22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4724 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég sagði við síðustu umræðu um þetta mál sl. mánudag að eflaust yrði ýmsu ábótavant í mínum svörum og ég heyri það að hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur þykir svo vera. Ég verð að viðurkenna að ég er langt frá því að vera nógu vel að mér um ýmsa þætti þessa mikla máls sem að mestu leyti hefur orðið til á tíma sem ég hef ekki setið í utanrrn., reyndar að öllu, svo að segja.

En sumu sem hér hefur verið spurt um skal ég enn leitast við að svara. Hv. þm. Júlíus Sólnes, sem er prófessor í jarðskjálftafræðum, fór með mjög alvarlegar fullyrðingar um bygginguna sem ég reyndi að sjálfsögðu strax að kanna og ég hef fengið svar við því sem er þannig að jarðskjálftastaðlar og styrkleiki byggingarinnar er yfirfarinn af Almennu verkfræðistofunni. Tveir dúxar frá hv. þm. — ég má líklega bara segja prófessor Júlíus Sólnes — önnuðust þá útreikninga, báðir sérmenntaðir frá Los Angeles. Þetta er nokkurn veginn orðrétt það sem mér var sagt og ég óskaði eftir að fá eitthvað á blað um þetta og þar segir: „Allir staðlar hússins miða við bandaríska eða íslenska staðla [þetta fjallar um jarðskjálftastaðla] eftir því hvor staðallinn gengur lengra. Ávallt báðum stöðlum fullnægt. Forsendur ákveðnar sameiginlega af bandarískum og íslenskum hönnuðum. Upphafleg hönnun gerð af bandarískum hönnuðum en endurreiknað af Almennu verkfræðistofunni þegar breytingar voru gerðar á kjallara. Byggingin er hönnuð bæði við ýtrustu kröfur jarðskjálftastaðla og er byggingin njörvuð niður með sérstökum bergfestum sem er einsdæmi í íslenskum byggingarframkvæmdum.“ En jafnframt er mér tjáð að hv. þm. prófessor Júlíusi Sólnes sé velkomið að koma og skoða allar þær tölur og upplýsingar sem fyrir liggja um bygginguna og mér þætti satt að segja mjög vænt um ef kollegi minn, verkfræðingurinn, gerði það því að ég vil gjarnan fá úr þessu skorið, að þarna sé sem sagt öllum slíkum reglum fullnægt.

Ég óskaði einnig eftir því að fá upplýst hvernig staðið væri að rafmagnseftirliti og brunaeftirliti og fékk eftirgreindar upplýsingar, með leyfi forseta:

„Rafmagnseftirlit ríkisins hefur allan tímann verið með í ráðum og er úttektaraðili hússins. Fulltrúar þess hafa allan byggingartímann fylgst grannt með framkvæmdum og oft verið tveir til þrír menn frá þeim á byggingarstað. Úttekt á rafkerfi hússins er í höndum Rafmagnseftirlits ríkisins.

Brunamálastjóri er samþykktaraðili að brunatæknilegri hönnun hússins. Öll brunatæknileg hönnun byggingarinnar er uppáskrifuð og stimpluð með embættisstimpli hans.“

Til viðbótar hef ég gefið fyrirmæli um það að allir íslenskir aðilar, sem eiga að stimpla við úttekt byggingar, verði tilkvaddir og enginn þar undanskilinn. Og ég veit að svo verður gert. Endanleg úttekt á byggingunni hefur ekki farið fram.

Hv. þm. Albert Guðmundsson gat um það réttilega að byggingin var rædd í ríkisstjórninni upphaflega. Auðvitað er það hárrétt, en ég hygg að það hafi verið aðeins misskilningur í hans orðum. Í orðaskiptum þeim sem fóru á milli mín og hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, sem situr nú í forsetastóli, var rætt um þær viðbætur sem verið hafa á byggingartíma og ég minnist þess ekki að þær hafi verið ræddar sérstaklega í ríkisstjórninni, viðbæturnar. En það er gott og skylt að það komi fram sem hv. þm. sagði að vitanlega var upphafleg ákvörðun ítarlega rædd í ríkisstjórn.

Það er einnig hárrétt hjá hv. þm. að þótt dollarinn hafi fallið þá hafa eflaust einnig fallið í verði ýmis þau tæki eða þættir sem keypt er frá Bandaríkjunum. En hér er verið að gera samanburð í íslenskum krónum og þá hefur að sjálfsögðu vægi dollarans lækkað mjög og munar þar um 200 millj. kr. í þeirri áætlun sem gerð var upphaflega og endanlegu dollaragildi í íslenskum tölum reiknað. Væntanlega ætti þá að hafa komið fram gjaldamegin lækkun á ýmsu sem keypt er frá Bandaríkjunum og tek ég undir það með hv. þm. En hér var eingöngu verið að gera grein fyrir því hvaða breytingar hefðu orðið á áætlun í íslenskum krónum.

Hv, þm. spurði einnig um það hvaða viðbótarkostnaður, ef ég man rétt, væri líklegur við bygginguna til að ljúka henni að fullu. Er það ekki rétt hjá mér? Ég held að spurt hafi verið um það. Það er nokkuð síðan ég óskaði eftir því að mjög ítarleg slík úttekt yrði gerð. Ég gekk eftir henni og fékk hana í hendurnar sl. föstudag og þar kemur fram að ef allt er til tínt, sem fram hefur komið, er talið að heildarfjárvöntun sé 241 millj. kr. Þegar lá fyrir umsókn um minnir mig 180 millj. á þessu ári, sem reyndar fékkst ekki inn á lánsfjáráætlun, en hins vegar er þessi fjárvöntun af ýmsum toga og flokkuð hér í allítarlegu skjali í fjóra flokka eftir forgangsröðun. Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu með því að fara yfir það. En eins og ég sagði í fyrri umræðu, þá eru þar ákveðnir stórir liðir sem valda okkur verulegum áhyggjum. Það er m.a. frágangur á hitaveitulögn sem getur ekki beðið mjög lengi og sömuleiðis þykir mér afar illt ef ekki er hægt að standa við samninga við listafólk um þau listaverk sem þarna eiga að rísa. Ég hygg að ég hafi sagt við fyrri umræðu að ég gerði mér vonir um að það yrði hægt með þeim fjárveitingum sem liggja fyrir, en samkvæmt síðasta uppgjöri er það ekki svo að ég mun enn leita eftir leiðum til að framkvæma þessa hluti alveg sérstaklega.

Hér hefur verið minnst á starfsmannaaðstöðu. Að sumu leyti er henni lokið, að öðru leyti ekki. Hún er inni í þessari áætlun sem ég nefni hér og ætla reyndar að ræða í ríkisstjórninni í fyrramálið. Ég hef ekki lagt hana þar fram enn.

Hv. þm. spurði einnig að því hvort flugstöðin væri utan yfirráðasvæðis hersins. Það er hún. Hún er utan yfirráðasvæðis hersins. Girðingin kemur í tvö horn flugstöðvarinnar og hermenn eru þarna hvergi viðriðnir. Hins vegar er gamla flugstöðin enn þá notuð í þeirra þágu. Það er enn þá tollgæsla með innflutningi varnarliðsins og sú tollgæsla fer ekki fram í þessari stöð. Ég sé að hv. þm. hristir höfuðið og ég lái honum það ekki neitt. En ég hygg þó að ég geti fullvissað hann um það að á þessari tollgæslu er hert og verður fylgst með þeim innflutningi sem á vegum hersins er. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið, en ég hef lagt á það ríka áherslu að það verði ekki síður fylgst með þeim innflutningi. En sem sagt: Flugstöðin er utan þess svæðis og í gegnum hana fara ekki flutningar á vegum hersins.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði um síðasta reikninginn. Ég hef aðeins farið yfir það. Hvort það er allra síðasti reikningur skal ég þó ekkert um segja, en ég óskaði þó eftir því að nú yrði allt tínt til sem mönnum væri ljóst og m.a. eru inni í þessu breytingar á dyrum flugstöðvarinnar þannig að ekki þurfi að blása þar í gegn í ákveðnum vindum. Mér er tjáð að sú lausn sem hér er lögð til sé örugg, en ég segi enn einu sinni: Það kann að breytast með meiri vindi. Ég þori ekkert um það að segja. En það er a.m.k. lögð vinna í það að reyna að leysa þessi vandamál.

Ég hef ekki verið að afsaka eitt eða neitt. Ég hef hvað eftir annað sagt að það sé ámælisvert að við flugstöðina var bætt. Ég hef hvað eftir annað sagt það. Og með þá hluti var ekki farið rétt. Það átti að komast alla leið til Alþingis og fjárveitingavaldsins að mínu mati. En ég er hins vegar enn ósammála því sem hér hefur verið sagt um þessa skýrslu sem ég lagði fram. Ég hef reynt að skýra mismun eða þann ágreining sem virðist vera um skýrsluna á milli þeirra sem gerðu hana fyrir mig og þess bréfs sem kom inn hjá Ríkisendurskoðun. Ég hef ekki gagnrýnt skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég kalla það ekki skýrslu sem hér kemur inn. Munurinn á niðurstöðum Ríkisendurskoðunar og niðurstöðum þeirra sem unnu þessa skýrslu fyrir mig er 83 millj. kr. Vitanlega er það veruleg upphæð. Það er rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni ef hann átti við þessa tölu. Það er veruleg upphæð. En í þeirri stórupphæð sem við erum að tala um, 2 milljarðar 992 millj., er það ekki mjög stór upphæð í þeirri tölu. Ég hef beðið um að fá skýringu á því í hverju þessi mismunur liggur, þessar 83 millj. kr., og ég hafði ekki fengið það í hendurnar þegar ég kom hingað eða a.m.k. ekki tekið eftir því á mínu borði. Það sem ég hef gagnrýnt — ég endurtek: ekki í skýrslu Ríkisendurskoðunar heldur í bréfi hennar — er það að alls ekki séu sambærilegar áætlanir sem gerðar eru fyrir hvern áfanga og kostnaður við hvern áfanga. Ég er enn ósammála því jafnvel þótt Ríkisendurskoðun eigi hlut að máli. Ég tel mig hafa komið það nálægt ýmsum framkvæmdum að ég tel að áætlun sem gerð er fyrir eitt ár og framkvæmdin það ár, og síðan samanlagður framkvæmdakostnaður bókfærður og slíkar áætlanir, séu samanburðarhæfar þó að þær gefi ekki endanlega niðurstöðu. Ég er líka þeirrar skoðunar — og ég endurtek enn einu sinni: þá er ég ekki að afsaka viðbæturnar, alls ekki — ég er enn þeirrar skoðunar að of lítið hafi verið gert úr verðhækkunum á tímabilinu, sem mér fannst rétt að kæmi fram að urðu 88% en ekki 25% eins og gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun.

Ég sé ekki ástæðu til þess að biðja afsökunar á 2. síðu skýrslunnar eins og mátti skilja á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni nema þá að því leyti að það sé ekki nógu skýrt sett fram sem þar er verið að reyna að gera. Þar er verið að draga fram hvaða verðhækkanir vega þungt á þessu tímabili. Það er hvað eftir annað undirstrikað að viðbæturnar eru ekki teknar með í þær áætlanir sem þar eru gerðar, komist að þeirri niðurstöðu, ef ég man töluna rétt, að grunnkostnaður viðbótanna sé 385 millj. kr. Vitanlega hafa síðan bæst við það líka verðhækkanir. Hluti af verðhækkunum á tímabilinu kemur að sjálfsögðu líka á viðbæturnar svo að þær eru í heild sinni, þegar allt er framreiknað til 1. sept. 1987, vitanlega meiri en þessi grunnkostnaður. Í þeim áætlunum sem hins vegar voru gerðar mun hafa verið gert ráð fyrir þessum viðbótum sem eru þarna teknar út úr til að reyna að draga það fram hverjar þær eru að grunnkostnaði.

En ég endurtek líka það sem ég sagði síðan: Líklega hefði verið einfaldast að gleyma þessu með verðbæturnar og bera aðeins saman þessa upphækkuðu tölu til 1. sept. 1987 og þá hefði það komið í ljós sem á engan máta er falið þarna að þær eru samkvæmt útreikningum þeirra sem ég fékk til að gera skýrsluna 783 millj. eða þar um bil reiknað í huganum, en hins vegar hjá Ríkisendurskoðun 861 millj. og þar í eru viðbæturnar og það er í raun og veru það sem er ámælisvert í þessari framkvæmd.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði hvort endurskoðaðar yrðu reglur um áætlanagerð og framkvæmdir. Allar ábendingar Ríkisendurskoðunar verða í mínu ráðuneyti a.m.k. teknar til meðferðar og skoðaðar í öllu sem á þess vegum er framkvæmt. Ég hef þegar átt fund með þeim mönnum sem um þessi mál fjalla þar og hef rætt þessi mál. Hæstv. forsrh. lýsti því hér yfir við fyrri umræðu að þarna væri um að ræða ábendingar sem yrðu teknar til meðferðar í framkvæmdum á vegum ríkisvaldsins og styð ég það mjög eindregið.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að ég væri að segja að ekkert alvarlegt hefði gerst. Það hef ég aldrei sagt. Ég vona að ég þurfi ekki að endurtaka enn einu sinni að ég tel afar alvarlegt að það skuli hafa verið bætt við framkvæmdir umfram heimild Alþingis fleiri hundruðum millj. kr. Ég tel það mjög alvarlegt og hefði þurft að komast vitanlega til skila hingað og þá að metast hér hvort þessar viðbætur væru nauðsynlegar. Það eru færð rök fyrir því, m.a. í sjálfri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar er tekið fram hvers vegna byggingarnefnd á sínum tíma og sá utanrrh. sem þá sat, sem reyndar var nú ekki síðasti utanrrh. heldur sá sem var þar á undan. Ég hef kannað það mál og ég held að allar þessar viðbætur séu samþykktar á hans tíma. Það er engin ástæða til að fela það heldur hvers vegna menn töldu - og ég efa það ekki að það hefur verið gert í góðri trú nauðsynlegt að bæta þessum hlutum við. Ég hef sjálfur leyft mér að segja að ég held t.d. að það væri afar slæmt ástand þarna suður frá ef ekki hefði verið fjölgað úr þremur landgöngurönum í sex því að þeir eru oft allir skipaðir. En hins vegar átti vitanlega að ræða það við fjárveitingavaldið og það að samþykkja að svo yrði gert.

Hv. þm. ræddi nokkuð um húsameistara og skipulagsmálin o.s.frv., sjálfdæmi í þeim málum. Ég held að það sé ekki rétt. Ég hef að vísu ekki nægilegar upplýsingar til að svara þeirri spurningu en eftir því sem ég veit best hefur húsameistari ríkisins ekki setið í þeim nefndum sem fjallað hafa um flugstöðina. Ég held að ég fari þar rétt með. Ef hann hefur átt sæti í slíkum nefndum þá hefur hann vikið þegar um það hefur verið að ræða. Þetta verð ég að segja með fyrirvara en mig minnir að þetta hafi komið fram í viðræðum sem ég átti með mínum mönnum um málið fyrir alllöngu eða skömmu eftir að ég kom til starfa og byrjaði að kynna mér þetta mál.

Skipulagsnefndin sjálf sem þarna starfar hefur unnið í mjög nánu samstarfi við skipulagsstjóra ríkisins. Ég get staðfest það. Fréttatilkynningu byggingarnefndar treysti ég mér ekki til að svara öðru en því sem ég sagði síðast að ég sagðist ekki taka neina ábyrgð á því sem kæmi frá byggingarnefndinni. Hins vegar hefði ég ekki við það að athuga að hún í sínu eigin nafni bæri hönd fyrir höfuð sér, við skulum kalla það það, eða reyndi að skýra sinn málstað. Ég hvorki fór yfir þessa fréttatilkynningu né yfir þá skýrslu sem hún sendi hingað. Ég vil að það komi skýrt fram. Ég hélt reyndar að það hefði komið skýrt fram að ég tek enga ábyrgð á þeirri skýrslu né fréttatilkynningunni.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir kom held ég ekki beinlínis með spurningar nema um það að það sem þarna hefur orðið verði okkur vonandi lærdómur. Ég hef þegar svarað því að nokkru. Ég vona svo einnig og mun leggja áherslu á það af minni hálfu. Ég held að það sé aldrei nógu vandlega að áætlunum og byggingarframkvæmdum staðið. Því miður höfum við ótal dæmi um það að farið hefur verið fram úr jafnvel þar sem t.d. opinber nefnd sem hefur eftirlit með framkvæmdum hefur haft með málin að gera. Við þekkjum þetta alls staðar. En ég mun svo sannarlega leggja áherslu á það þar sem ég kem að að framkvæmdir verði sem vandaðastar. Ég hef að sjálfsögðu þegar um það rætt að í engu verði farið fram úr þeim fjárveitingum sem Alþingi hefur ákveðið til þeirra verka sem að einhverju leyti falla undir minn verkahring. En þau eru að vísu ekki mörg í utanrrn. eins og er þó að þetta stóra verk hafi þar komið undir á sínum tíma.

Ég vona, virðulegi forseti, að ég hafi svarað þessum spurningum. Það er ýmislegt fleira sem mætti nefna. Ég vil segja það út af því sem var talað um að fá athugun á þessu bréfi Ríkisendurskoðunar úr skýrslu minni, að þá hef ég þegar rætt við menn sem ég treysti og við höfum farið aðeins yfir þau mál. Sumt af því sem ég sagði áðan er byggt á slíkri umræðu eins og t.d. að vitanlega eru áætlanir hvers áfanga og kostnaður við hvern áfanga sambærilegur. Mér er sama þó að það sé Ríkisendurskoðun, ég tel þetta vera rangt í bréfi Ríkisendurskoðunar að halda slíku fram.

Mér er einnig sagt að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, ég ætlaði að fletta því upp en hafði ekki tíma til þess, að í skýrslunni sjálfri sé þess getið að hún hafi fengið tvær áætlanir í hendur, þ.e. 12. febr. 1985 og 20. jan. 1986 og auk þess áætlun frá 1. mars 1987. En það segir í þessu sama bréfi að Ríkisendurskoðun hafi enga áætlun fengið nema þessa frá 1983. Ég veit ekki hvar liggur þarna misskilningur á milli manna sem ég hefði gjarnan viljað skoða betur.

En svo læt ég fyrir mitt leyti þessu lokið nema einhverjar enn fleiri spurningar komi fram. Ég vil aðeins endurtaka það að lokum að það er að sumu leyti skiljanlegt að hv. þm. hafi ekki verið ánægðir með öll mín svör því að ég hef orðið að leita annað upplýsinga og ekki ætíð haft þær undir höndum, en vil segja að það er velkomið að veita hv. þm. aðgang að öllu því sem tiltækt er í þessum málum.