16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4624 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. kom að nokkrum punktum sem ég vil gjarnan svara vegna þess að þeir punktar segja kannski meira en í fljótu bragði má ætla.

Hann sagði að ekki hefði verið hægt að reka ríkissjóð með halla. Ég er honum alveg sammála þar, en það er ekki sama hvernig hallinn er réttur við eða hvernig hann verður til þó að það séu skiptar skoðanir í ríkisstjórnarliðinu um það hvort ríkissjóð má reka með halla eða ekki og vísa ég þar í fjármálaséní ríkisstjórnarinnar Eyjólf Konráð eins og oft hefur verið vitnað í hvað það snertir.

En hæstv. ráðherra sagði að skattheimtan væri of lífil miðað við þau útgjöld sem fyrir hendi eru. Er það virkilegt að hæstv. ráðherra geti ekki látið sér detta í hug að útgjöldin séu skorin við nögl, ef við tölum um tekjurnar, en tekjurnar ekki alltaf auknar? Fólkið þolir mismunandi mikið. Sumir þola mikið, aðrir þola lítið. Ég held að meiri parturinn af þjóðinni þoli ekki þær miklu álögur sem nú hafa dunið yfir til að mæta fjárlagaútgjöldum sem eru 50% hærri í krónutölu fyrir 1988 en fyrir 1987. Það er mjög athyglisvert ef það er almenn skoðun í ríkisstjórninni og í ríkisstjórnarliðinu að það sé engin önnur leið út úr fjármálum en að halda áfram að eyða og eyða og leggja á þyngri og þyngri skatta, að sparnaðarleiðin sé ekki í myndinni.

En hann sagði líka: Það þýðir ekki að stofna til útgjalda ef ekki er aflað tekna á móti. Það er þetta sem ég er að vara við. Að stofna ekki til útgjalda er kúnstin. Að eyða ekki fyrir fram, að slá ekki út á áætlaðar umframtekjur, það var mesti vandinn fyrir mig sem fjmrh. að koma í veg fyrir, að eyða ekki fyrir fram því sem var áætlað umfram í tekjum.

Ég vil líka benda hæstv. ráðherra á að launaskatturinn, sem hann gerði lítið úr, er stórt dæmi í því sem við erum að tala um. Í 1. gr. er talað um 455 millj. kr. endurgreiðslu fyrir árið 1977, í c-liðnum er talað um 220 millj., en launaskatturinn átti að gefa rúmar 400 millj. og þar af, eftir því sem ég hef komist næst, átti þetta 1% að gefa 300 millj. í ríkissjóð af sjávarútveginum. Þetta er ekkert lítið dæmi. Þetta er stórt dæmi. Ég harma að ráðherra skyldi ýta þeirri spurningu sem kom frá hv. 10. þm. Reykn. svo léttilega frá sér, eins og hér væri um spurningu að ræða sem væri svo lítilvæg að henni væri tæplega svarandi.

Það er rétt að aukin eftirspurn eftir vinnuafli skapar ákveðna þenslu, en við höfum takmarkað vinnuafl. Þetta vinnuafl er beðið um að vinna óheyrilega langan vinnutíma og fær greitt fyrir þá aukatíma sem það vinnur, en af því það fær greitt þannig að það eykur kaupgetu fólksins, sem leggur mikið á sig, er öskrað: Þensla, þensla. Við verðum að ná þessum peningum af fólki með sköttum. Við erum að láta það vinna aukavinnutímana, en við verðum að ná í aukavinnutekjurnar af því til að koma í veg fyrir að það njóti þeirra tekna sem það getur skapað sér til viðbótar við það sem talið er eðlilegt af ríkisstjórninni. Og þetta, segir hann, skapar aukna eftirspurn eftir peningum og aukin eftirspurn eftir peningum skapar þenslu á lánamarkaðnum og það kallar á hærri vexti. Þetta er að litlum hluta rétt. Við horfum á það í hvert skipti sem ríkissjóðsvíxlar falla. Og ríkissjóður er gjaldþrota. Hann getur ekki staðið í skilum. Það er útilokað. Í hvert einasta skipti sem ríkissjóðsvíxlar falla í gjalddaga og á að standa í skilum koma nýir ríkissjóðsvíxlar á markaðinn með hærri vöxtum og jafnvel afföllum vegna þess að ríkissjóður verður að fá fólkið til að skuldbreyta í staðinn fyrir að taka út peningana. Og hver er það sem skapar háa vexti? Hver er það sem skapar spákaupmennsku? Það er ríkissjóður, ríkisstjórnin sjálf og ríkisbankarnir. Og svo ætlar hæstv. ráðherra að tala hér á Alþingi eins og þetta sé einhverjum vondum einstaklingum úti á vinnumarkaðnum að kenna, að athafnaþrá fólksins í landinu skapi þenslu sem þjóðfélagið ræður ekkert við. Þetta er rangt og á ekki heima hér svona tal.