16.02.1988
Efri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4601 í B-deild Alþingistíðinda. (3187)

60. mál, iðnaðarlög

Frsm. meiri hl. iðnn. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Til þess að málin séu ljós og hvað við höfum verið að segja hér vil ég víkja orðum mínum að því sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni.

Í mínum huga, og ég gat þess í upphafi máls míns, skiptir það mjög miklu máli að í dag geta erlendir aðilar komist inn í íslensk iðnfyrirtæki. Ég sagði að þeir geti það kannski ekki alveg þráðbeint og hindrunarlaust á grænu ljósi, en það eru ekki óyfirstíganlegar hindranir á þeirri leið til þess að erlendir aðilar geti komist inn í íslenskan iðnaðarrekstur. Það er málið. Þetta danska fyrirtæki hefði sjálfsagt átt kost á því að gera það, en vildi það ekki í þessu tilfelli. Það er alveg ljóst. Það var um að ræða annaðhvort að þetta lægi alveg hreint fyrir og það þyrfti ekki að fara einhverjar krókaleiðir sem kannski lagalega stæðust og væri hægt að fara. Þeir vildu ekki velja þann kost. Það var ekki um annað að ræða. Ella vorum við búnir að missa af þessum atvinnutækifærum og þeirri þekkingu sem var um að tefla og þetta fyrirtæki hefði sjálfsagt verið reist á danskri grund.

En ég vona að við þurfum ekki að hafa mikinn ótta og kvíða af þessu máli. Ég vona að það verði stutt í frv. um þetta mál, lagabálk um þessi mál, þess verði ekki langt að bíða að hann komi inn í þingsali. Ég er ekki kvíðinn vegna þess, eins og kom fram hjá hv. þm., að ég ber fullt traust til hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnarinnar allrar. Ég treysti henni til að fara með það vald sem iðnrh. er gefið með frv.