17.02.1988
Efri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4671 í B-deild Alþingistíðinda. (3223)

281. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Ríkharð Brynjólfsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er lagt fram, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er enn ein tilraunin sem gerð er til að fá það kerfi, sem sett var upp 1957 og flm. hv. þm. Júlíus Sólnes rakti vel áðan, til að ganga upp, þ.e. reyna að finna einhverja leið til að ná peningum inn í húsnæðislánakerfið. Þetta var gert í upphafi með því að hvetja sérstaklega til sparnaðar þess fólks sem mönnum fannst að ætti kannski mestra hagsmuna að gæta, þ.e. ungmenna, sem væru ekki búin að binda sér neina sérstaka bagga með fjölskyldu og þess háttar og kynnu þess vegna að eiga peninga aflögu.

Eins og hv, þm. Júlíus Sólnes rakti vel í ræðu sinni áðan hefur í gegnum árin verið hið mesta vandræðabasl með þetta kerfi allt saman. Ungmennin hafa ekki séð þann hvata sem ætlast var til að þau sæju. Frekar hefur verið litið á þetta sem leiðindakvöð sem hefði í rauninni haft í för með sér tapað fé. Eins og málin standa núna er þetta nánast pappírsmál. Það þekkja allir sem koma nálægt framhaldsskólum að á hverju ári eru gefin út vottorð fyrir nánast alla nemendur um að þeir séu í skólanum og þar með undanþegnir ákvæðum um skyldusparnað. Afleiðingin er svo sú, sem kemur fram í grg., að nánast allt það fé sem fer inn í þetta kerfi rennur þaðan jafnharðan út og verður svo sem engum að gagni nema hugsanlega þeim bönkum sem hafa það inni um nokkurra mánaða skeið.

Það er ljóst að forsendur fyrir skyldusparnaði eru allt aðrar en þegar kerfið var byggt upp í upphafi. Samsetning þjóðarinnar er orðin allt önnur nú. Verulegur hluti ungmenna er við nám fram eftir öllum aldri, jafnvel langt fram yfir þann aldur sem 26 ára mörkin eru miðuð við.

Það er vissulega góðra gjalda vert að reynt sé að leita einhverra leiða til að ná fram sparnaði hjá þeim sem hugsanlega gætu sparað. Þetta hefur verið gert í gegnum árin. Það hefur verið reynt að finna fleiri hópa en bara ungmenni. Mig minnir að einhvern tíma hafi verið reynt að fá stóreignamenn og hátekjumenn til að spara með þvinguðum sparnaði. Tilefni málsins er því gott.

Hins vegar er ég alls ekki sannfærður um að sú lausn sem þarna er stungið upp á komi endilega til með að leysa vandann eða vera einföld í framkvæmd. Þarna er eins og fram hefur komið um tvennt að ræða. Annars vegar að reyna að nota gömlu aðferðina, fá ungt fólk til að spara, helst umfram getu, með fyrirheiti um að þeim peningum sé vel varið, bæði fái menn réttindi út á þetta og fái þessa peninga til baka í fullu verðmæti og helst meira að sparnaðinum loknum, þ.e. menn skulu fá út á þetta íbúð. Þetta er góðra gjalda vert, en mér sýnist að á þessu séu ýmsir vankantar sem krefjist a.m.k. mjög ítarlegrar reglugerðar ef hægt er að setja reglugerð sem tæki nokkurn tíma af öll tvímæli.

Það er í fyrsta lagi: Hver á að byggja þessar íbúðir? Það eru að vísu taldir upp nokkrir aðilar, m.a. að Húsnæðisstofnun ríkisins færi að byggja íbúðir. Það kann vel að vera að það þætti gott að sú stofnun færi ekki bara að lána fé til bygginga heldur færi að standa í byggingum líka.

Í öðru lagi er mér ekki ljóst af þessu, og er þó sjálfsagt auðvelt að upplýsa það, hvort gert er ráð fyrir að sá samningur sem talað er um, að með því gera sérstakan samning við Húsnæðisstofnun geti viðkomandi eignast hlut í íbúð sem hefur verið byggð sem eignar- eða leiguíbúð, sé gerður fyrir fram, við upphaf sparnaðarins eða meðan á sparnaðartímabilinu stendur. Er þarna þá um að ræða samning um einhverja tiltekna íbúð eða er um að ræða einhverja þá íbúð sem kynni að verða til þegar þar að kemur? Þegar sparnaðartímabilinu lýkur og á að fara inn í íbúðina getur skipt verulegu máli hvort þarna er um að ræða íbúð sem var byggð og viðkomandi sparandi hefur samþykkt gerð íbúðarinnar, stærð og þess háttar, eða hvort kemur að því að þeir sem ljúka sínum skyldusparnaði árið 2005 lendi á einhvers konar slagsmálamarkaði um þær íbúðir sem verða þá til ráðstöfunar með þessu móti.

Enn má spyrja um hvert verðmætið á íbúðinni sé við afsal, þ.e. þegar sparnaðartímabilinu lýkur, hvort sem það er við 26 ára aldur eða fyrr af einhverjum þeim ástæðum sem lögmætar eru. Nú vitum við ósköp vel að verðmæti íbúðarhúsnæðis er alls ekki hið sama um landið allt. Þess vegna gæti farið svo að sá sem hefur sest inn í íbúð á sprengisvæði, eins og Reykjavíkursvæðið hefur verið undanfarið, fái þarna gefins allverulega fjármuni miðað við þann vesling sem ætlaði sér að setjast að á einhverjum þeim stöðum á landinu þar sem ekki hefur verið þensla undanfarin ár og íbúðaverð hefur staðið í stað og lækkað að raungildi. Þetta er kannski praktískt mál sem væri hægt að leysa, en ég sé ekki að lausnin liggi í augum uppi, hvernig á að gera þetta upp. Þarna gæti verið um að ræða ákveðna mismunun.

Svo er, svo að ég lengi ekki mál mitt miklu meira, herra forseti, spurningin um hinn valkostinn. Ef viðkomandi óskar þess að sparifé hans sé ávaxtað á venjulegan hátt er Húsnæðisstofnun skylt að ávaxta innistæðu hans með bestu fáanlegum kjörum. Bestu fáanleg kjör eru ansi teygjanlegt hugtak. Það er um margra valkosti að ræða og þó að þarna sé miðað við ávöxtunarkjör sem ríkisviðskiptabankarnir bjóða er bæði um að ræða margs konar innlánsreikninga og það er líka um að ræða ákveðin bankatryggð verðbréf sem seld eru með talsvert hærri vöxtum en einhvern veginn í gegnum afföll, en hæstu vextir eru sem bankarnir greiða. Auk þess eru ávöxtunarkjör, eins og við vitum, afskaplega mikið háð því hvað binditíminn fjárins er langur og það gætu komið upp þar álitamál.

Þetta er e.t.v. enn annað praktískt mál, en ég er hræddur um að það gæti orðið svo að sá skjalabunki sem fylgdi þegar búið væri að ganga frá einum svona sparanda yrði býsna þykkur og það gæti komið til þess, eins og hv. flm. og ræðumaður áðan, Júlíus Sólnes, benti á, að það lenti í málaþrasi og stappi með sparnað í húsnæðislánakerfinu. Ég er alveg sammála því að sparnaður með vöxtum upp á 3,5% er fyrir neðan allt velsæmi miðað við hvernig kaupin gerast á eyrinni, en það er þó hrein og klár tala sem ekki er umdeilanleg. Að hafa hreyfanlega vexti á þessu með til þess að gera óskýrri viðmiðun held ég að gæti leitt til mikilla vandræða við uppgjör á slíkum sparnaði.

Enn mætti nefna það til ef ungmenni ákveður í upphafi að gera samning um að fara í hús, að leggja sitt fé inn upp á það að kaupa hús, að ganga inn í húsakaup. Síðan gerist það af einhverjum ástæðum, sem er ekkert erfitt að búa sér til, að sparandinn fellur frá þessum kosti. Hversu verður þá með ávöxtun á því fé sem hann hefur lagt í íbúðina og kannski vonast til þess að ná meira en venjulegri ávöxtun með því að fjárfesta þannig í steinsteypu?

Þó að ég hafi verið heldur neikvæður í máli mínu um þær lausnir sem hér er leitað á vandamálinu er ég sammála flm. um að kerfið eins og það er nú nær ekki tilgangi sínum, því fer fjarri, hvorki það að fá fram sparnað eða það að tryggja þeim sem eiga þarna inni peninga bærilega ávöxtun, en það hlýtur að hafa verið meiningin á sínum tíma að sparendur töpuðu ekki. Það er sjálfgert að leita leiða til að leysa úr þessu. Það er náttúrlega mjög eðlilegt að mönnum detti fyrst í hug í þessu sambandi hvort það sé ástæða til að halda áfram þessum skyldusparnaði eða hvort það eigi að leggja þetta kerfi af í eitt skipti fyrir öll. Það er búið til fyrir aðstæður sem voru uppi 1957 og hefur síðan verið aðlagað breyttum tímum með margs konar hætti. Enn er þetta kerfi allt saman í basli og er spurning hvort ekki er rétt að byrja alveg upp á nýtt, eins og ég hygg að hv. þm. Júlíus Sólnes hafi sagt áðan, með því að reyna ekki að krukka í þetta kerfi eins og það er núna heldur leggja það niður og setja upp eitthvert annað kerfi í þess stað ef þörf krefur.