17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4701 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

263. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Þrátt fyrir lokaorð hv. frsm. þessa frv. sem hér er til umræðu þá langar mig enn til að vísa til þess sem ég sagði hér áðan í umræðu um annað dagskrármálið sem einnig er frv. til breytinga á lögum um almannatryggingar á þskj. 552. Ég ítreka það sem ég sagði þá að ýmis þau mál sem hv. þm. sjá ástæðu til að flytja hér inn í Alþingi eru misjafnlega áríðandi og misjafnlega brýn. Öll eru þau sjálfsagt á þann veg að flestir gætu verið sammála um að æskilegt væri að koma þeim fram og helst sem fyrst. En ég held þó að við verðum að reyna að hafa nokkra heildaryfirsýn yfir þessar breytingar allar, hvert við viljum beina áherslum almannatryggingakerfisins og hvaða áherslur við viljum setja í forgang. Það er auðvitað hlutverk Alþingis að gera það og ég ætla ekki að draga neitt úr því. Þess vegna hlýtur það að vera í valdi Alþingis hvernig þessum málum reiðir af og hversu brýn hv. alþm. telja þessi verkefni sem öll eru auðvitað mikilvæg hvert á sinn hátt og snerta einstaklinga misjafnlega. En auðvitað finnst hverjum og einum það málið sem á honum brennur vera heitast.

Ég hef nýlega fengið athugasemdir eða fsp. frá fólki sem einmitt varð mjög fyrir barðinu á þeim reglum sem gilda um ferðakostnaðargreiðslur fyrir sjúklinga og eins og ég greindi frá í umræðum fyrr í dag, þá hef ég vísað því eins og ýmsu öðru til þeirrar endurskoðunarnefndar sem nú er að fjalla um almannatryggingalöggjöfina. Ég ítreka það sem ég sagði þá að ég hef valið þann kost frekar en að vera að flytja hér inn í þingið einstakar breytingar þó svo að sjálfsagt megi segja að þær séu mikilvægar og brýnar.

Af því að frsm., hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, nefndi hér mál sem hún ásamt fleiri hv. þm. flytur á þskj. 563, sem er till. til þál. um að fela heilbrrh. að leita nú þegar leiða til að leysa húsnæðisvanda aðstandenda sjúklinga, ég ræddi það svolítið hér undir þessum dagskrárlið líka, þá langar mig til að segja frá því að það er einmitt nú þegar verið að skoða það mál sérstaklega og m.a.s. á því stigi að það er verið að horfa í því sambandi á ákveðna fasteign og reynt að huga að því hvort þetta mál sé hægt að leysa. Ég vil segja flm. og hv. þm. öðrum sem áhuga hafa að ég tel líka að hér sé um mjög brýnt mál að ræða og þetta sé mál sem ekki þarf að tengjast neinni endurskoðun á almannatryggingalöggjöf og hef þess vegna hugsað mér að reyna að leita lausnar á þessu vandamáli. Það á eftir að koma hér til umræðu sérstaklega en ef það skyldi fara svo að ég verði ekki við þá umræðu, þá finnst mér ástæða til að nota þetta tækifæri til að greina frá því hér.

Einnig langar mig að segja frá því að það er nú hugað að breytingum á reglum um dvöl fólks á sjúkrahóteli Rauða kross Íslands. Hingað til hafa aðeins læknar á sjúkrahúsum hér í Reykjavík haft heimild til að vísa fólki þangað inn eða vista fólk á sjúkrahótelinu. En það eru uppi hugmyndir nú um að a.m.k. kanna það hvort ekki sé rétt að breyta svolítið þeim reglum. Það tengist m.a. því að sjúkrahótelið býr nú við betri aðstæður en áður, hefur yfir fleiri rúmum að ráða, og einnig að það færist æ í vöxt að fólk kemur utan af landsbyggðinni til þess að fara í rannsóknir eða sækja heim sérfræðinga án tilvísana, án þess að það fari í gegnum sjúkrahús. Og þá þarf e.t.v. að breyta reglum þannig að þeir sem hér þurfa að dvelja langdvölum - ekki langdvölum reyndar því það er ekki ætlast til þess að menn dvelji mánuðum saman á þessu sjúkrahóteli - en einhvern tíma, einhverja daga, kannski vikur hér til þess að sækja þjónustu sérfræðinga eða annarra aðila sem vinna fyrir heilbrigðiskerfið, þá sé brýnt og æskilegt að opna möguleika fyrir fólk að njóta þeirrar þjónustu sem Rauði krossinn veitir og auðvitað tryggingakerfið einnig.

En ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar, herra forseti, heldur vísa til þess sem ég hef áður sagt um þetta mál og önnur hliðstæð. Ég hygg þó að það kunni að vera nokkuð flóknara að afgreiða þetta frv. en sum önnur því mér sýnist að hér þurfum við að skoða nokkuð vandlega hvernig að þessum greiðslum og styrkjum yrði staðið ef af verður að breyta þeim reglum sem nú eru uppi. Hér er t.d. talað um það í 2. gr. frv. að greiða sjúkradagpeninga vegna alvarlegra og langvarandi veikinda. Þetta eitt sér t.d. kallar á það að meta það og átta sig á því hvað hér er átt við.

Ég veit það af fenginni reynslu nú þegar þó hún sé ekki löng, af þeirri reynslu sem ég hef nú þegar af samskiptum við Tryggingastofnun og af þeim verkefnum sem það starfsfólk sem þar vinnur þarf við að glíma á degi hverjum, að ekkert í þessum efnum er einfalt og allt slíkt mat veldur oft og tíðum a.m.k. umræðum ef ekki gagnrýni og sitt sýnist hverjum. Þannig að hér er ábyggilega um mál að ræða sem við þurfum að skoða nokkuð vandlega og setja reglur, ef af verður, sem eru eins ljósar og hægt er að hafa þær þannig að við þurfum ekki alltaf að standa í látlausum deilum um það hvað hverjum og einum beri að fá eða njóta af þessu almannatryggingakerfi okkar sem við þó auðvitað viljum að sé þannig uppbyggt að þeir sem þurfa á því að halda fái þá þjónustu sem þeim ber og að það sé ekki neinn vafi á því hvað þetta almannatryggingakerfi á að gera fyrir sjúklinga og fyrir þegna þjóðfélagsins. En því miður er margt óljóst í því efni og stafar að mínu áliti, og ég hygg að fleiri geti verið sammála um það, m.a. af því hvernig við höfum breytt tryggingalöggjöfinni á undanförnum árum án þess að gæta þess heildarsamræmis sem nauðsynlegt er og ég hef gert hér áður að umræðuefni.