28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Mér þótti fróðlegt að hlusta á hv. 3. þm. Norðurl. e. Það vakti athygli mína að hann skyldi taka þannig til orða að forseti ASÍ talaði ekki fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar í sambandi við það sem komið hefur fram frá honum í fjölmiðlum um þessi mál. Og þá hlýtur það sama að gilda um varaforseta ASÍ.

En það sem vakti sérstaka athygli mína, og ég er honum alveg hjartanlega sammála um, var það sem hann sagði í sambandi við hávaxtastefnuna og ekki hvað síst í sambandi við lánskjaravísitöluna. Ég get vitnað til þjáningabróður míns í fyrrv. ríkisstjórn varðandi lánskjaravísitöluna. Við vorum sammála um að þar þyrfti að taka til hendinni, hún væri gölluð. Og ég tek alveg heils hugar undir það að mér hefur alltaf fundist lánskjaravísitalan mæla allt hraðar, koma miklu hraðar fram með allar hækkanir í sambandi við lánamarkað hér á landi en eðlilegt væri. En það hefur ekki verið samstaða um það né meiri hluti í þingflokkum og stjórnarandstöðu að það væri eðlilegt og sjálfsagt að taka þennan þátt í sambandi við stefnuna í lánamálum til uppskurðar. Í leiðinni má minna á að það var jú Alþfl. sem barðist fyrir því að þetta form var sett á á sínum tíma.

En ég bað um orðið til þess að leggja áherslu á það, sem ég tel að hafi valdið þeim deilum og þeim þrengingum sem hæstv. félmrh. hefur lent í með þetta mál, það er vitlaus málsmeðferð. Það liggur alveg ljóst fyrir að núverandi húsnæðiskerfi byggir á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá febrúar 1986 og þeim samningum sem það samkomulag batt stjórnvöld við lífeyrissjóði landsins. Lífeyrissjóðirnir leggja til það fjármagn sem húsnæðiskerfið byggir á og ef þar er þverbrestur, þá er allt málið í hættu og þá er alveg sama hvað talað er um breytingar og annað slíkt, peningarnir koma ekki inn. Þetta er það sem ég vakti athygli á við 1. umr. málsins eftir að ég sá mig knúinn til að mótmæla málsmeðferð hæstv. félmrh. í upphafi máls, að leggja áherslu á að fara í karp við stjórnarsinna og Alþýðusambandið um málið áður en að því kom að tala fyrir frv.

Það sem ég held að verði að gerast, og hefur komið greinilega fram, er að þegar málið kemur til meðferðar þingdeildar þá verðum við að reyna að bæta úr þessu vandamáli að hæstv. ráðherra gleymdi því sem máli skiptir, að byrja á því að ná samkomulagi við aðila lífeyrissjóðanna og vinnumarkaðarins um hvaða breytingar menn vildu láta koma fram í þessari lotu meðan menn væru að fá svigrúm til þess að skoða þetta kerfi betur. Það var ekki gert og þess vegna er þetta vandamál, sem hefur komið fram bæði utan þings og innan, í sambandi við þetta mál. Ég mun beita mér fyrir því í félmn. að úr þessu verði bætt, haft verði samband við þessa aðila og reynt að finna lausn á því hverju Alþingi getur breytt í þessu máli sem verður húsnæðiskerfinu til góðs. Það hljótum við að gera.

Ég get heldur ekki tekið undir það að málum sé þannig háttað í dag að ekkert sé að gerast í Húsnæðisstofnun því það renna þar út tugir millj. króna á hverjum degi. Í síðasta mánuði voru afgreidd lán fyrir rúmar 500 millj. kr. í húsnæðiskerfinu og heldur áfram allt þetta ár og fram á næsta ár einnig því að fjármagnið er þegar tryggt fyrir árið 1988. En við skulum vanda okkur við þetta og a.m.k. reyna að forðast það að lenda í stríði við þá aðila sem eiga að koma með peningana í því kerfi sem við búum við.