23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4758 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

60. mál, iðnaðarlög

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu lætur lítið yfir sér og lítur í fljótu bragði ekki út fyrir að vera mikið mál. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að ef frv. verður að lögum er verið að færa mikið vald yfir til ráðherra með því að rýmka heimild til að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. iðnaðarlaga, um að meira en helmingur hlutafjár í iðnfyrirtækjum hér á landi skuli vera eign manna búsettra á Íslandi. Þarna er ráðherra gefið vald til að taka mikilvægar ákvarðanir án þess að þurfa að bera þær undir Alþingi.

Það sem vekur athygli í þessu sambandi er að á sama tíma og verið er að endurskoða lög og reglur um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi kemur þetta frv. sem ætti að vera hluti af þeirri endurskoðun.

Í skýrslu viðskrh. um erlenda fjárfestingu og íslenskt atvinnulíf, sem lögð var fyrir 109. löggjafarþing á þskj. 700, kemur fram að lagaákvæði varðandi fjárfestingu útlendinga í íslensku atvinnulífi eru mjög mismunandi eftir atvinnugreinum. Það er því full ástæða til að endurskoða lögin og samræma þau.

Ég tel hins vegar óeðlilegt að taka á þennan hátt út eitt lítið atriði án þess að líta á málið í heild. Ég hef enn ekki heyrt þau rök sem geta réttlætt slíkt. Ef einstök mál koma upp væri þá ekki eðlilegra að taka á þeim sérstaklega hér á Alþingi?

Það er þó ekki aðeins af þessum ástæðum sem við kvennalistakonur höfum áhyggjur af þessu frv. Með því er verið að opna leið fyrir erlent fjármagn inn í íslenskan iðnað sem getur haft verulegar afleiðingar. Hæstv. ráðherra sagði áðan að þótt fyrirtæki væru að meiri hluta í eigu útlendinga þá giltu um þau íslensk lög og að þau mundu falla undir íslensk skattalög. Það er ekki ljóst að svo þurfi endilega að vera en ég held að það gæti verið auðvelt fyrir fyrirtækin ef það hentaði þeim að koma ágóðanum óskattlögðum úr landi. Alla vega þyrftu að gilda um þetta mjög ákveðnar reglur.

Oft hafa heyrst þau rök að við þurfum að laða að erlent fjármagn í formi svokallaðs áhættufjármagns og er það talið betra en að við tökum lán. Í því sambandi efast ég um að erlendir fjármagnseigendur muni vilja fjárfesta hér á landi nema geta flutt það mikinn arð úr landi að það samsvaraði dágóðum vöxtum af því fjármagni sem þeir hafa lagt til.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að við töpum yfirráðum yfir auðlindum okkar í hendur útlendinga. Það er vandséð hvers vegna liggur á að samþykkja þetta frv. og réttast væri að samþykkja það alls ekki.