22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4732 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en ég verð þó samt að koma upp til að ítreka spurningar mínar vegna þess að þeim var eiginlega ekki svarað.

Í fyrsta lagi: Hvernig ætlar hæstv. utanrrh. að standa að endurskoðun á niðurstöðum Ríkisendurskoðunar? Mér er nefnilega ekki alveg ljóst hvort hann ætlar að skipa sérstaka nefnd til þessa verks eða hvort hann ætlar sjálfur persónulega að leita til óvilhallra tölfróðra vina sinna. Það skiptir talsvert miklu máli finnst mér hvort á að endurskoða Ríkisendurskoðun og þá hvernig að því er staðið.

Í öðru lagi: Hvernig er fyrirhugað að nýta hið stækkaða kjallararými undir flugstöðinni sem var ein af viðbótunum eða breytingunum sem gerð var á byggingartíma og er gríðarlega mikið flæmi og er ekki nýtt nú? Til hvers var það hugsað? Hvers vegna var þetta stækkað?

Í þriðja lagi og það er meginmál: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að sjá til þess að þetta mál verði okkur að kenningu - og þá meina ég nákvæmlega hvernig? Eða ætlar hann að gera það og þá hvernig ætlar hann að gera það? Ætlar hann að sjá til þess að teknir verði upp nýir vinnuhættir þar sem ábyrgðin er skýrt skilgreind hjá ráðherrum, ráðuneytismönnum öllum, hjá öllum verktökum eða öðrum sem sinna störfum á vegum ráðuneyta þannig að ábyrgðin sé ævinlega í hverju verki skýrt skilgreind? Hvernig ætlar hann að standa að því? Það er gott að ráðherra hafi góðan vilja til þess arna en mig langar að vita hvernig hann hyggst framkvæma þetta.

Síðan til hv. 4. þm. Norðurl. e. Mér datt nú í hug þegar hann var að biðja um að fjmrh. yrði viðstaddur þessar umræður að það væri kannski ekki nema von að ráðherrann gæti ekki verið viðstaddur því hann er að sjálfsögðu önnum kafinn við að hanna nýja utanríkisstefnu og má ekki vera að því að koma.