opinberum erindum þegar frv. var lagt fram þannig að ég gat ekki tekið þátt í umræðum um það þegar frv. var til 1. umr.

Ég tek undir orð fyrri ræðumanna hér. Hér er verið að fjalla um mjög veigamikið mál þótt það láti lítið yfir sér og það hreyfir við ákveðnum grundvallaraðstöðum í sambandi við þátttöku Íslendinga sjálfra og eignarhald í íslensku atvinnulífi.

Ég vil fyrst segja það að ég er þeirrar skoðunar að í þeim efnum beri að varast eins og unnt er að hafa of almennar og rúmar heimildir fyrir einstaka ráðherra til að ákveða þátttöku erlendra aðila í íslenskum fyrirtækjum, þ.e. að leggja það frekar á vald hæstv. Alþingis að fjalla um slíkt á hverjum tíma eða setja almennar reglur sem eru frekar þröngar því að við verðum að gera okkur grein fyrir því að þótt íslenskur þjóðarbúskapur standi tiltölulega traustum fótum er eignarhald það sem máli skiptir stendur ekki á allt of traustum grunni miðað við þá möguleika sem erlendir aðilar gætu haft í sambandi við það að hasla sér völl á Íslandi á sviði atvinnumála og einnig með tilliti til þess hvernig erlendir aðilar gætu eignast fyrirtæki í landinu í hinum ýmsu atvinnugreinum. Ég ætla ekki að hefja hér almenna umræðu um það, en ég tek undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Svavars Gestssonar, um að það er auðvitað ærin ástæða til að hæstv. Alþingi taki þetta til umræðu og gagngerðrar skoðunar, ekki bara í sambandi við þröngt svið iðnaðar, heldur íslenskt atvinnulíf í heild.

Það er rétt sem hv. þm. sagði að svo virðist sem erlendir aðilar séu að smeygja sér inn í íslenskt atvinnulíf eftir ýmsum leiðum með þeim hætti að það getur skaðað stöðu og eignarhald Íslendinga sjálfra á mjög mikilvægum sviðum.

Það sem rak mig einnig til þess að koma hér í ræðustól er það atriði að mér finnst ekki nægilega ljóst hvað átt er við þegar verið er að tala um iðnað almennt í sambandi við möguleika erlendra aðila til þátttöku umfram það sem leyfilegt hefur verið til þessa. Það er t.d. ekki nægilega ótvírætt hvort þessar breytingar ná einnig til fiskiðnaðar. Þess vegna vildi ég í þessu sambandi vekja athygli á því að til þessa hefur fiskiðnaður verið skilgreindur í tengslum við sjávarútveg þannig að skilgreining orðsins „sjávarútvegur“ og þar með lagatúlkun á stöðu eða möguleikum erlendra aðila til þátttöku í íslensku atvinnulífi hefur verið þrengd. Það hefur verið litið þannig á að undir hugtakið „sjávarútvegur“ flokkaðist einnig fiskiðnaður. Nú er þess að geta að lög um takmörkun erlendra aðila í útgerð á Íslandi eru frá 1924, ef ég man rétt. Þá var eiginlega ekki hægt að tala um fiskiðnað í þeirri merkingu sem við gerum í dag þannig að þau lög eru að ýmsu leyti úrelt. En ég vildi fá það fram í þessum umræðum, og beini orðum mínum sérstaklega til hæstv. iðnrh., hvort hann sé ekki sammála þeirri túlkun minni að fiskiðnaður geti alls ekki fallið undir þær breytingar á lögum, iðnaðarlögum, sem hér eru til umræðu, þ.e. hvort hann sé ekki sammála þeirri túlkun minni að fiskiðnaður heyri undir sjávarútveg í hefðbundinni merkingu þess orðs. Þar með er ótvírætt girt fyrir það að erlendir aðilar geti komist inn í íslenska útgerð í gegnum fiskiðnað eða eignarhald í t.d. fyrirtækjum sem starfrækt eru í tengslum við þessa atvinnugrein. Þetta er mjög þýðingarmikið og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra taki af öll tvímæli um það efni hér á eftir. Það mun ráða mínu atkvæði í þessu máli. Ég leyfi mér að skilgreina þetta þannig að undir „útgerð“ falli bæði veiðar og vinnsla sem þýðir það að þessi heimild sem breytingarnar á iðnaðarlögunum gera ráð fyrir heimila ráðherra ekki að leyfa erlendum aðilum að eignast hlut í íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum. Þetta er mjög þýðingarmikið, sérstaklega með tilliti til orða hv. frsm. þar sem hann undirstrikaði og tvítók að það sé vilji meiri hl. iðnn. Ed. að erlendir aðilar nái ekki tökum á náttúruauðlindum lands eða sjávar. Með því hlýtur nefndin að eiga við það að erlendir aðilar geti ekki fengið þá aðstöðu í íslenskum fiskiðnaði sem hér um ræðir og mögulegt væri á öðrum sviðum iðnaðar.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar og ég vænti þess að hæstv. ráðherra veiti mér skýr svör við þessu og taki af öll tvímæli.