16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4659 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

256. mál, almannatryggingar

Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 552 um breyt. á lögum um almannatryggingar, nr. 67 1971, með síðari breytingum. Flm. auk mín eru hv. þm. Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Sigríður Lillý Baldursdóttir. Frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. Við 1. mgr. 43. gr. laganna bætist nýr stafliður er orðist svo:

Fyrir gleraugu handa börnum og unglingum, samkvæmt gleraugnaávísun (resepti) frá augnlækni, sem framvísað er á því reikningsformi sem Tryggingastofnun ríkisins ákveður, greiða sjúkrasamlög í samræmi við samninga sem Tryggingastofnunin hefur gert fyrir þeirra hönd eða samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur séu samningar ekki fyrir hendi, sem hér segir, þó ekki nema einu sinnu á ári nema sjón breytist:

I. Fyrir börn og unglinga, 18 ára og yngri, skal greiða allan kostnað við gler og fasta upphæð sem svari til meðalkostnaðar við umgerðir að mati Tryggingastofnunar.

II. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, skal greiða allan kostnað við gler og fasta upphæð sem svari til meðalkostnaðar við umgerðir að mati Tryggingastofnunar, en fyrir aðra elli- og örorkulífeyrisþega greiðist allur kostnaður við gler.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í grg. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Markmið þessa frv. er að öll börn og unglingar, 18 ára og yngri, eigi rétt á að fá gler í gleraugu sér að kostnaðarlausu og að greidd sé föst upphæð vegna umgerða sem Tryggingastofnun metur hver skuli vera - en engin aðstoð er nú veitt vegna þess kostnaðar - og að elli- og örorkulífeyrisþegar eigi rétt á ókeypis glerum og að kostnaður vegna umgerða sé greiddur á sama hátt.“

Í lögum um almannatryggingar, b-lið 39. gr. stendur „að hlutverk sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar sé að veita styrk til öflunar hjálpartækja vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi eða vöntunar líkamshluta“. Í anda þessarar lagagreinar er frv. borið hér fram, frv. sem ber það í sér að veita styrk til hjálpartækja þeim til handa sem búa við hamlaða líkamsstarfsemi af völdum skertrar eða gallaðrar sjónar. Tryggingalögin, svo ágæt sem þau eru, bera ekki í sér heimildir til að veita slíkan styrk nema að því leyti að í reglum frá tryggingaráði um hjálpartæki eru ákvæði sem heimila greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins á 70% af verði á glerjum sem eru til lækninga fyrir skjálga og fyrir rangeygð börn, skilgreint sem „strabismus“. Þessi gler eru greidd að þeim hluta sem fyrr greinir, fyrir börn að 16 ára aldri, þó aðeins ein gler á ári nema um breytt ástand augna sé að ræða. Engir aðrir af þegnum þjóðfélagsins njóta aðstoðar vegna gleraugnakostnaðar.

Sjúkratryggingar greiða nú fyrir tannlæknaþjónustu svo og fyrir tannviðgerðir barna og unglinga, frá 50%–75% kostnaðar. Ríkissjóður greiðir heyrnartæki að öllu leyti fyrir börn og unglinga til 18 ára aldurs og 60% af kostnaði fyrir eldri en 18 ára og kemur á ýmsan hátt til móts við heyrnarskerta vegna kostnaðar, sem af fötlun þeirra stafar.

Eðlilegt er að hafa þessa þætti til hliðsjónar þegar fjallað er um fjárhagsaðstoð vegna gleraugnanotkunar. Börn og unglingar þurfa yfirleitt ekki á gleraugum að halda nema vegna meðfæddra sjóngalla, sjúkdóma eða slysa. Sama gildir um þá sem nota heyrnartæki. Þeirra þörf er af sams konar orsökum og virðist því eðlilegt að svipuð aðstoð gildi fyrir báða. Hvorir tveggja líða vegna aðstæðna sem þeir hafa ekki skapað sér sjálfir og virðist því full ástæða til að samfélagið komi þeim til aðstoðar. Þetta hefur ríkisvaldið þegar viðurkennt með aðstoð sinni við heyrnarskerta og virðist sanngjarnt að á sama hátt sé staðið að málum þeirra sem áfátt er um sjón.

Einnig má benda á að ýmsir sjóngallar eru ættgengir. Ekki er fátítt að flestir eða allir innan sömu fjölskyldu noti gleraugu, a.m.k. á einhverju skeiði ævinnar. Gleraugu eru dýr og það er oft umtalsverður fjárhagslegur baggi á fjölskyldu að standa straum af kostnaði vegna gleraugnanotkunar sé þannig ástatt að flestir eða allir innan hennar þurfi á gleraugum að halda. Einnig skal bent á að börn og unglingar verða oft fyrir óhöppum með gleraugu í leikjum og íþróttum og eykst þá kostnaður.

Í þessu sambandi vil ég líka geta þess að þó að flest okkar sem gleraugu nota telji gott en e.t.v. ekki bráðnauðsynlegt að eiga tvenn gleraugu, þ.e. varagleraugu ef önnur skyldu brotna eða týnast, að víða úti á landi þar sem menn eiga ekki greiðan aðgang að gleraugnasmiðum er fólki sem er örðugt að vera án gleraugna alger nauðsyn að eiga gleraugu til vara, einkum börnum og unglingum sem tíðar verða fyrir óhöppum með gleraugu en aðrir. Það getur tekið daga og vikur að verða sér úti um ný gleraugu og þar á ofan valdið fólki kostnaðarsömum ferðalögum.

Leitað hefur verið upplýsinga í því skyni að gera grein fyrir þeim kostnaði sem frv. þetta, ef að lögum yrði, mundi hafa í för með sér. Augnlæknar halda ekki sérstakar skrár um börn og unglinga eða gleraugnaþörf þeirra og segja enda að slíkt sé ekki unnt. Þeir benda einnig á að gleraugnaþörf barna og unglinga sé oftlega aðeins tímabundin og erfitt eða óframkvæmanlegt að halda skýrslu um slíkt. Því er hvergi hægt að sjá hversu mörg börn og unglingar nota gleraugu.

Könnun var gerð í einum grunnskóla á gleraugnanotkun barna. Í þeim skóla voru 320 börn. Þar af voru 22 börn sem notuðu gleraugu eða tæplega 7%. Af þeim börnum voru sex sem fengu hluta af gleraugnaverði greiddan svo sem heimildir eru um.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni var fjöldi barna og unglinga 18 ára og yngri 80 920 þann 31. des. 1986. Nákvæmar tölur eru ekki til fyrir sl. ár. Ef gengið er út frá að 7% af þessum hópi þurfi á gleraugum að halda, sem ekki er þó hægt að fullyrða, má gera sér hugmynd um fjöldann.

Verð á gleraugum er afar mismunandi og ræðst að miklu leyti af því hvers eðlis sjóngallinn er og hvers konar gler eiga við. Verð á einu gleri er nú á bilinu frá 900 kr. til 2500 kr. og getur orðið mun hærra ef um mjög sérhæfða slípun er að ræða. Einnig eru gler úr akrýl eða plastefni mjög dýr en oft er þó fremur ráðlagt að nota slík. Verð á umgerðum er einnig mjög mismunandi og fer eftir efni, gæðum og einnig tískusveiflum. Sterkar og vandaðar umgerðir eru dýrar. Þó er mælt með að börn og unglingar noti fremur umgerðir sem þola meira hnjask og eru þá jafnframt dýrari því að þeim er hættara við að fara ógætilega með gleraugu sín en þeim sem fullorðnir eru.

Verð á algengum umgerðum er nú á bilinu frá 1250 og 3000 kr. en getur þó orðið mun hærra, allt að 6000 kr. og yfir það. Ekki þykir rétt að tryggingum sé ætlað að greiða gleraugnaumgerðir að öllu leyti þar sem það kann að vera geðþóttaákvörðun hverju sinni hvers konar og hve dýrar umgerðir fólk velur sér og því er lagt til að áætlað sé meðalverð á umgerðum sem Tryggingastofnun greiði. Samkvæmt tölum frá Tryggingastofnun ríkisins í árslok 1986 voru örorkulífeyrisþegar alls 3748. Tekjutryggingar nutu 3228 af þeim. Á sama tíma voru ellilífeyrisþegar 20 702 og þar af voru 14 783 með tekjutryggingu. Ekkert er vitað um hve margir í þessum hópum nota gleraugu en gera má ráð fyrir að meðal ellilífeyrisþega sé gleraugnanotkun nokkuð almenn. Lagt er til í frv. að elli- og örorkulífeyrisþegar sem njóta tekjutryggingar fái gler að fullu greitt og ákveðna upphæð vegna umgerða en aðrir elli- og örorkulífeyrisþegar fái einungis glerin greidd, sjái sjálfir um greiðslu vegna umgerða.

Í nágrannalöndum okkar, t.d. í Vestur-Þýskalandi og á Norðurlöndunum, hefur hið opinbera um árabil veitt aðstoð vegna gleraugnakaupa. Nokkuð mismunandi reglur gilda um aðstoð þessa eftir löndum, en það má nefna að í Vestur-Þýskalandi eiga allir þeir sem þurfa á gleraugum að halda rétt á ákveðinni fjárhæð fyrir gler og sömuleiðis vegna umgerða, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Einnig fá menn þar greiddar viðgerðir á gleraugum en ekki er lagt hér til að svo verði gert. Í Danmörku fá allir styrk vegna gleraugna einu sinni á ári sem eru með sjónstyrk +/- 5 og neðan við það. Augnlæknaþjónusta er ókeypis og öryrkjar fá ókeypis gleraugu. Hér er lagt til að menn eigi ekki rétt á aðstoð til gleraugnakaupa oftar en einu sinni á ári nema um breytingu á sjón sé að ræða sem geri ný gleraugu nauðsynleg.

Eins og áður er að vikið er það aðeins mjög takmarkaður hópur sem nú nýtur aðstoðar vegna gleraugnanotkunar og elli- og örorkulífeyrisþegar eru ekki þar á meðal. En það má þó ljóst vera öllum að þeir sem ekki hafa annað að lifa af en elli- og örorkulífeyri hafa varla ráð á að kaupa sér gleraugu. Enda er raunin sú að mörgum þeim sem þannig stendur á fyrir er bent á að leita til Félagsmálastofnunar eftir styrk til gleraugnakaupa og þarf ekki að tíunda það að öldruðu fólki og öryrkjum eru það þung spor.

Markmið frv. er að samfélagið komi til móts við þarfir þeirra sem búa við skerta sjón og sjóngalla og létti þeim þær fjárhagslegu byrðar sem þeir bera af þeim sökum. Þessi aðstoð er talin sjálfsögð meðal þeirra þjóða sem við viljum helst miða okkur við um samfélagslega þjónustu og við ættum ekki að vera eftirbátar þeirra.

Herra forseti. Að loknum umræðum um þetta frv. legg ég til að því verði vísað til heilbr.- og trn.