22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4735 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég gerði fsp. fyrr við þessar umræður til hæstv. utanrrh., fyrst um heildarkostnað byggingarinnar, hvort við værum að ræða heildarkostnað byggingarinnar á Keflavíkurflugvelli eða hvort enn mætti eiga von á viðbótarkostaði. Hæstv. utanrrh. hefur nú svarað að áætlaður viðbótarkostnaður til að fullklára mannvirkið, og inni í þeim kostnaðartölum sem hann gaf er gert ráð fyrir viðgerðum til þess að mannvirkið haldi vatni og vindum, sé upp á 241 millj. kr. og það eru líka peningar. Þannig að þá vitum við svona nokkurn veginn hvað mikill byggingarkostnaðurinn verður í heild sinni og hann verður umfram áætlun þegar upp er staðið og byggingunni er að fullu lokið.

Ekki vil ég leiðrétta frekar en kollegi minn, hv. 7. þm. Reykn., hefur gert þann misskilning sem kom upp á milli hans og hæstv. utanrrh. þegar þeir töluðu um faglegu hlið byggingarinnar en það er gott að vita að hæstv. utanrrh. sá ástæðu til þess að skoða hvaða fagmenn, og hvaða einkunnir þeir hefðu hlotið, stóðu að hönnun mannvirkisins en hv. 7. þm. Reykn. talaði um að það hefði verið of í lagt og gerði athugasemdir við kostnaðinn miðað við það sem þörf er um styrkleika bygginga á þessu svæði vegna væntanlegra jarðskjálfta. Það var sem sagt ekki þörf fyrir þá steinsteypu sem lögð var í bygginguna til viðbótar vegna þess að skriðkjallari var stækkaður. En ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að þátttaka Bandaríkjamanna í þessu mannvirki væri m.a. háð því að mannvirkið væri þannig úr garði gert að það væri hægt að nota það fyrir stríðssærða sem yrðu fluttir frá vígvöllum til Íslands í eins konar sjúkrahús sem yrði þá staðsett í flugstöðinni í Keflavík og þeir væru þá í nokkru öryggi sem þangað yrðu fluttir. Og án þess að hafa spurt sérstaklega hef ég litið á stækkun á þessum skriðkjallara sem hluta af stríðsmannvirki, sjúkrahúsi, sem væri þá rekið í stöðinni ef til styrjaldar kæmi.

Það væri gott að fá svar við því hvort þessi skilningur minn er rangur því eitt af því sem talað var um þegar ákveðið var að fara út í þessar byggingarframkvæmdir var einmitt að hægt væri að breyta flugstöðinni í sjúkraskýli fyrir særða hermenn ef til styrjaldar kæmi.

Ég fagna því að hæstv. utanrrh. er búinn að staðfesta að ummæli mín um tollgæslu fyrr í þessum umræðum urðu til þess að hæstv. utanrrh. staðfestir í dag í svari sínu að tollgæslan hefur verið hert. Ég vona að ég hafi skilið það rétt. Ég verð að segja að það var ekki vanþörf á því vegna þess að engin tollgæsla var á tollpósti, pakkapósti, með flugvélum frá útlöndum til Keflavíkurflugvallar. Ég gerði tilraun sem yfirmaður tollþjónustunnar á sínum tíma til að breyta þar um og laga en gat ekki vegna þess að utanrrn. fór með tollgæsluna og þó að fjmrh. væri yfirmaður tollgæslunnar á pappírnum eða lögum samkvæmt hafði hann í raun sem yfirmaður tollgæslunnar engan aðgang að því að gera þær úrbætur sem nauðsynlegar voru. Mér þykir gott að heyra að utanrrh. hefur hert og bætt tollgæsluna hvað þetta snertir.

Þá vil ég líka geta þess að ég átti í mjög miklum erfiðleikum innan ríkisstjórnarinnar vegna ráðstafana sem ég gerði í tolleftirliti á þeim vörum sem eru fluttar sjóleiðina til Keflavíkur þegar mér barst það til eyrna, og fékk það staðreynt, að vörur voru fluttar úr skipum, hvort sem það voru íslensk eða erlend skip, beint upp á Keflavíkurflugvöll án nokkurs eftirlits og pappírar sem áttu að fylgja vörunum fyrir íslensku tollþjónustuna bárust ekki fyrr en kannski hálfum mánuði eftir að vörunum hafði verið skipað upp til Keflavíkuraðilanna og þær farnar inn á Keflavíkurflugvöllinn og þá kannski með farmskrám sem voru á dulmáli þannig að það var útilokað að skilja pappírana og skoða vöruna. Ég vona að þessu hafi líka verið breytt og að tollgæslan hafi verið hert á þessu sviði. Annað væri okkur sem sjálfstæðu ríki til háborinnar skammar því að á þessum sviðum hefur innflutningi fyrir varnarliðið ekki verið hagað á neinn annan hátt hér en milli fylkja í Bandaríkjunum. Keflavíkurstöðin hefur því verið eins konar fylki í Bandaríkjunum hvað þetta snertir og með tilkomu nýju tollstöðvarinnar og nýrrar og breyttrar starfsemi á Keflavíkurflugvelli stóð til að breyta þessu og laga. Þess vegna lagði ég mjög mikla áherslu á það að fá svar frá hæstv. utanrrh. — (Forseti: Gefið hljóð á fundinum.) Á ég að taka það til mín eða ætla einhverjir aðrir að taka það til sín? Ég þakka hæstv. forseta. - um það hvort flugstöðin yrði talin utan eða innan girðingar, hvort hún kæmi áfram undir yfirráðasvæði hæstv. utanrrh. eða hvort ráðherrar hinna ýmsu ráðuneyta og málaflokka gætu starfað á eðlilegan hátt. Ég gat þess að ljóst þyrfti að vera hvort þessi stærsta tollstöð landsins og fjölmennasta farþegaafgreiðsla landsins til og frá landinu, og má segja sú eina ef undan er skilin afgreiðsla Færeyjaferjunnar á Seyðisfirði, heyrði undir rétt ráðuneyti eða ekki.

Nú hefur hæstv. utanrrh. staðfest að svo muni ekki verða því að á milli funda kynnti ég mér líka staðsetningu stöðvarinnar frá þessu sjónarmiði. Girðingin hún liggur þannig að afmarkaða svæðið sem heyrir beint undir daglegan rekstur varnarliðsins er þannig afgirt að girðingin liggur í flugstöðina hvoru megin og varnarliðið lítur á flugstöðina sem eins konar hlið út úr landinu en um leið og þú ert kominn inn í flugstöðina, að maður tali nú ekki um út hinum megin, ertu kominn á varnarsvæði. Þannig að stöðin er innan girðingar varnarliðsins en átti að vera utan. Og ég held að hvar sem hver vill staðsetja sjálfan sig í hinum vestrænu vörnum og þátttöku þar í eða hvernig hann vill tjá hug sinn til NATO þá vil ég staðsetja mig sem NATO-sinna og hef talið sem sjálfstæðismaður að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa hér varnir eða varnarlið og rök mín fyrir þessu eru nákvæmlega rök Sjálfstfl. Ég hef ekkert breyst í lífsskoðun við það að stofna nýjan flokk eða vera rekinn úr Sjálfstfl. Mín lífsskoðun er óbreytt. Ég vil hins vegar, á sama hátt og um leið og ég undirstrika það að ég er NATO-sinni sem kallað er, aftur enn einu sinni reyna að ná eyrum þjóðarinnar almennt, hvaða flokksskírteini sem þeir kunna að hafa, þegar ég segi að löng dvöl varnarliðs hvar sem er má ekki verða til þess að hefðir sem dvöl varnarliðs skapar þar sem það er verði landslögum yfirsterkari. Þessi hætta er líka fyrir hendi þar sem herir eru í heimalandinu sjálfu. Landslög eru þar í hættu ekki síður en hér og annars staðar. Því harma ég það að ein af forsendum fyrir því að farið var út í þessa miklu byggingu sem er Keflavíkurflugstöðin er brotin með því að starfsemi þessarar flugstöðvar er ekki aðskilin frá starfsemi varnarliðsins eins og reiknað var með og utanrrn. heldur áfram að fara með alla málaflokka hvort sem það eru lögreglumál, tollamál eða hvað annað, það heyrir undir utanrrh., ekki samkvæmt lögum heldur samkvæmt reglugerð sem bæði hæstv. núv. utanrrh. og ég höfum reynt að fá breytt á vissan hátt, eins og ég gat um í ræðu minni fyrr í þessari umræðu fyrir nokkrum dögum síðan, þegar við sátum hlið við hlið í flugráði og vitna ég til þeirrar ræðu til þess að endurtaka ekki það sem ég sagði þá.

Þetta er stærra mál en svo að við getum ýtt því til hliðar með því að neita að hlusta þegar orðin eru töluð og það er alveg sama frá hverjum þau koma. Það fer ekki eftir flokksskírteinum hvort menn eru Íslendingar í raun eða ekki. Við verðum að hafa pláss fyrir það í okkar heila að hugsa vítt og breitt um hagsmuni þjóðarinnar. Til þess erum við hérna.

Við hv. 6. þm. Reykv. segi ég það að ég ætla ekki í þessari ræðu frekar en þeirri síðustu að firra mig ábyrgð á flugstöðvarbyggingunni eða mannvirkinu. Ég var fjmrh. þegar þessi ákvörðun um að byggja flugstöðina var tekin. Að vísu var kostnaðaráætlunin í lægra lagi, mikið lægri en niðurstöðutalan virðist ætla að verða. En það vil ég segja að sá maður, sem var fenginn úr Ríkisendurskoðun til þess að fylgjast með verkefninu, var góður maður. Það var einn af bestu mönnum Ríkisendurskoðunarinnar og hafði fullt traust margra fjmrh. á undan mér og fullt traust mitt og það kom mér ekkert á óvart, en það kom sér illa fyrir mig sem fjmrh. að það var beðið um hann úr Ríkisendurskoðuninni til þess að fylgjast með framkvæmdum. Mat mitt á þeim manni, þrátt fyrir allar umræður um aukakostnað við framkvæmdirnar, hefur ekkert breyst. Og ég vil segja það að hæstv. þáv. utanrrh. ræddi þetta mál hér úr þessum stól. Hann gaf ríkisstjórninni þá fulla skýrslu um væntanlegar framkvæmdir og lagði málið mjög vel fyrir og við samþykktum þá í ríkisstjórninni að fara út í þessar framkvæmdir og eru þá allir samábyrgir fyrir því. En mig minnir og ég held að ég muni það rétt, mér er næst að segja að ég hafi leyfi virðulegs formanns utanrmn. til þess, að málið var líka kynnt í utanrmn. og ég held, ef ég man rétt, rætt oftar en einu sinni. (Gripið fram í.) Ég fer rétt með, er það ekki? (Gripið fram í.) Já, þannig að við erum öll meira og minna sammála.

Þegar hv. 6. þm. Reykv. spyr hæstv. utanrrh. hvort hann ætli að sjá til þess að málið verði okkur öllum að kenningu og við breytum þá einhverju til þess að niðurstöðurnar verði þá aðrar en í þessu tilfelli við næstu verkefni, held ég að það þurfi ekki að breyta neinu öðru en því að allir fari að lögum og fari að reglugerðum. Ég held að það sé nokkuð vel gengið frá því hvernig á að standa að opinberum framkvæmdum almennt og liður í því var að fá þennan trausta mann frá Ríkisendurskoðun á sínum tíma til þess að hafa eftirlit með framkvæmdum. Ég held að þetta sé allt spursmál um það sem er svo íslenskt. Það er bara að fara að þeim reglum sem þegar hafa verið settar. Það á við Íslendinga almennt á öllum sviðum. Það er oft erfitt að fylgja settum reglum eða fara eftir ákvörðunum.

Ég hef talað um skilning minn á stækkun eða þörfinni fyrir stækkun á kjallararýminu og ég vona að hæstv. ráðherra staðfesti eða leiðrétti ef skilningur minn er rangur, en alla vega var um það talað á sínum tíma að þátttaka Bandaríkjamanna í framkvæmdum væri háð því að þeir gætu haft not af byggingunni ef á þyrfti að halda sem við skulum öll vona að verði aldrei.

Mig langar líka að svara hv. 13. þm. Reykv. þegar hún segir að allir nema Sjálfstfl. séu sammála um málsmeðferð og það sé eins og að Sjálfstfl. einn hafi ekkert við málsmeðferð að athuga eða málið í heild að athuga. Ég efast um að það sé rétt. Ég vil hins vegar ekki firra mig neinni þeirri ábyrgð sem hv. þm. setur á Sjálfstfl. eða sjálfstæðismenn. Ég var í þeirra hópi á þeim tíma og er fullkomlega ánægður með það að vera með þeim í þeirra félagsskap í þeirri ábyrgð sem kann að verða sett á herðar Sjálfstfl. í þessu máli. Ég sé ekki að hann þurfi neitt að skammast sín. Ég sé ekki, enda hef ég ekki heyrt það á neinum sem hér hafa talað, að ástæðan fyrir fsp. sem slíkri hafi verið sú að einhverjir hafi verið grunaðir um eitthvert glæpsamlegt atferli. Það hef ég ekki heyrt talað um. En að farið hafi verið út í framkvæmdir umfram það sem Alþingi hafi gert ráð fyrir, það hefur komið fram. Annað hefur ekki komið fram. Ég sé ekki neitt óheiðarlegt nema þá að það sé talið óheiðarlegt að bygging flugstöðvarinnar hafi átt sér stað. Þar af leiðandi er ég ekki sammála hv. 2. þm. Vestf. um þetta mál, að tala okkur í þessu máli inn í einhverja sjálfheldu, sem gefur okkur ekki neina aðra útgönguleið en að senda málið til landsdóms. Mér finnst allt tal um landsdóm ekki eiga rétt á sér.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.