16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4640 í B-deild Alþingistíðinda. (3215)

271. mál, framhaldsskólar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fagna því að hæstv. menntmrh. hefur lagt fram frv. um framhaldsskóla. Ég tel það höfuðnauðsyn í íslenskum skólamálum að hreyfing verði á málefnum framhaldsskólans. Að vísu tel ég að frv. sé gallað í mörgum atriðum. Ég er ósamþykkur stefnu þess í ýmsum mikilvægum greinum og ég undrast ýmis ákvæði þess. En ég endurtek að ég tel það ánægjulegt að frv. skuli vera komið fram og að við hér í þinginu sjáum það lífsmark í málefnum framhaldsskólans sem frv. felur í sér.

Ég sagði að ýmis ákvæði frv. vektu hjá mér undrun. Ég á þar sérstaklega við kostnaðarákvæði frv. því að það á að heita yfirlýst áform þessarar ríkisstjórnar að stokka upp verkefni ríkis og sveitarfélaga og eitt af því sem til stóð og margoft hefur komið fram er einmitt það að ríkið taki að sér allan kostnað við byggingu framhaldsskóla. Það er því alveg augljóst mál að það sem fram kemur í frv. stangast illilega á við þær yfirlýsingar sem um það hafa verið gefnar.

Nú er ég ekki að segja með þessu að ég persónulega telji það alveg óhjákvæmilegt að ríkið taki á sig allan kostnað við byggingu framhaldsskóla. Ég er einungis að vekja á því athygli að frv. er ekki í samræmi við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið um áform ríkisstjórnarinnar um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Ég kemst heldur ekki hjá því að vekja á því athygli að frv. stefnir nokkuð í öfuga átt við það sem áður hefur komið fram. Það er ekki aðeins að ekki sé neitt haldið í þá átt að taka þetta verkefni af sveitarfélögunum. Það er beinlínis verið að leggja á þau þyngri byrði með þessu frv. en þau báru áður.

Ákvæðin um skólabyggingarnar eru að vísu óbreytt. Samkvæmt núverandi skipulagi hvað fjölbrautaskóla varðar ber ríkið 60% kostnaðar en sveitarfélög 40%. Varðandi menntaskólana borgar hins vegar ríkið allan kostnaðinn eins og við þekkjum og svo aftur varðandi iðnskólana borgar ríkið helming. Ef við segjum að aðalreglan í dag sé þessi 60/40%-regla má segja varðandi skólabyggingarnar að þar sé um óbreytt hlutföll að ræða. En þegar við komum að heimavistarhúsnæðinu er greinilega verið að stíga skref aftur á bak vegna þess að heimavistir við fjölbrautaskóla úti um land hafa verið kostaðar 100% af ríkinu ef fleiri sveitarfélög hafa staðið að byggingunni. Þannig stendur t.d. á um byggingu Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki þar sem mörg sveitarfélög standa að byggingunni. Ríkið tekur þátt í þeim kostnaði 100% þó að vísu sé síðan niðurstaðan sú að sveitarfélagið borgar að mig minnir 3% á móti 97% vegna þess að skólabyggingin fer eitthvað umfram norm miðað við hina almennu reglu sem að sjálfsögðu er nokkuð sem kemur þessu máli ekki beinlínis við. Staðreynd er að þar sem sveitarfélög vilja hafa samvinnu um byggingu heimavista í tengslum við fjölbrautaskóla borgar ríkið uppbyggingu þeirra. En það er ekki hægt að lesa neitt annað út úr frv. en að nú eigi að breyta þessu þannig að sveitarfélögin eigi líka að borga 40% af byggingarkostnaði heimavistanna.

Ég sagði það hér áðan að ég væri ekki þeirrar skoðunar að það þyrfti endilega að vera svo að ríkið tæki á sig allan kostnað við byggingu framhaldsskóla. Sú stefna er ekkert einhlít að mínu áliti og ég viðurkenni að það kemur ýmislegt til greina. Það er alveg hárrétt sem hæstv. menntmrh. sagði áðan að það felur auðvitað í sér vissa kosti að gera sveitarfélögin ábyrg fyrir vissum hluta kostnaðarins, þannig að kröfugerð þeirra verði raunsærri og niðurstaðan því heppilegri fyrir alla aðila.

Ég vek á því athygli að í frv. um framhaldsskóla sem flutt var þegar ég gegndi embætti menntmrh., árið 1979, var gert ráð fyrir þeirri skipan að á fyrsta og öðru ári framhaldsskólans væri sama kostnaðarskipting og er í grunnskólanum, fyrst og fremst með þeim rökum að það er mjög algengt að t.d. fyrsta ár í framhaldsskóla fari fram í húsnæði grunnskólanna, sérstaklega þar sem kannski er einungis boðið upp á þetta eina ár af framhaldsskólanámi og síðan fara þá nemendurnir í fjölbrautaskóla á síðara stigi. Nú má vel vera að þetta hafi verið að breytast og að þessi regla hafi kannski þótt sjálfsagðari 1979 en hún þykir í dag. Ég vek sem sagt á því athygli að þegar ég sem menntmrh. flutti frv. um þetta gerðum við ráð fyrir því að á fyrstu tveimur árunum væri sama skiptingin og er varðandi kostnaðinn við byggingu grunnskólanna, en svo aftur á árunum sem fylgdu á eftir borgaði ríkið allan kostnaðinn, 100%.

Aftur á móti ef litið er á frv. okkar alþýðubandalagsmanna sem ég mælti fyrir fyrir einu ári og svo aftur núna í haust er þar gert ráð fyrir því að ríkið borgi 80% stofnkostnaðarins en hins vegar borgi ríkið allan kostnað við byggingu heimavistanna.

Ég tel það satt best að segja mjög einkennilegt að hæstv. menntmrh. skuli leggja fram frv. þar sem gert er ráð fyrir að stíga skrefið aftur á bak og þyngja byrðina verulega hjá sveitarfélögum úti um land varðandi uppbyggingu heimavistanna. Ég veit hins vegar að í frv. er heimildarákvæði þar sem segir að þegar um verknámshúsnæði er að ræða og búnað þess sé heimilt að setja aðrar kostnaðarreglur, en mér virðist að það sé ekki nein sérstök heimild til undanþágu varðandi heimavistirnar og það tel ég vera alveg fráleitt.

Annað sem ég undrast í sambandi við kostnaðarákvæði frv. eru ákvæðin í 32., 33. og 34. gr. Þar er um óbreytt ákvæði að ræða frá því sem var í frv. sem flutt var af hæstv. fyrrv. menntmrh., Sverri Hermannssyni, en það segir í 2. mgr. 32. gr.: „Framlög ríkissjóðs til rekstrar framhaldsskóla skulu miðuð við að sem næst jafnhátt framlag komi á hvern nemanda í fullu námi hvar sem er á landinu.“

Ég segi það hreint út: Ég undrast að hæstv. menntmrh. skuli koma með frv. og þetta ákvæði óbreytt. Ég hélt að menn hefðu áttað sig á því að vandamál af þessu tagi verða ekki leyst með þríliðureikningi og ákvörðun framlaga á grundvelli þessarar greinar er of mikil einföldun á þeim veruleika sem við okkur blasir út um landsbyggðina. Þannig dæmi ganga hreinlega aldrei upp. Útreikningur af þessu tagi getur aldrei orðið í samræmi við bráðnauðsynlegar þarfir skólanna út um landið. Þá á ég auðvitað ósköp einfaldlega við það að kostnaður pr. nemanda getur aldrei orðið sá sami í fámennari héruðum og á skólasvæðum þar sem tugþúsundir manna búa og nemendaframboð er auðvitað miklu meira en í fámenninu.

Í 34. gr. segir: „Við ákvörðun fjárveitinga til kennslu í framhaldsskólum skal miða við grunntöluna 1,7 til 2 kennslustundir á viku fyrir hvern nemanda í fullu bóknámi eftir stærð og gerð skóla.“ Ég er ansi hræddur um að þessi regla sé líka nokkuð stíf og þröng og miðist fyrst og fremst við skólana í mesta þéttbýlinu og að hún mundi fela í sér niðurskurð kennarastarfa þar sem nemendaframboðið er fábreyttara en það er í þéttbýlinu. Ég gæti nefnt tölur máli mínu til stuðnings en tel nú að málið sé þess eðlis að það ætti kannski betur að fara yfir það í nefnd sem um þetta mál mun fjalla, þ.e. hv. menntmn. deildarinnar, og geymi mér að rekja það hvernig þetta kemur út fyrir skólana í hinum fámennari byggðarlögum.

Ég hef nefnt hérna tvö atriði sem varða kostnaðarhliðina, hvort tveggja atriði sem ég undrast. En þá kem ég að hinni almennu stefnu sem felst í frv. og ég er í grundvallaratriðum ekki sáttur við. Þar á ég ósköp einfaldlega við það að í frv. er meiri miðstýringartilhneiging en ég get fellt mig við. Ég álít að það sé tímans kall að dreifa valdinu meira en nú er gert og ég held að það sé löngu orðið tímabært að menntmrn. láti af hendi nokkurt það vald sem það býr yfir út í skólaumdæmin þannig að heimamenn hafi meira með stjórn þessara skóla að gera en þeir gera nú. Ég vek á því athygli að í frv. er gert ráð fyrir að ráðherra skipi formann skólanefndar í hverju umdæmi og það án tilnefningar. Hann gerir það bara eftir sinni hentisemi og þarf ekkert að hlusta eftir því hvað heimamenn hafa um það mál að segja.

Síðan á hann í öðru lagi að skipa alla hina skólanefndarmennina en að vísu eftir tilnefningu. Þó er það athyglisvert að hann á að skipa þá eftir reglum sem hann hefur sjálfur sett. Hann á sjálfur að ákveða hverjir eiga að tilnefna þannig að hann hlýtur að hafa mikil óbein áhrif á það með hvaða hætti tilnefningarnar eiga sér stað.

Í þriðja lagi á svo hæstv. ráðherra að skipa skólameistara eins og reyndar nú er gert og má segja að það sé engin breyting frá því sem nú er en spurning hvort ekki sé orðið löngu tímabært að breyta þessu atriði og þar mundu skólanefndirnar einungis hafa tillögurétt. Þær mundu ekki hafa rétt til þess að velja skólameistara. Þar ætti ráðherrann seinasta orðið áframhaldandi eins og nú er.

Og svo loks í fjórða lagi mundi ráðherrann sjálfur ákveða alla fasta kennara við alla skólana en skólanefnd og skólameistari hefðu einungis tillögurétt. Ég vek á því athygli að lögin gefa hvorki nemendum né kennurum rétt til áhrifa á skipun skólanefndarinnar og fræðsluráð fyrir framhaldsskólakerfið í umdæminu er ekkert til. Það er enginn fræðslustjóri fyrir þetta stig út um landið þannig að ég tel alveg augljóst mál að áhrif heimamanna yrðu mjög undir hælinn lögð og þá á ég auðvitað alveg sérstaklega við áhrif skólamanna í viðkomandi skólahéruðum og áhrif sveitarstjórnarmanna.

Ég mælti í haust fyrir frv. sem við alþýðubandalagsmenn flytjum um sama efni, um framhaldsskólann. Ég ætla ekki að fara að rekja hér efni þess, enda er ég búinn að gera grein fyrir því hér í þessari sömu hv. deild, en ég get þó ekki látið hjá líða að bera saman þessi tvö frv. og þá alveg sérstaklega þetta atriði sem ég hef núna gert að umtalsefni, þ.e. stjórnskipun framhaldsskólans. Samkvæmt okkar frv. er það ekki einungis ráðuneytið sem hefur yfirstjórn framhaldsskólanna. Þar kemur líka fræðsluráð, nýkjörið fræðsluráð við sögu og þar verða uppeldismálaþing til ráðgjafar. Síðan er gert ráð fyrir því að skólasamfélagið, þ.e. kennarar, nemendur og annað starfslið kjósi skólastjórn og skólastjórnin ráði skólameistara til fjögurra ára í senn. Það er ekki ósvipað fyrirkomulag og er við Háskóla Íslands í dag. Síðan mundi þá skólastjórnin ráða kennarana og skólastjórnin mundi kjósa sér formann. Ég þarf auðvitað ekki að vekja frekari athygli á því að þarna er sem sagt verið að færa völdin frá menntmrn. til viðkomandi fræðsluumdæmis, til viðkomandi skólasamfélags og á þessu tvennu er auðvitað meginmunur.

Ég vek á því athygli að í frv. ráðherra sem við erum hér að ræða um er talað um að ráðuneytið geri námsskrá fyrir skólana og orðalagið felur í sér að þar hljóti að vera um talsverða miðstýringu að ræða. Við reyndum í okkar frv. að draga úr þessari miðstýringu með því að tala um rammanámsskrá því að með því orðalagi er greinilega verið að gefa undir fótinn með það að síðan sé fræðsluumdæmum og skólunum ætlað að fylla út í námsskrá sem sé svona fyrst og fremst mótuð í meginatriðum af ráðuneytinu. Á þessu er viss áherslumunur eins og allir hljóta að skilja.

Þrátt fyrir þessa gagnrýni sem hefur komið fram hjá mér vil ég taka skýrt fram að ég tel að fjöldamörg ákvæði í frv. séu með ágætum, þau séu jákvæð og gagnleg og horfi til bóta. Mörg þeirra eru reyndar hliðstæð ákvæðum sem eru í frv. sem við fluttum í haust og í öðrum þeim frv. sem flutt hafa verið um málefni framhaldsskólans. Það er enginn vafi á því að það er mikil nauðsyn á setningu laga um framhaldsskólann til að laga og leiðrétta ýmislegt sem nú er ekki í lagi og einkum og sér í lagi að leiðrétta ýmiss konar misrétti sem uppi er á þessu sviði. Ég endurtek enn einu sinni að ég er alls ekki að gagnrýna frv. vegna þess að ég vilji vísa því á bug og að ég telji að það sé illt að það hafi komið fram, þvert á móti, ég fagna því.

Menntmrh. Sjálfstfl. hafa verið hér hver af öðrum nú í fimm ár og það verður að segjast alveg eins og er að á þessum tíma hefur verið harla lítil hreyfing á málefnum framhaldsskólans. Í tíð fyrrv. menntmrh. Ragnhildar Helgadóttur var ekki flutt neitt framhaldsskólafrv. og í tíð fyrrv. menntmrh. Sverris Hermannssonar var flutt eitt frv. um framhaldsskólann, sem þó fékk ekki að heita stjfrv. heldur einungis persónulegt frv. ráðherrans og var ljóst að því var ekki ætlað líf heldur einungis verið að kynna það. Nú er þó lagt fram stjfrv. og það hlýtur að fela í sér að þar stendur ríkisstjórn á bak við. Það er þó þrátt fyrir allt ákveðið framfaraspor sem ber að fagna.

Ég hef hins vegar vakið á því athygli hér að viss ákvæði frv. eru mjög gölluð, fyrst og fremst kostnaðarákvæðin, og eitt ákvæði er alvarlegt spor aftur á bak, en það er ákvæðið um heimavistirnar. Við höfum mátt búa við það alllengi að ekki hefur verið til nein heildarlöggjöf um framhaldsskólann. Auðvitað má segja eins og margur maðurinn hefur sagt: Hefur ekki framhaldsskólinn verið að þróast þrátt fyrir allt og eftir sem áður? Hefur þetta ekki gengið þótt engin löggjöf hafi verið fyrir hendi nema þá þessi ófullkomna löggjöf um fjölbrautaskólana sem fyrir hendi er í dag? Jú, jú, það má segja að málin hafi þróast og þau hafa þróast í rétta átt. En við getum ekki lokað augunum fyrir þeirri staðreynd að það er misrétti í kerfinu, það er mikið misrétti ríkjandi gagnvart sveitarfélögunum. Þau standa mjög misjafnlega að vígi eftir því hvort verið er að byggja t.d. menntaskóla eða fjölbrautaskóla á þeirra vegum eða á þeirra svæði og eins er misrétti ríkjandi annars vegar gagnvart bóknámi og hins vegar hvað varðar verknám.

Lögin verða auðvitað aldrei annað en rammi og ég legg á það áherslu hér að lokum að sá rammi verður að vera víður og frjálslegur. Það er einmitt mjög nauðsynlegt að skólarnir fái áfram að þróast í ákveðnu frjálsræði. Því miður tel ég það einmitt vera megingallann á þessu frv. að það er ekki í takt við tímann að þessu leyti. Tími okkar krefst frjálslegrar þróunar og valddreifingar en ramminn sem felst í þessu frv. er of þröngur, hann er of stífur og þar er of mikil miðstýring. Hefði maður nú síst af öllu átt von á því frá ráðherrum Sjálfstfl. en í þessum efnum er sem sagt lítt á það að treysta.