22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4731 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Mig langar til að gera hér örstutta athugasemd vegna ummæla hæstv. utanrrh. Mér þótti vænt um að heyra að hann hefði í tilefni af þeirri ræðu, sem ég flutti hér í umræðunum fyrr um flugstöðvarbygginguna og skýrslu hæstv. ráðherrans, gert sér ferð til Almennu verkfræðistofunnar til að kanna með hvaða hætti hefði verið staðið að jarðskjálftahönnun byggingarinnar. Það sem ég minntist á í máli mínu í umræðunum fyrr var að ég rak augun í athugasemd sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, þar sem staðhæft er að vegna þess að skriðkjallara var bætt við undir bygginguna hafi þurft að auka verulega járnamagn, járnabindingu og steypumagn vegna aukins jarðskjálftaálags sem þá var nauðsynlegt að taka tillit til.

Mér þykir mjög vænt um að heyra að það eru fyrrverandi nemendur mínir úr Háskólanum sem hafa staðið að þessari hönnun. Er mér nú miklu rórra því ég þekki nokkra ágætis fyrrverandi nemendur mína sem starfa einmitt hjá Almennu verkfræðistofunni og ég veit að málin hafa verið í góðum höndum hjá þeim. Það sem kannski væri þá þess virði að kanna betur eru forsendur hönnunar sem þessarar, þ.e. hér er um að ræða gífurlega mikið mannvirki og þeir fátæklegu hönnunarstaðlar sem við höfum aðgang að á Íslandi taka ekki á einn eða annan hátt tillit til slíkra mannvirkja sem flugstöðvarbyggingarinnar. Þegar um slíka framkvæmd er að ræða verður að fara miklu nákvæmar niður í allar forsendur fyrir þeirri hönnun sem þar á að fara fram. Að sjálfsögðu hefði átt að kalla til sérfræðinga á sviði jarðeðlisfræði, láta þá segja fyrir um hvað er líklegt jarðskjálftaálag á þessum slóðum. Það kemur nefnilega í ljós þegar það er kannað betur að það er sáralítið. Flugstöðvarbyggingin stendur alls ekki á miklu jarðskjálftasvæði. Hún er á Reykjanesskaganum þar sem um er að ræða jarðhitasvæði og þar verða jarðskjálftar aldrei mjög stórir. Þess vegna eru kannski allar líkur á því að ef þetta hefði verið kannað betur - það er ekki hægt að ætla venjulegum byggingarverkfræðingum að rannsaka slík mál, þetta er aðeins á færi jarðskjálftasérfræðinga - þá hefði það komið í ljós að það hefði verið nægjanlegt að reikna þessa byggingu fyrir mjög lítið jarðskjálftaálag. Þess vegna orka hugmyndir um bergfestingar með meiru mjög tvímælis í þessu sambandi.

Ég vildi nú aðeins vekja athygli á þessu og á því að þann lærdóm má draga af þessu að hönnunarforsendum og hönnunarstöðlum, sem við notum hér á landi, er mjög ábótavant og það er til vansa hvað við höfum sinnt þessu illa. Við höfum lítið viljað sinna þeim málum að láta vinna hér nákvæma og vandaða hönnunarstaðla. Iðntæknistofnun Íslands hefur haft þetta verkefni með höndum til margra ára en hún hefur ekkert fjármagn fengið til þessa verkefnis sem neinu nemur þannig að þessi mál eru í mjög miklum ólestri. Þannig eru allir staðlar, sem unnið er eftir hér á landi, mjög ófullkomnir og væri það ágætt tækifæri sem hér gefst til þess að draga þann lærdóm að við þurfum að vanda betur til allra hönnunarstaðla sem eru notaðir hér við hvers kyns framkvæmdir og veita meira fjármagni til þessara hluta en verið hefur.