16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4656 í B-deild Alþingistíðinda. (3218)

271. mál, framhaldsskólar

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki draga þessa umræðu á langinn. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þessa umræðu og þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið. Hér hafa farið fram mjög málefnalegar umræður um efni þess og mér virðist af þeim umræðum að um þetta frv. ætti að geta tekist allgott samkomulag hér á hv. Alþingi. Ég sagði það sjálfur í minni framsöguræðu að í frv. af þessu tagi sem væri nýsmíði, um framhaldsskólann, hlytu að vera mörg álitamál og ég geri mér fulla grein fyrir því sjálfur þar sem ég átti sæti í nefndinni sem samdi frv. að það eru atriði í frv. sem taka má á á ýmsan veg og væntanlega fara þá nánari umræður fram um þau atriði í þingnefndinni.

Ég vil aðeins gera nokkrar athugasemdir við það sem hefur komið fram og byrja á því sem hv. 4. þm. Norðurl. v. gat um þar sem hann taldi að með ákvæðum þessa frv. væri verið að leggja meiri byrðar á sveitarfélög en þau hafa nú. Þetta tel ég ekki vera. Það er ljóst að sveitarfélög sem hafa haft menntaskóla innan sinna vébanda þurfa að taka á sig samkvæmt þessu frv. aukinn kostnað við stofnun þessara skóla. Af sveitarfélögum sem hins vegar hafa fjölbrautaskóla og iðnfræðsluskóla er létt kostnaði sem þau hafa haft varðandi rekstur skólanna og samkvæmt þeim útreikningum sem fyrir lágu með frv. sem lagt var fram i vor kom það fram að það skipti verulegum fjárhæðum sem flutt var af sveitarfélögum yfir á ríkið samkvæmt þessu frv.

Varðandi þá gagnrýni að kostnaðarákvæði frv. miðist frekar við þéttbýli en dreifbýli get ég nú reyndar látið nægja að vísa í það sem hv. 6. þm. Suðurl. sagði um það efni. Mér sýnist að þó að í frv., og það er a.m.k. full meining með því, sé um það talað að framlag ríkissjóðs til rekstrar framhaldsskóla skuli ákveða sem tiltekna upphæð á nemanda árlega eru svo miklir fyrirvarar varðandi þessa reglu í 34. gr. að það er alveg ljóst að með þeim fyrirvörum á að vera hægt að koma til móts við fámennari sveitarfélög þar sem vitað er auðvitað að kostnaður á nemanda er hærri en í þéttbýli.

Ég er heldur ekki sammála þeim ummælum hans að í þessu frv. sé meiri miðstýring en hefur verið hingað til. Ég skal að vísu fúslega játa að í frv. því sem Alþb. hefur flutt eða þm. þess um framhaldsskólann er gert ráð fyrir nokkuð öðru stjórnunarformi sem að sumu leyti felur í sér meiri valddreifingu en þetta frv. en að öðru leyti meiri miðstýringu einnig. En það sem að er stefnt með þessu frv. er að flytja bæði faglegt og fjárhagslegt vald út til skólanna sjálfra án þess að hafa nokkurt millistig í fræðsluráðum eða fræðslustjórum sem taka yfir stærri umdæmi. Ég tel að með þessu sé flutt vald sem raunar muni marka tímamót varðandi stjórn framhaldsskólanna í landinu.

Varðandi þau atriði sem hv. 12. þm. Reykv. gat um og spurði sérstaklega um eru mörg þeirra þess eðlis að það er eðlilegt að ræða þau nánar í menntmn. þessarar hv. deildar. Hún fjallaði allmikið í sinni ræðu um að kennarar virtust samkvæmt þessu frv. ekki hafa nægilega mikið vald í stjórnun skólanna. Það sem fyrirhugað er með skólanefndunum sem hafa æðimikið vald samkvæmt frv. er að þetta vald sé flutt frá menntmrn. í hendur heimamanna og þá fyrst og fremst fulltrúa sveitarfélaga og fulltrúa atvinnulífsins. Þetta er mismunandi eftir skólategundum og þess vegna var sú leið valin í frv. að í stað þess að kveða skýrt á um það að sveitarstjórnir tilnefndu þessa menn ætti að setja nánari reglur um tilnefninguna með reglugerð. Um það má auðvitað deila hvort eigi að færa það aftur í eldra horfið eða ekki.

En ég tel það skipta mjög miklu máli varðandi stjórn framhaldsskólanna að þeir séu opnir fyrir áhrifum fólks sem stendur utan við skólana. Sannleikurinn er sá að sú gagnrýni heyrist æðioft á okkar skóla hér á landi og sú umræða fer fram, t.d. á Norðurlöndum og víðar, að skólarnir séu of lokaðar stofnanir, að í skólunum hrærist fyrst og fremst nemendur og kennarar og sjónarmið aðila utan þessara stofnana komist ekki að.

Auðvitað er það ljóst að kennarar og starfslið skólans eiga að hafa mikil áhrif á starfsemi skólans og stjórn hans og það má segja að þeir hafi auðvitað öll undirtökin í því hvernig skólastarfið fer fram, eðli málsins samkvæmt. Ég tel hins vegar að það sé mjög nauðsynlegt að opna ákveðna þætti í stjórn skólanna til fólksins sem býr þar sem skólarnir starfa, bæði varðandi fjármál, varðandi ýmsa faglega þætti, varðandi framboð náms t.d., og að þessu er stefnt með frv. Það þarf að finna hinn gullna meðalveg, annars vegar á milli þeirra eðlilegu og sjálfsögðu áhrifa sem kennarar og starfslið skólans hafa á starfsemi hans og hins vegar þau nauðsynlegu áhrif sem fólkið í byggðum landsins þarf að geta haft á skólastarfið. Þess vegna var þessi leið valin að skipta nánast stjórnun skólans upp í annars vegar skólanefndir sem skólameistari er framkvæmdastjóri fyrir og stjórna framkvæmdum skólans og hafa auðvitað allmikil völd eins og fram kemur í 9. gr. og reyndar 8. gr. frv. og svo hins vegar að skólaráð sem sé til aðstoðar við stjórnun skólans þar sem starfslið skólans kemur inn til áhrifa á starfsemi skólans.

Varðandi það hvers vegna skólanefnd eigi að setja reglur um kennarafundi er því til að svara að í frv. eins og það lá fyrir í vor, var gert ráð fyrir að menntmrn. setti reglur um almenna kennarafundi og verksvið þeirra. Þessu var breytt í þetta form samkvæmt ósk Skólameistarafélags Íslands. Þeir töldu að það ætti að vera í verkahring skólanefndar í hverjum skóla að setja reglur um almenna kennarafundi og þá eftir eðli skólans á hverjum stað. Það væri eðlilegra að þessar reglur gætu verið sveigjanlegar miðað við tegundir skóla og staðhætti. Þess vegna lagði Skólameistarafélagið þetta til og á það var fallist.

Í 13. gr. segir að menntmrn. setji skólameisturum erindisbréf, en reglur um störf annars starfsfólks setur skólanefnd og þessu ákvæði var líka breytt samkvæmt eindregnum tillögum Skólameistarafélags Íslands. Þeir lögðu til að þetta yrði á þennan veg og vildu með því færa meira vald frá menntmrn. til skólanefndanna og þá væntanlega með tilliti til þess að aðstæður væru nokkuð misjafnar á hverjum stað.

Varðandi 33. gr. var spurt sérstaklega hvað átt væri við með orðunum „hagnaður af leigu skólahúsnæðis“, en ákveðið er að hann skuli renna til viðhalds og endurnýjunar húsnæðis og búnaðar. Þar er fyrst og fremst átt við hagnað af leigu heimavista til hótelreksturs sem er sennilega langstærsti tekjuliðurinn sem skólar hafa í þessu sambandi og sú regla hefur reyndar gilt að hagnaður af slíkri leigu rennur til viðhalds og endurnýjunar og meiningin er að halda því áfram þannig að það er fyrst og fremst slíkur hagnaður sem þarna er átt við.

Herra forseti. Ég tel mig hafa svarað þeim beinu spurningum sem til mín var beint og vildi láta þessar athugasemdir koma fram strax við 1. umr., en ég ítreka þakklæti mitt til þeirra sem þátt hafa tekið í þessari umræðu fyrir þær viðtökur sem frv. hefur fengið og vænti þess að um það og afgreiðslu þess geti orðið gott samstarf hér í deildinni.