22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4716 í B-deild Alþingistíðinda. (3250)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mönnum finnst e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að bæta miklu við í þessari umræðu um flugstöðina og nóg af tíma Alþingis hafa farið í það mál nú þegar, en þegar menn hugleiða stærð þess máls, að hér er um þriggja milljarða mannvirki að ræða, og velta því svo fyrir sér að stundum eru haldnar hér býsna langar ræður um talsvert mikið minni upphæðir, til að mynda þegar verið er að bítast um skiptingu fjárlaga og menn ræða kannski daglangt og náttlangt um hvort þessi eða hinn reksturinn þurfi fáeinum þúsundum eða 100 þús. kr. meira eða minna, þá er auðvitað ekki óeðlilegt að Alþingi ræði dálitla stund um þetta flugstöðvarhneyksli sem ég kýs að kalla svo.

Ég veit ekki hvort menn gera sér almennilega grein fyrir því, vegna þess að talnamat manna er líklega býsna ruglað orðið, a.m.k. á það við um ræðumann, hvað 3000 millj. kr. eru miklir peningar. Jafnvel þó maður beri þær saman við byggingaráform Davíðs borgarstjóra, sem eru nú ekki smá í sniðum, fölna þau býsna mikið borið saman við þessa flugstöð. Þar er þó ekki verið að tala um nema 500–600 millj. í veitingahús upp á hitaveitutönkunum og kannski 800 millj. til milljarð fyrir ráðhús niðri í Tjörninni og eru þó byggingarlóðir Davíðs ekki endilega valdar út frá því hvar hagkvæmast er að byggja í borginni eins og sjá má og heyra. Jafnvel þessi risaáform Davíðs fölna í samanburði við flugstöðina.

Það má líka taka annað dæmi, K-byggingu Landspítalans eða ríkisspítalanna sem á að hýsa höfuðstöðvar stórs hluta sérhæfðustu læknisþjónustu landsmanna með tilheyrandi tækjabúnaði og umfangi. Þar erum við að ræða um að ráðstafa tugum og hundruðum milljóna, 150–200 millj., núna þessi árin sem verið er að byggja þá byggingu og er það þó ekki nein smábygging og eðli sínu samkvæmt býsna dýr í framkvæmd.

Þriðja dæmið skylt flugstöðinni má taka þar sem er tíu ára áætlun sérstakrar stjórnskipaðrar nefndar um uppbyggingu allra flugsamgangna innan lands, allra mannvirkja á sviði flugsamgangna innan lands, flugvalla, flugstöðvarbygginga, tækjabúnaðar og annarra slíkra hluta. Á verðlagi síðasta árs hljóðaði þessi tíu ára áætlun upp á rúma 2 milljarða kr. Sem sagt: þetta eina hús er þegar komið milljarði fram úr þeirri tíu ára áætlun. Menn skulu því hugleiða að hér eru stórar tölur á ferðinni og umframeyðslan ein upp á nú þegar tæpar 900 millj. er ekkert smáræði.

Ég verð, herra forseti, enn að gera athugasemdir við bls. 2 í skýrslu hæstv. utanrrh. Ég uni því afar illa að í þskj. framtíðarinnar verði ekki með einhverjum hætti skýrt og ljóst að þær upplýsingar, sú framsetning sem er á bls. 2 í skýrslunni er ekki við hæfi vegna þess að þar er látið líta svo út að ef kostnaðurinn sé í samræmi við áform byggingarnefndarinnar og fjárveitingabeiðnir byggingarnefndarinnar sé allt í lagi, bara ef samræmi sé á milli óska byggingarnefndar og síðan kostnaðarins. M.ö.o.: það eru ekki hinar endanlegu fjárveitingar fjárveitingavaldsins sem þar eru teknar til samanburðar við raunkostnað heldur óskir byggingarnefndarinnar. Að hafa svona framsetningu á hlutunum í opinberu plaggi er ekki við hæfi. Ég vitna í bréf Ríkisendurskoðunar frá 9. febr. þar sem þetta kemur skýrt fram. Það segir á bls. 2 í því bréfi: Samanburður áætlana og raunkostnaðar, með leyfi forseta:

„Í skýrslu utanrrh. er bókfærður kostnaður borinn saman við fjárveitingabeiðnir byggingarnefndar og komist að þeirri niðurstöðu að um svipaðar fjárhæðir sé að ræða.“

Þetta er alveg rétt. Bókfærður kostnaður er borinn saman við fjárveitingabeiðnir byggingarnefndarinnar, ekki hinar raunverulegu fjárveitingar fjárveitingavaldsins, og síðan er látið líta svo út að þetta sé allt í góðu lagi úr því að þarna er nokkurn veginn samræmi á milli. Og það er sett í skýrslu hæstv. utanrrh. Þessu uni ég a.m.k. ekki og get alveg lagt leið mína í ræðustólinn eina ferðina enn til þess að undirstrika að ég mótmæli þessari framsetningu.

Í töflu á bls. 2 í skýrslu ráðherrans er talan 1 milljarður og 2 millj. úr áætlun byggingarnefndar þar sem ætti að standa: fjárveiting ársins samkvæmt ákvörðun fjárveitingavaldsins upp á 710 millj. 387 þús. Það er sú tala sem á að miða við vegna þess að byggingarnefndin hefði þess vegna getað beðið um 11/2 milljarð eða 2 milljarða samkvæmt þessum rökum og þá væri það allt í lagi svo lengi sem hún færi ekki fram úr óskum sínum. Og þá er málið orðið einfalt fyrir ýmsa þá aðila sem standa í opinberum framkvæmdum. Það á að vera bara með nógu háar óskir og þá eru þeir örugglega réttu megin samkvæmt þessari samanburðarfræði. Þetta gengur auðvitað ekki og mér finnst í raun slæmt að hæstv. utanrrh. skuli ekki taka af skarið og viðurkenna að hér er um óviðeigandi framsetningu að ræða og þetta þyrfti að leiðrétta. A.m.k. þyrfti með einhverjum hætti að passa upp á að í framtíðinni verði þetta ekki meðhöndlað sem ábyggilegar opinberar upplýsingar því að það eru þær ekki.

Ég verð að segja alveg eins og er að annað í þessum málflutningi öllum, rökstuðningnum fyrir því að hér hafi í raun og veru ekkert alvarlegt skeð, fer í taugarnar á mér. Það er þessi tilhneiging til að reyna að segja sem svo: Stór hluti af þessum umframkostnaði eru alls konar framkvæmdir sem farið var út í, alls konar viðbætur og stækkanir. Og það er allt í lagi. Það er eins og það sé bara allt í fína lagi að einhver byggingarnefnd og einhver hæstv. utanrrh. taka sér þá bara heimildir til að ákveða alls konar opinberar framkvæmdir án þess að fyrir því séu fjárveitingar. Og ég spyr aftur: Ef menn fá nú leyfi til að byggja læknisbústað eða kennarabústað einhvers staðar, svo vakna menn allt í einu upp við það að byggingaraðilanum datt í hug að stækka þetta upp í félagsheimili, er það þá allt í lagi bara af því að þetta eru að vísu framkvæmdir sem farið var út í? Yfirleitt er sjálfsagt hægt að rökstyðja það mjög víða um landið að þó að menn fái ekki heimild til að byggja nema kennarabústað sé kannski full þörf á hellum skóla eða heilu félagsheimili með sömu rökum og byggingarnefndin og hæstv. ráðherrar hafa haft fyrir því að teygja á og stækka þetta mannvirki á ýmsa enda og kanta. En við erum að ræða hér um að vilji löggjafans sé virtur og menn sætti sig við að það er hér sem eru teknar ákvarðanir um fjárveitingar til opinberra framkvæmda en ekki úti í bæ.

Ég spurði hæstv. utanrrh. einnig í minni fyrri ræðu um þessa skýrslu hvort hann væri sáttur við fréttatilkynningu byggingarnefndar frá 12. ágúst sl., þá framsetningu sem þar er viðhöfð. Hæstv. ráðherra svaraði þessu ekki og ég endurtek spurningu mína.

Ég ræddi í þriðja lagi ofurlítið um skipulagsmál og spurninguna um hvernig byggingarlög og skipulagslög tengdust þessu máli. Þar viðurkenndi í raun og veru hæstv. ráðherra að þegar um hernaðarframkvæmdir er að ræða hefur hæstv. utanrrh., eða þá þeir menn, sá armur hans sem vinnur að málinu hverju sinni, meira og minna sjálfdæmi um þá hluti alla vegna þess að hin sérstöku ákvæði hins svonefnda varnarsamnings fela hæstv. utanrrh. á hverjum tíma mjög víðtækt vald í þessum efnum. Það tengist beint næstu spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra og hann svaraði ekki og ég ítreka um þátt og aðild húsameistara ríkisins að þessu máli. Ég tel að það verði ekki fram hjá því horft að af ýmsum embættismönnum, opinberum og háttsettum, sem tengjast þessu máli, er þáttur húsameistara ríkisins hvað stærstur. Hann kemur ekki bara að þessu máli í gegnum embætti sitt heldur líka sem arkitekt að því er virðist og einnig sitjandi í nefndum báðum megin við borðið ef svo má að orði komast. Vegna þess að byggingarlög og skipulagslög eru tekin úr sambandi með ákvæðum varnarsamningsins svonefnda koma hin sérstöku ákvæði um skipulagsnefnd varnarliðsframkvæmda eða hvað það nú heitir og að hluta til skipulagsráðs ríkisins til framkvæmda og þar situr húsameistari til viðbótar því að vera hönnuður mannvirkisins og eiga með ýmsum hætti aðild að framkvæmdinni. Þegar þetta allt er haft í huga held ég að það sé ástæða til þess að ítreka spurningu til hæstv. utanrrh.: Hefur verið farið yfir það hvernig embætti húsameistara ríkisins og einstaklingurinn núverandi húsameistari sem arkitekt tengjast þessu máli? Ég held að það sé full ástæða til.

Það er skaði, virðulegi hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. er enn fjarri þegar verið er að ræða þessi flugstöðvarmál. Nú er það hann sem óskaði eftir skýrslu frá Ríkisendurskoðun síðla sl. árs um þetta mál og ég hef margóskað eftir því að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur einhvern hluta þessarar umræðu. Við fengum áþreifanlega sönnun fyrir því, landsmenn, að talfærin voru í ágætu lagi hjá hæstv. ráðherra úti í Stokkhólmi á dögunum og hafi ekki orðið þar breyting á hefði honum ekki átt að verða neitt að vanbúnaði að vera hér og taka þátt í umræðunni. En því miður er hann fjarstaddur og ég spyr hæstv. forseta hvort unnt sé að kanna hvar hæstv. fjmrh. er því að vissulega er hér um efni, sem tengist mjög hans starfssviði, að ræða. Það hefði eins og ég segi verið ánægjulegt ef hann hefði getað heiðrað okkur með nærveru sinni.

Hæstv. samgrh. hefur fylgst nokkuð samviskusamlega með þessari umræðu og er það vel, en hann hefur hins vegar ekki tekið þátt í henni. Og ég spyr, ef hæstv. samgrh. væri einhvers staðar nálægur, sem mun vera, ég veit ekki hvort hann er að tefla skák þarna í hliðarsalnum, en alla vega er hann mjög upptekinn: Þykir hæstv. samgrh. ekki ástæða til að taka þátt í þessari umræðu? Ef unnt væri að gera hæstv. samgrh., sem er í áköfum samræðum í hliðarsal, aðvart vildi ég gjarnan að hann hlýddi á mál mitt.

Hæstv. núv. utanrrh. hefur sem og ýmsir fleiri tekið af öll tvímæli um það, tekið alveg af skarið um það að hin pólitíska ábyrgð þessa máls hlýtur að liggja hjá hæstv. utanrrh. á þeim tíma, þ.e. hæstv. núv. samgrh., að svo miklu leyti sem hann var fagráðherra málsins á meðan á framkvæmdum stóð. - Nú er hæstv. samgrh. mættur hér, brosmildur að vanda, og hlýðir þá á mál mitt.

Ég spurði hæstv. samgrh. hvort hæstv. ráðherra þætti ekki ástæða til að taka þátt nú í þessari umræðu af því að hæstv. ráðherra hefur hlýtt á hana með athygli að mestu leyti en ekki blandað sér í hana enn þá, þ.e. ekki í umræðu um þessa skýrslu. Nú hefur hæstv. utanrrh., ásamt fleirum reyndar, tekið alveg af tvímæli um það, tekið af skarið um að hin pólitíska ábyrgð á þessu máli liggur eða lá hjá hæstv. utanríkisráðherrum á hverjum tíma og ég á von á því að hæstv. samgrh. sé sammála. (Forseti: Vegna fsp. áðan vil ég upplýsa hv. þm. um að hæstv. fjmrh. er ekki staddur í húsinu og ég spyr hv. þm. hvort ástæða sé til að biðja hæstv. ráðherra, ef það er unnt, að koma hingað, en eins og kunnugt er hefur hann nú inni varamann vegna leyfis.) Hæstv. forseti. Svo fremi sem hæstv. fjmrh. hafi ekki fjarvist úr þinginu gerum við að sjálfsögðu ráð fyrir því að hann komi og sinni sínum þingskyldum nema eitthvað óvænt hafi þá komið fyrir og þá mundi hann væntanlega biðja formlega um fjarvist. (Samgrh.: Hann hefur fjarvistarleyfi. Það er varamaður hans inni.) Ber ekki hæstv. ráðherra að gegna þingskyldum sem ráðherra hvort sem hann hefur varamann inni í augnablikinu eða ekki? Ég held að hæstv. ráðherra ætti ekki að fara lengra út í þessa umræðu. (Forseti: Ég vil upplýsa að hæstv. ráðherra hefur ekki beðið um fjarvist. en að sjálfsögðu mundi hann eflaust sinna þeirri skyldu að koma hér ef þess yrði óskað og ég bið hv. þm. að skera úr því hvort ástæða er til að biðja hæstv. ráðherra að koma hingað.) Hæstv. forseti. Það væri hugsanlegt að bera hæstv. fjmrh. þau boð að mönnum þætti betra ef honum væri unnt að vera viðstaddur umræðuna þó það sé ekki úrslitaatriði af því tagi að ég fari fram á að umræðunni verði frestað þó að hæstv. ráðherra komi ekki. En mér þætti að sjálfsögðu betra að hæstv. ráðherra gæti verið hér og þætti vænt um að þau boð yrðu borin. (Forseti: Þau verða þá borin honum nú.) Já. Þá þakka ég hæstv. forseta fyrir.

Ég hafði einmitt hugsað mér að spyrja hæstv. fjmrh. um það hvort þess væri að vænta að áframhald yrði á hans atbeina í þessu máli, þ.e. hvort hæstv. fjmrh. hygðist eitthvað frekar fyrir í framhaldi af þeirri skýrslu sem hann og Alþingi hefur fengið frá Ríkisendurskoðun, en hún var eins og kunnugt er tilkomin vegna frumkvæðis hæstv. fjmrh. Fyrir nú utan það að það væri ástæða til að ræða ýmsa fleiri þætti þessa máls, sem tengjast opinberum fjárveitingum og meðferð opinbers fjár almennt, við hæstv, fjmrh.

Ég ætla þá ekki að hafa þessar spurningar mínar fleiri. Ég ætla að hlýða á svör hæstv. utanrrh. ef hann vill vera svo góður að reyna að svara þeim spurningum sem ég hef ítrekað. Ég mun einnig bíða spenntur eftir því hvort hæstv. núv. samgrh., hv. 1. þm. Reykn. og fyrrv. hæstv. utanrrh., sér ástæðu til að kveðja sér hljóðs.