28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við 1. umr. um þetta frv., en vegna þess hvernig hæstv. ráðherra hagaði orðum sínum þegar hún fylgdi frv. úr hlaði sé ég mér ekki annað fært en segja nokkur orð. Hæstv. ráðherra var ákaflega mikið niðri fyrir og þingheimur fékk að hlýða á málflutning hennar og fékk að sjá lipurð hennar og lagni. Ég verð að segja að mér finnst ráðherrann ekki fara vel af stað þegar hún fylgdi þessu máli úr hlaði.

Ég ætla ekki að elta ólar við sífur ráðherrans í minn garð og ég tek mér ekki nærri þau klögumál sem hún hafði uppi út af orðum sem ég hef viðhaft. Ég hef ekki verið með neinar árásir á ráðherrann. Það er fjarri því. Hins vegar hef ég látið það í ljós hvernig ég vildi vinna að þessu máli og gerði henni grein fyrir því. Ég teldi heppilegra að reyna að ná samstöðu um málið áður en það væri lagt fram. Og þá væri hægt að koma frv. fram með skjótum hætti í gegnum þingið lítið breyttu eða óbreyttu. Hæstv. ráðherra vildi ekki hlusta á það. Það var út af fyrir sig hennar mál. Hún vildi fá frv. fram eins og hún hafði hugsað sér að hafa það.

Ég tel rétt og óhjákvæmilegt að breyta lögunum um Húsnæðisstofnun. Það er fásinna að lána sama manninum æ ofan í æ til íbúðakaupa niðurgreitt fé. Ég er alveg sammála hugsuninni á bak við a-lið 1. gr. Mér finnst hann hins vegar ekki vera vel orðaður. Mér finnst hann klaufalega orðaður. Þar segir: „Umsækjandi á fyrir fleiri en eina íbúð.“ Mér finnst eðlilegra að orða þetta: Umsækjandi á fyrir tvær íbúðir eða fleiri. Að vísu hefur forseti Alþýðusambands Íslands bent á að það sé auðvelt fyrir þá sem vilja komast fram hjá þessu að gera það og það er nokkuð til í því. Ég held að skynsamlegt sé að skoða vandlega hvort ekki væri mögulegt að binda lánin við fólk fremur en íbúðir.

Ég held að bæði b- og c-liður þurfi nánari útlistunar við. Ég er sammála hugsuninni, þ.e. ég er sammála því að það sé fjarstæða að eyða þessum niðurgreiddu peningum til þess að ryðja þeim í lán handa mönnum sem hafa ekkert með þau að gera. Ég held hins vegar að það þurfi að finna á þetta ákveðnara form, a.m.k. þurfi að liggja fyrir hvernig hæstv. félmrh. hefur hugsað sér að hafa reglugerð. Það er ekki aðgengilegt að samþykkja óútfyllta víxla um þetta efni.

Ég tel enn fremur að orðalag 2. gr., eins og ég skil niðurlag þeirrar greinar, sé óheppilegt. Þar segir: „Endanleg svör um afgreiðslutíma láns og lánsupphæð berist eigi síðar en einu ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu.“ Ég held að það hljóti að vera hægt að orða þetta betur og ég held jafnframt að óeðlilegt sé að ganga út frá því að ekki megi afgreiða lán fyrr en ári eftir að svör hafa borist um lánsupphæð og afgreiðslutíma. Ég skil þessa setningu þannig að verið sé að slá því föstu að það skuli taka a.m.k. ár frá því að maður fær lánsloforð þangað til 1. hluti láns kemur til afgreiðslu. Ég vona, skilji ég þetta rangt, að ég verði leiðréttur og jafnframt verða þá tvímæli tekin af, ef einhver önnur hugsun liggur á bak við þetta orðalag.

Ég tel að nauðsynlegt sé að gefa fólki tækifæri til að sníða sér stakk eftir vexti og ég tel nauðsynlegt að lofa því að komast í eigið húsnæði án þess að það reisi sér hurðarás um öxl. Það má ekki haga löggjöfinni þannig að fólk píni sig til að byggja allt of stórt í byrjun. Þetta er mjög vandasöm löggjöf og mjög viðkvæm löggjöf. Ég tel það varhugavert að breyta henni í stórum dráttum án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Ég held að það sé fráleitt að reyna ekki að leita samráðs við lífeyrissjóðina því að það eru þeir sem borga brúsann og það þýðir út af fyrir sig lítið að setja lög ef lífeyrissjóðirnir vilja ekki kaupa skuldabréfin. Ég legg höfuðáherslu á að það verður að liggja fyrir að lífeyrissjóðirnir sætti sig við þá skipan mála sem upp verður tekin.

Það hefur verið unnið stórvirki í húsnæðismálum á undanförnum árum, en enn þarf að bæta í ljósi reynslu. Hítin er miklu stærri en menn gerðu sér grein fyrir og það verður að reyna að komast að samkomulagi um hvernig heppilegast sé að fylla hana.

Ég vil gjarnan hafa gott samstarf við hæstv. félmrh. um endurbætur á húsnæðislöggjöfinni. Það samstarf verður þó að sjálfsögðu að byggjast á því að við leitum samkomulags um þau atriði sem til ágreinings geta orðið. Ráðherrann má alls ekki búast við að hún fái allt sem henni dettur í hug. Ráðherrann er ný í starfi og hefur alla sína þingtíð hingað til verið í stjórnarandstöðu og haft þar svigrúm til að flytja mál eftir geðþótta sínum, en nú eru bara breyttir tímar. Hún er ekki að bera fram frv. sem stjórnarandstöðuþingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir. Hún er að bera fram frv. ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. (SJS: Er ræðumaður með kennararéttindi?) Hann hefur töluvert gott upplag til að kenna og gæti leiðbeint hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um eitt og annað ef við hefðum tækifæri til. Núna er ég hins vegar að beina orðum mínum til hæstv. félmrh. Og mig langar til að upplýsa hana um rétta boðleið eða þá boðleið sem ég tel vera rétta við undirbúning stjfrv. Ef ráðherra hefur áhuga á því að bera fram frv. sem hann hefur látið semja eða samið sjálfur á hann að viðra það í ríkisstjórninni, við hina ráðherrana. Ef þeim þykir þetta frv. vera umræðuvert fara þeir með það inn í sína þingflokka þar sem málið er rætt. Þegar þingflokkarnir hafa tekið málið til ítarlegrar meðferðar verður að samræma þau sjónarmið sem ríkjandi eru þar. Þegar frv. hefur verið breytt í þá veru er það samþykkt í öllum þingflokkum stjórnarliðs. En fyrr en þetta hefur verið gert getur ráðherra ekki vænst þess að frv. sé á sléttum sjó. Fyrr en þetta hefur verið gert er ekki hægt að handjárna stjórnarliðið.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra sjái sér fært að fara eftir þessari forskrift og ég vona . .. (SighB: Viltu ekki sýna hér handjárnin líka, Páll?) Það getur verið að við fáum tækifæri til þess að láta finna fyrir þeim, Sighvatur, einhvern tímann seinna. Ég vona að hæstv. ráðherra þroskist og verði farsæl í starfi. Hún hefur mjög marga góða kosti og ég óska henni hins besta í embætti. Hún er vinnusöm og iðin svo að til fyrirmyndar er. Og ef hún temur sér virðingu fyrir skoðunum annarra og lipurð í samstarfi er ég viss um að hún á eftir að verða farsæll félmrh.

Ég vil leyfa mér að ráðleggja hæstv. félmrh. að heimsækja hæstv. samgrh. að sjúkrabeði og fá hjá honum ráðleggingar um hvernig hún eigi að undirbúa málflutning og hvernig hún skuli fylgja sínum áhugamálum úr hlaði. Því að með fullri virðingu fyrir öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar hygg ég að samgrh. sé öðrum ráðherrum snjallari að fá vilja sinn án þess að þurfa að beita yfirgangi.

Ég vona að félmn. hv. deildar takist að lagfæra þetta frv. og gera það þannig úr garði að það verði húsnæðislöggjöfinni til bóta og að við getum afgreitt það héðan frá Alþingi. Ég vænti þess og treysti því að hæstv. félmrh. hafi þá auðnu að hún taki þessari tilsögn og temji skap sitt. Hún þarf náttúrlega ekki að láta sér detta í hug að hægt sé að nauðga heilum stjórnmálaflokkum til þess að gera eitthvað allt annað en þeir vilja.