22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4721 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér finnst að sumu leyti að þessi umræða hafi farið út um víðan völl. Annars vegar hafa menn verið að tala um þá ákvörðun sem var tekin hér fyrir allmörgum árum, að byggja flugstöð af ákveðinni stærð, og harma það. Það verður út af fyrir sig vafalaust hægt að deila um það í framtíðinni en það verður þó óumdeilanlegt að sú ákvörðun var löglega tekin af Alþingi Íslendinga og í fullu samræmi við stjórnarskrá þessa lands. Það verður aftur á móti ekki sagt um framhaldið.

Ég vil minna menn á það að hér stóð hæstv. fyrrv. menntmrh. og krafðist þess að fræðslustjóri yrði látinn víkja vegna þess að hann virti ekki fjárlögin, taldi að ef fjárlögin væru ekki í samræmi við þarfir ákveðins fræðsluumdæmis væru fjárlögin einfaldlega vitlaus og ekki hægt að fara eftir þeim.

Ég tel að hæstv. menntmrh. hafi haft nokkur rök fyrir sér í því að það beri að virða fjárlögin. Það virðist aftur á móti sem hæstv. fyrrv. utanrrh. hafi ekki talið að sér bæri nein skylda til að virða hvorki stjórnarskrána né fjárlögin, og það er mjög alvarlegt mál. Svo alvarlegt að það er trúlega Íslandsmet í sjálfteknum heimildum til framkvæmda.

Ég vil vekja athygli á því að samkvæmt 14. gr. íslensku stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta, kemur það fram og er orðrétt svo:

„Ráðherra ber ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ Svo einfalt er þetta.

Spurningin er um það: Hvað var það í stjórnarskránni sem ekki var virt og hvaða grein tekur á því máli? Með leyfi forseta er það 41. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

„Ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Þetta var ekki virt. Þetta er grundvallaratriðið í stjórnarskránni, að þingið hefur réttinn til að ákveða hvað sé greitt og hvað ekki. Og það er ekki bara hæstv. fyrrv. utanrrh. sem hefur átt í vandræðum með þetta. Þetta er mesta vandamálið sem Ronald Reagan hefur haft við að glíma sem handhafi framkvæmdarvaldsins. Það væri ekki dónalegt gæti hann starfað eins og hæstv. fyrrv. utanrrh. og mokað bara út peningum án þess að hafa nokkurt leyfi frá þinginu. Hann hefði sloppið við margan óþægilegan skrekkinn ef hann hefði haft það vald. Og auðvitað finnst sumum ráðherrum að þingið sé til trafala og það starfi ekki eðlilega, það afgreiði ekki mál nægilega hratt. E.t.v. hefur hæstv. ráðherra litið svo á að rétt fyrir kosningaátök væri óþægilegt að þurfa að segja sannleikann allan um þetta mál hér í þingsölum.

Ég vil undirstrika það að ég tel að þegar mál eins og þetta kemur upp hlýtur það náttúrlega fyrst og fremst að vekja upp spurningar sem þessa: Hvenær telur Alþingi Íslendinga að svo gróflega hafi verið brotið af sér í stjórnarákvörðunum að vísa beri máli til landsdóms? Það er spurningin sem hér hlýtur að koma fram. Hvað þurfa það að vera margir milljarðar sem menn leika sér með, fram yfir heimildir, svo að slík ákvörðun sé tekin?

Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að hún unir ekki á nokkurn hátt því sem gerst hefur. Það kemur fram í umsögn hennar um skýrslu utanrrh. að hún telur að ekki sé um sambærilegar tölur að ræða, þ.e. hinn upprunalega kostnað og þá niðurstöðu sem verður. Auðvitað hlýtur þetta mál að þurfa að haldast áfram. Auðvitað hlýtur að verða að fást úr því skorið: Hvar endar valdsvið ráðherra?

Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að tveir íslenskir alþm., sem nú sitja á Alþingi, hafa þurft að hlíta hæstaréttardómi fyrir störf sín sem ráðherrar. Þeir fóru út fyrir sitt valdsvið. Spurningin er undir þessum kringumstæðum, og það er fyrst og fremst spurningin um styrkleika þingsins annars vegar og styrkleika framkvæmdarvaldsins hins vegar, hvort menn telja að nú beri að vísa þessu máli til landsdóms eða eigi. Ég verð að segja eins og er að ég tel að ákvörðun um slíkt eigi ekkert skylt við það hvort menn séu í stjórn eða stjórnarandstöðu. Sá þm., sem tekur að sér að vera stjórnarsinni, tekur fyrst og fremst ákvörðun um það að hann ætlar að verja viðkomandi ríkisstjórn falli. Hann tekur enga ákvörðun um það að hann ætli að verja hvaða ráðherra sem er fyrir hvaða vitleysu sem honum dettur í hug að framkvæma, enda væri það alveg fráleitt að bera ábyrgð á slíku.

Ég vil, með leyfi forseta, vekja athygli á 13. gr. laga um landsdóm:

„Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra skal gerð með þingsályktun í sameinuðu þingi og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni, enda sé sókn málsins bundin við þau. Jafnframt kýs Alþingi mann til að sækja málið af sinni hendi og annan til vara ef hinn rétti kynni að forfallast. Enn fremur kýs sameinað Alþingi fimm manna þingnefnd með hlutfallskosningu til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar.“

Ég vænti þess að menn geri sér grein fyrir því að auðvitað verður svo Alþingi að hlíta niðurstöðum landsdómsins jafnt og ráðherra. Landsdómurinn er ekkert vilhallt tæki sem hægt er að beita gegn ein hverjum ákveðnum ráðherra. Landsdómurinn er úrskurðaraðili m.a. þegar alls ekki ber saman niðurstöðum frá framkvæmdarvaldinu og frá Ríkisendurskoðun.

Auðvitað verða menn hér að taka um það ákvörðun hvort þeir telja að nú sé tímabært að láta á það reyna hvar mörkin eru á milli þess valds sem þinginu er ætlað samkvæmt stjórnarskránni og þess valds sem ráðherrar hafa tekið sér og taka sér áfram ef Alþingi Íslendinga heldur áfram að láta fótum troða samþykktir þingsins sem koma fram í fjárlögum þessa lands.