23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4751 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

60. mál, iðnaðarlög

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég leyfi mér hér að mæla fyrir frv. til l. um breyt. á iðnaðarlögunum, nr. 42/1978. Þetta frv. er örstutt og ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa lagafrumvarpsgreinina en hún er svohljóðandi:

„Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi:

Iðnaðarráðherra er jafnframt heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum 3. tölul., enda standi sérstaklega á.“

Í athugasemdum kemur fram að þetta frv. sé flutt til þess að iðnrh. hafi heimild til að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. iðnaðarlaga um að meira en helmingur hlutafjár í iðnfyrirtækjum hér á landi skuli vera eign manna búsettra á Íslandi.

Í athugasemdum er jafnframt tekið fram að orðalag 1. gr. frv. sé það sama og var í iðnaðarlögum er giltu hér á landi frá árinu 1927 til ársins 1978 þegar þetta ákvæði féll úr iðnaðarlögum. Ekki verður séð annað en það hafi gerst vegna mistaka eða af misskilningi, enda voru þá gerðar breytingar á iðnaðarlögum sem snertu fyrst og fremst allt önnur atriði en þau sem hér er um að tefla.

Það er jafnframt tekið fram í athugasemdunum, sem eru stuttar, að með þessu orðalagi „enda standi sérstaklega á“ sé fyrst og fremst átt við samstarfsfélög íslenskra og erlendra aðila er vinna að nýsköpun.

Í ljós hefur komið við skoðun á þessu máli að á þeim tíma þegar Ísland gekk í Fríverslunarbandalag Evrópu hafi þetta ákvæði, sem þá var í gildi í iðnaðarlögunum, verið talið ein af forsendum þess að Íslendingar gátu gerst aðilar að Fríverslunarbandalaginu, skv. 16. gr. samninganna þar um. Ég vil taka það fram að ég tel að þessa undanþágu til að veita aðilum búsettum erlendis heimild til að eiga meiri hluta í íslenskum iðnfyrirtækjum beri fyrst og fremst að nota þegar um samstarfsverkefni er að ræða þar sem erlendi aðilinn hefur yfir að búa tækniþekkingu eða hefur aðgang að markaði með þeim hætti að hagkvæmt getur verið að fyrirtæki sé að meiri hluta til í eigu erlendra aðila. Það skal tekið fram að nokkrir slíkir hafa leitað til iðnrn. og leitað fyrir sér um það hvort heimilt sé að stofna slík félög, og til munu vera dæmi um það að erlendir aðilar eigi í raun meiri hluta í sameignar- eða hlutafélögum þrátt fyrir nánast fortakslaust bann þar að lútandi skv. 4. gr. iðnaðarlaga.

Það skal jafnframt tekið fram að slík félög sem þannig verða stofnuð gegna að sjálfsögðu íslenskum lögum og tilheyra íslenskri lögsögu í öllum atriðum. Þau eru háð lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla. Forræði íslenskra stjórnvalda almennt yfir rekstri þessara fyrirtækja yrði því óbreytt hvað varðar skattlagningu, mengunarvarnir, hollustuvernd, öryggisbúnað á vinnustöðum, réttindi og skyldur starfsmanna, gjaldeyrismál, reglur um samkeppnishömlur og fleira í þeim dúr sem snýr að almenningsheill og varðar íslensk lög. Það er þess vegna rangt sem stundum er haldið fram að forræði íslenskra stjórnvalda og dómstóla nái ekki til slíkra fyrirtækja.

Þá vil ég, herra forseti, minna á að í samstarfi ráðherra sem fara með iðnaðarmál á vegum Norðurlandaráðs hefur verið unnið að því að auðvelda iðnaðarsamstarf milli Norðurlanda og það frv. sem hér er flutt er í þessum anda, enda þótt endurskoða þurfi fleiri ákvæði en þau sem hérna er verið að fjalla um.

Í Ed. var þetta mál skoðað mjög rækilega af hv. iðnn. þeirrar hv. deildar. Nál. meiri hl. er birt á þskj. 439 og þar kemur fram að meiri hl. hv. nefndar leggur áherslu á fjögur atriði sem ég tel, herra forseti, ástæðu til að kynna hv. neðrideildarþingmönnum. Þessi fjögur atriði eru:

„1. Heildarákvæði sambærilegt því sem lagt er til í frv. þessu var í iðnaðarlögum frá 1927 til 1978 þegar ákvæðið féll úr lögum. Nefndin áréttar það sem fram kemur í grg. með frv. að orðalagið „enda standi sérstaklega á“ skuli skýra þröngt og gildi fyrst og fremst um samstarfsfélög innlendra og erlendra aðila er vinna að nýsköpun.

2. Heimildarákvæði þetta nær fyrst og fremst til smærri eða meðalstórra fyrirtækja. Varðandi samninga um stóriðju er gert ráð fyrir að sérstök lagasetning þurfi til að koma auk lánsfjárheimildar.

3. Samstarf innlendra og erlendra aðila í iðnfyrirtækjum getur aukið verulega fjölbreytni í útflutningi, flutt inn í landið nýja þekkingu, t.d. á sviði tæknimála, markaðsfærslu og stjórnunar. Enn fremur er það mikils virði að hinn erlendi samstarfsaðili beri hluta af fjárhagslegri áhættu sem atvinnurekstrinum fylgir.

4. Það er eðlilegt og æskilegt að stuðla að því að innlendir og erlendir aðilar taki upp samstarf í nýjum iðngreinum og við endurskipulagningu á starfsemi sem þegar er fyrir hendi. Jafnframt verði tryggt að erlendir aðilar nái ekki tökum á náttúruauðlindum lands og sjávar eins og skýrt er tekið fram í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar.“

Hér læt ég lokið við að vitna til nál. meiri hl. iðnn. Ed., en að því nál. stóðu þm. Framsfl., Sjálfstfl., Alþfl. og Borgarafl. Minni hl., en í honum var hv. þm. Svavar Gestsson, skilaði minnihlutaáliti og lagði til að frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar, fyrst og fremst á þeim rökum að þessi mál í heild sinni, þ.e. fjárfestingar erlendra aðila, væru til skoðunar í sérstakri nefnd. Ég vil taka það fram, herra forseti, að sú skoðun hefur átt sér stað allt frá síðasta sumri og er langt á veg komin, en breytir ekki því að þetta frv. sem hér er flutt þarf að fá afgreiðslu sem allra fyrst, enda eru hagsmunir í húfi og þeir eru að svo kann að fara að fyrirtæki, sem hugsanlega gætu stofnast og hafið rekstur hér á landi í samvinnu erlendra og íslenskra aðila, mundu að öðrum kosti hugsanlega flytjast til annarra landa.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni, en vænti þess að þetta mál megi að lokinni skoðun í hv. iðnn. þessarar hv. deildar koma aftur hingað inn á fund og verða samþykkt fyrr en síðar.