16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4610 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. var ekki ýkja margorður um stöðu sjávarútvegsins þegar hann mælir hér fyrir þessu frv. um aðgerðir í sjávarútvegi. Hefði þó einhverjum dottið í hug að hæstv. ráðherra færi nokkrum orðum, a.m.k. svona fáeinum almennum orðum yfir sviðið þegar hann mælir hér fyrir sérstöku frv. til l. um aðgerðir í sjávarútvegi. Þó ekki væri annað en að greina hv. Alþingi frá stöðu mála. Ég hygg að upplýsingar, sem fram koma í athugasemdum við frv. á bls. 2 þó það sé ekki ýkja gamalt, séu nú þegar úreltar. Það segir neðarlega á bls., með leyfi forseta:

„Rekstrarskilyrði fiskvinnslunnar hafa gjörbreyst til hins verra frá því er bráðabirgðalögin voru sett í júlí sl. Vegur þar þyngst þróun gengismála og innlendar kostnaðarhækkanir. Er nú svo komið að fiskvinnslan er rekin með nokkru tapi að mati Þjóðhagsstofnunar.“

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. sjútvrh. örlítið nánar út í þetta mál. Hvað er átt við með nokkru tapi? Og hvað eru þær upplýsingar gamlar sem lágu til grundvallar orðalagi í grg. frv.?

Mér segja kunnugir aðilar um afkomu í sjávarútvegi og rekstri fiskvinnslunnar, einkum og sér í lagi frystingarinnar, t.d. þeir sem standa í því þessa dagana að gera upp reikninga ársins 1987, gera bráðabirgðauppgjör eða ganga frá reikningum, að þar komi greinilega fram að afkoman á síðari helmingi ársins sé mun lakari en menn höfðu reiknað með og væntanlega lakari en Þjóðhagsstofnun byggði mat sitt á frá því í október og nóvember sl. sem mun liggja til grundvallar mati Þjóðhagsstofnunar á þeim rekstrartölum sem hún hefur síðastar út gefið. A.m.k. var síðasta yfirlit sem ég sá frá Þjóðhagsstofnun um rekstrarstöðu sjávarútvegsins, dagsett síðla janúarmánaðar, byggt að mestu leyti á aðstæðum eins og þær voru taldar vera í sjávarútveginum í nóvember eftir ákvörðun fiskverðs þá. En jafnframt sagði Þjóðhagsstofnun í þessum pappír að ljóst væri að afkoman færi versnandi.

Hér er að vísu á ferðinni úrelt mál ef svo má að orði komast. Hér er flutt frv. samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður svo á að staðfesta skuli bráðabirgðalög á Alþingi, hinu næsta sem situr eftir að bráðabirgðalögin eru sett ef ég man rétt. En þetta frv. sem hér er flutt gerir í raun og veru ráð fyrir því að þau ákvæði sem mestu máli skiptu í bráðabirgðalögum frá því í júlí í sumar verði felld úr gildi, þ.e. að ekki verði endurgreiddur söluskattur heldur gangi hann til Verðjöfnunarsjóðs og safnist þar upp.

Þannig er þessi ein af fyrstu efnahagsráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar þegar úrelt orðin og það undirstrikað með sérstökum frumvarpsflutningi hér á Alþingi. Þetta hefur svo sem komið fyrir áður en vekur óneitanlega spurningar upp um það hversu markvissar þær ráðstafanir voru, sem hæstv. ríkisstjórn greip til á sl. sumri, þegar nú þegar er orðin ástæða til að flytja lagafrumvörp til að nema úr gildi þær ráðstafanir sem þá var gripið til og sem rökstuddar voru með því, eins og segir í formála forseta Íslands, þar sem hann rökstyður nauðsyn þess að setja lögin: „að brýna nauðsyn beri til að grípa þegar til efnahagsráðstafana til þess að hemja verðbólgu og treysta jafnvægi í þjóðarbúskap, þar á meðal séu ráðstafanir í sjávarútvegi til að draga úr þenslu og jafna aðstöðu milli greina innan sjávarútvegsins“ o.s.frv.

Þetta virðist sem sagt hafa snúist við og það heldur rækilega. Þó að hér sé í sjálfu sér ekki um mikilvægt mál að ræða og næsta sjálfgefið að við þær aðstæður sem nú eru uppi hljóti menn að falla frá áformum um að hætta við að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt, þá held ég að það væri fyllilega eðlilegt, herra forseti, við þessar aðstæður að hæstv. sjútvrh. gerði aðeins ítarlegar grein fyrir stöðu mála jafnframt því hvaða ráðstafanir aðrar kynnu að vera á döfinni í hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum.

Ég hygg að það sé ekkert óeðlilegt við það að leggja slíkar spurningar fyrir hæstv. sjútvrh. sem fagráðherra í greininni þó að það virðist vera nokkuð á reiki að vísu hver fari með ábyrgð og yfirstjórn efnahagsmálanna í þessari hæstv. ríkisstjórn ef marka má orðaskipti hæstv. ráðherra í blöðum og öðrum fjölmiðlum um þau efni undanfarið.

Ég vil í öllu falli leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. sem fagráðherra þessara mála hver sé hans afstaða í þessum efnum, hverjar hann telji nú raunverulegar rekstraraðstæður í íslenskum sjávarútvegi, hinum einstöku greinum í fiskverkun, eins og frystingu og öðrum, og hvað hæstv. ráðherra telji að gera þurfi á næstu mánuðum til að tryggja afkomu fiskvinnslunnar, koma í veg fyrir það að fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki út um allt land stöðvist, hvort hæstv. ráðherra muni leggja til eða hafi lagt til innan ríkisstjórnarinnar ráðstafanir í þessum efnum, og hverjar viðtökur slíkar hugmyndir hafi þá fengið ef einhverjar hafa verið af hans hálfu.