17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4694 í B-deild Alþingistíðinda. (3237)

282. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Sverrir Sveinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytingu á lögum um Síldarverksmiðjur ríkisins, nr. 1 frá 5. jan. 1938, svohljóðandi:

„1. gr. Fyrri mgr. 6. gr. laganna falli brott.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í grg. með frv. segir að á þeim tíma sem lög þessi voru sett hafi sjálfsagt verið full þörf fyrir þessa grein laganna, enda voru Síldarverksmiðjur ríkisins stóriðja þess tíma og nánast einráðar í vinnslu fiskimjöls og lýsis í landinu.

Nú, réttum 50 árum seinna, stingur þessi lagagrein mjög í stúf við almennt viðskiptaviðhorf manna til reksturs fyrirtækis sem er í harðri samkeppni við innlend og erlend fyrirtæki á sama sviði og brýtur í bága við þá almennu skoðun að Alþingi Íslendinga skuli fara með löggjafarvaldið en ekki framkvæmdarvaldið, jafnvel þó að 6. gr. laganna verði felld niður, en þar segir:

„Verksmiðjustjórninni er óheimilt án samþykkis Alþingis að auka við verksmiðjurnar nýjum vélum eða mannvirkjum umfram það sem nauðsynlegt er til þess að tryggja öruggan og hagfelldan rekstur þeirra vinnslutækja sem fyrir eru.“

Seinni mgr. laganna mundi hins vegar standa, en þar segir:

„Til allra meiri háttar framkvæmda skal jafnan leita samþykktar ráðherra og leggja fyrir hann ítarlega grg. og kostnaðaráætlun.“

„Tel ég að Alþingi hafi þó framkvæmdarvaldið í höndum sér eftir sem áður þar sem Alþingi kýs fimm af sjö stjórnarmönnum fyrirtækisins. Verksmiðjurnar heyra eins og kunnugt er undir sjútvrh.

Eins og mönnum er kunnugt er fiskimjölsiðnaðurinn mjög sveiflukenndur er varðar afla og markaðsverð afurðanna og til þess að rekstur fyrirtækja á þessu sviði verði farsæll eru skjótar ákvarðanir nauðsynlegar og nánast ókleift að reka slík fyrirtæki ef bíða þarf ákvarðana Alþingis um uppbyggingu og endurbætur verksmiðjanna. Um þetta þarf ekki að fara mörgum orðum, það hlýtur öllum að vera augljóst.

Þó að þessari grein laganna um Síldarverksmiðjur ríkisins verði breytt eða hún felld niður nú þyrfti hið fyrsta að semja ný lög fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins þar sem lögin í heild eru löngu orðin úrelt, ekki síður en umrædd 6. gr. laganna. Nú hefur hæstv. viðskrh. hafið endurskoðun á ýmsum úreltum lögum er varða hans ráðuneyti og flutt frv. um brottfall ýmissa laga sem ekki hafa gildi lengur nema sögulegt. Hygg ég að fleiri hæstv. ráðherrar mættu huga að slíku í sínum málaflokkum. Sýnist mér að hæstv. sjútvrh. megi láta endurskoða lög um Síldarverksmiðjur ríkisins þannig að þau samrýmist betur þeim starfsháttum og starfsemi sem eðlilegt er að verksmiðjurnar hafi.

Óskar Halldórsson útgerðarmaður hreyfði fyrstur hugmyndinni um að Íslendingar byggðu Síldarverksmiðjur ríkisins. Fékk hann til liðs við sig Magnús Kristjánsson, síðar ráðherra, sem flutti þáltill. á Alþingi árið 1927 um að rannsókn færi fram á því að byggja fullkomna síldarbræðslu á hentugum stað á Norðurlandi. Tillagan náði einróma samþykki og var Jóni Þorlákssyni falin rannsóknin. Að henni lokinni báru þeir Erlingur Friðjónsson og Ingvar Pálmason fram frv. á Alþingi um stofnun síldarbræðslustöðvar á Norðurlandi. Frv. náði samþykki og notaði Tryggvi Þórhallsson atvinnumálaráðherra heimild Alþingis til að reisa fyrstu síldarverksmiðjuna 1929–1930 á Siglufirði. Forstöðumaður byggingarinnar var Guðmundur Hlíðdal verkfræðingur. Fyrsta verksmiðja SR tók á móti fyrstu síldinni 19. júlí 1930 og er þá talið að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi hafið starfsemi sína.

Frá þeim tíma að Síldarverksmiðjur ríkisins hófu starfsemi sína á Siglufirði hafa verksmiðjurnar verið einn stærsti atvinnurekandinn á staðnum. Sveiflur í síldveiðum höfðu því ætíð veruleg áhrif á fjárhag bæjarins ekki síður en þjóðarbúsins þar sem síldveiðar og vinnsla voru einn aðalatvinnuvegur þjóðarinnar um árabil. Síldarbræðslur sem fyrirtækið rak urðu alls sex á Norður- og Austurlandi og auk þess komu þær upp hraðfrystihúsi á Siglufirði sem þær ráku um tíma eða þar til fyrirtækið Þormóður rammi hf. var stofnað af ríkissjóði, Siglufjarðarbæ og einstaklingum sem yfirtóku þennan rekstur.

Síldarverksmiðjum ríkisins var falið að reisa verksmiðju til niðurlagningar á síld árið 1961 á grundvelli laga frá árinu 1944. Verksmiðja þessi var rekin af SR til ársins 1971 að ríkissjóður yfirtók verksmiðjuna og stofnaði Lagmetisiðjuna Siglósíld sem starfaði til ársins 1983 að Þormóður rammi hf. yfirtók reksturinn. Á árinu 1984 var þessi verksmiðja seld einstaklingum og hafa þeir síðan rekið í henni umfangsmikla rækjuvinnslu auk framleiðslu á gaffalbitum fyrir Rússlandsmarkað. Því miður hafa þessir einstaklingar nú orðið að selja frá verksmiðjunni tækjabúnað til framleiðslu á gaffalbitum og fækkar því þeim atvinnutækifærum á Siglufirði.

Ég hef e.t.v. gerst heldur langorður um þá breytingu sem ég legg til að verði gerð á lögunum um Síldarverksmiðjur ríkisins, en þar sem á hinu háa Alþingi sitja margir nýir þm. sem á eftir kunna að fjalla um þetta mál í nefndum finnst mér nauðsynlegt að ræða það svolítið ítarlegar hvernig starfsemi þessa fyrirtækis hefur verið að miklu leyti undirstaða atvinnulífs í Siglufirði síðan um 1930 eða nær 60 ára tímabil. Ég vil því einnig glöggva þá á hlutverki SR-46 á Siglufirði.

Eftir að hlutverk verksmiðjanna breyttist úr síldarbræðslu í loðnubræðslu hefur SR-46 á Siglufirði verið breytt í stærstu og fullkomnustu loðnuverksmiðju landsins sem afkastar um 1200–1400 tonna bræðslu á sólarhring og hefur um 15 þús. tonna geymslurými. Eins og nú háttar eru loðnuveiðar háðar takmörkunum og skipunum er úthlutað aflakvóta. Ég tel að stjórn þeirra veiða hafi tekist vel í samvinnu við Norðmenn sem hagsmuna eiga að gæta við nýtingu loðnustofnsins. Skipunum sem úthlutað er aflakvóta fylgja hins vegar engar kvaðir eða tímasetningar um veiðar. M.ö.o. fara ekki saman hagsmunir veiða og vinnslu þannig að heildarhagsmuna sé gætt. Verksmiðjurnar verða oft að gera fyrirframsamninga um sölu á loðnumjöli og lýsi sem byggist á væntanlegum veiðum og vinnslu.

T.d. þegar haustvertíðin 1987 fór af stað voru mörg loðnuskipanna að úthafsrækjuveiðum vegna hugmynda um kvótasetningu á þær veiðar. Tapaðist þá e.t.v. dýrmætur tími frá veiðum þegar loðnan var fitumest og gat gefið mest afurðaverð. Á móti kom að loðnan virtist erfið til veiða á þessum tíma og hagaði sér einkennilega, var dreifð og illa veiðanleg þannig að erfitt er að gera sér grein fyrir hverju þetta skipti. Engu að síður vek ég athygli á þessu atriði sem tengist því máli sem ég vík nú að.

Það er mín skoðun að eftir að ljóst er að sífellt fleiri skip tengjast loðnuverksmiðjunum hagsmunasamböndum þá sé eðlilegt að Síldarverksmiðjur ríkisins kaupi og reki loðnuskip sem afli hráefnis til verksmiðjanna svo tryggð verði betri nýting verksmiðjanna um landið. Vek ég athygli á því að bæjarstjórn Siglufjarðar samþykkti á síðasta kjörtímabili áskorun á þm. kjördæmisins að hlutast til um að lögunum um Síldarverksmiðjur ríkisins yrði breytt svo að stjórn verksmiðjanna gæti tekið þátt í þeirri samkeppni sem nú fer fram um þennan rekstur. Ég sé fyrir mér ýmsa möguleika í því, bæði í samvinnu við starfandi útgerðarfyrirtæki á stöðunum þar sem verksmiðjur SR starfa eða þær eigi sín eigin skip ein og sér. Að sjálfsögðu er mér kunnugt um þau sjónarmið sem ýmsir hv. þm. hafa til afskipta ríkisins af atvinnulífinu og rekstrarforma þess og sömuleiðis er mér kunnugt um að einstaka þm. trúa því að atvinnulífinu sé best komið fyrir í höndum einstaklinga eða félaga þeirra. Ég er einnig þeirrar skoðunar að slíkt eigi við í fjölmörgum fyrirtækjum og rekstri. Hins vegar bið ég hv. þm., þegar þeir koma til með að fjalla um þetta mál, að líta á það með þeirri sanngirni að sanngjarnt er að fyrirtæki, sem eru vissulega í samkeppni á þessu sviði, búi við sem jöfnust rekstrarskilyrði.

Við framsóknarmenn höfum ályktað margoft að í atvinnulífinu teljum við að nýta beri frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Því viljum við standa að málum þannig að frumkvæði einstaklinga sé metið og þeir studdir til dáða til athafna fyrir land og þjóð. En þegar fyrirtæki eru orðin af þeirri stærð að þau eru ofvaxin einstaklingum viljum við að sveitarfélög og ríkið komi til. Þetta er öllum ljóst og ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum um. Áhrif staðsetningar stórfyrirtækja á borð við síldarbræðslur var á sínum tíma e.t.v. sambærilegt við staðsetningu stórra fyrirtækja nú, svo sem álversins við Hafnarfjörð, Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi, járnblendið við Grundartanga eða verksmiðju Sambandsins á Akureyri svo að dæmi séu tekin. Fyrirtæki þessi styrkja atvinnulíf þessara staða og hafa verið og eru undirstaða margháttaðrar þjónustu sem af staðsetningunni leiðir.

Á þetta vil ég benda, herra forseti, m.a. vegna þess að í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir um efnahagsstefnu að örva þurfi hagvöxt og framfarir í atvinnulífinu á grundvelli aukinnar framleiðni og nýsköpunar og að bæta lífskjör, tryggja jafnvægi í viðskiptum við útlönd, sem stöðugast verðlag og fulla atvinnu. Ég hygg að þessi markmið náist m.a. með því að nýta þá þekkingu og reynslu sem til staðar er og örva það frumkvæði sem kann að leynast í þeim fyrirtækjum sem ríkið sjálft á og eru í rekstri. Og þótt í II. kafla starfsáætlunar ríkisstjórnarinnar segi að ríkisafskipti og ríkisrekstur á atvinnufyrirtækjum verði sem minnstur segir líka að markmið atvinnustefnunnar sé að búa atvinnulífinu sem best vaxtarskilyrði og að allar atvinnugreinar njóti sem jafnastra starfsskilyrða. Á þetta vil ég sérstaklega benda því að þó menn greini oft á um árangur í rekstri fyrirtækja og ekki síst þeirra sem ríkið á og rekur sjálft, sem eðlilegt er, er óverjandi að dæma slíkan rekstur ef ytri rekstrarskilyrði eru ekki jöfn.

Ég fer þá, herra forseti, að ljúka máli mínu. Ég hef talað hér fyrir máli sem er ekki stórt en er flutt til þess að jafna aðstöðu þeirra fyrirtækja sem eru í sambærilegum rekstri. Það er flutt af mér sem varamanni Páls Péturssonar, 1. þm. Norðurl. v., en með vitund hans. Meðflm. að þessu frv. eru hv. þm. Pálmi Jónsson, Ragnar Arnalds og Jón Sæmundur Sigurjónsson. Auk þess var Stefán Guðmundsson sammála um að þetta frv. yrði flutt, en hann situr eins og kunnugt er í Ed. þingsins.

Ég vona að þetta mál fái umfjöllun eins og eðlilegt er og að á málið verði litið með þeirri sanngirni og velvilja sem samrýmist þeim markmiðum sem sett eru fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til sjútvn. Nd. þingsins.