16.02.1988
Efri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4607 í B-deild Alþingistíðinda. (3197)

276. mál, lögreglusamþykktir

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég fagna frv. sem hér hefur verið lagt fram. Ég held að það sé í flesta staði til bóta því að í núgildandi lögreglusamþykktum eru mörg ákvæði úrelt og með frv. er að því er mér sýnist verið að taka með samræmdum hætti á þessum málum. En það sem rak mig upp er eitt ákvæði, þ.e. 2. mgr. 6. gr. frv. Þar segir:

„Ef kenna má yfirsjón barns skorti á hæfilegri umsjón foreldris eða þess er gengur barninu í foreldris stað skal refsa þeim fyrir yfirsjónina.“

Ég mundi vilja gera fyrirvara varðandi þetta. Nú er mér ekki fullkunnugt um hvort þetta hefur verið í eldri lögum, en ég held að það sé varhugavert að refsa foreldri fyrir að gæta ekki barnsins með nægilegum hætti. Það eru þannig þjóðfélagshættir hér að foreldrar báðir vinna úti, börn koma kannski heim kl. 2 til 3 á daginn og koma að tómu heimilinu. Verði þau sér kannski eitthvað að skaða við eitt eða annað yrði foreldrinu dæmd refsing eða sekt fyrir að gæta ekki barnsins.

Það er ein af grundvallarreglum lögfræðinnar a.m.k. að engum verði til sakar fundið fyrir brot annars manns. Ég held að það skipti ekki máli hvort þarna er um barn að ræða eða annan aðila. Ég minntist, þegar ég las þessa grein, dóms sem gekk fyrir nokkuð mörgum árum og fjallaði um skaðabótaábyrgð. Það var sjö ára drengur sem skaut af boga í auga að mig minnir átta eða níu ára gamals drengs. Foreldrar þess drengs fóru síðan í skaðabótamál við foreldra hins. á því var byggt í málinu að þeir hefðu ekki gegnt þeirri skyldu að sjá um að barnið hefði ekki með bogann að sýsla. Þau voru sýknuð af þeirri bótakröfu. Þar sem það virðist vera gildandi réttur varðandi skaðabótaábyrgð hingað til að foreldrar eru ekki gerð skaðabótaábyrg fyrir vanrækslu á umsjón með börnum held ég að það sé frekar óeðlilegt að þau verði gerð refsiábyrg fyrir því. Þetta er eina ákvæðið, sem ég sé í fljótu bragði, sem ég mundi vilja gera athugasemd við. En þetta kemur til allshn. og ég á von á að þetta frv. hljóti þar jákvæða afgreiðslu, a.m.k. af hálfu minni og míns flokks. Ég tel sem sagt frv. vera til bóta.