23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4762 í B-deild Alþingistíðinda. (3277)

60. mál, iðnaðarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Nú er ég ekki sammála hv. þm. Albert Guðmundssyni. Ég held að hér sé ekki um að ræða traust eða ekki traust. Við erum að setja lög og það er málið. Og við erum að tryggja það að ef til þess kemur að hleypa erlendum aðilum með meirihlutafjármagn hér inn í landið verði um það umfjöllun, það verði rætt, það verði skoðað, það verði ekki gert í fljótræði að ganga frá slíku sem alltaf er hætta á, jafnvel þó menn treysti þeim mönnum sem með þá málaflokka fara.

Ég spyr bara alveg í einlægni: Er ástæða til þess að treysta þessari ríkisstjórn? Ég held að nauðsynlegt væri, ef menn eru yfirleitt á því, að taka hina gráu bók og lesa hana. Ég held að það sé ekkert að ástæðulausu sem menn treysta ekki hæstv. ríkisstjórn.

Nei, ég held að það sé það minnsta að þegar um slíkt er að ræða komi það hér fyrir Alþingi, það sé rétt, það sé athugað. Stundum getur verið full ástæða til þess, e.t.v., að verða við þessu þó að ég vilji samt sem áður hafa fyrirvara á því.

Ég skal ekkert fullyrða um það, en ég man ekki til þess að þessi orð hafi nokkurn tíma staðið í lagagrein: Enda standi sérstaklega á. Það kann að vera. Ég sé að hæstv. iðnrh. hristir höfuðið. Það væri gaman að því að hann fyndi þá lagagrein og kæmi með hana þar sem þetta stendur, standi sérstaklega á, án annarrar skilgreiningar. (Iðnrh.: Hv. þm. getur lesið þessa stuttu grg., það kemur fram í henni. Hún er í fimm eða sex línum.) Ég hef lesið, hæstv. iðnrh., þessa grg. Hún er ekki lengi lesin og það skýrir ekkert þetta mál. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra les út úr þessu, en það tryggir ekkert og skýrir ekkert. Það er bara mat ráðherrans hvort standi sérstaklega á eða ekki. Það er kannski eins og í nál. þar sem er talað um að fyrirtæki hafi haft í hótunum sem hv. þm. Albert Guðmundsson las upp áðan. Auðvitað stendur sérstaklega á ef einhver aðili hefur í hótunum. Það má sjálfsagt túlka það þannig. Hvernig ætlar ráðherrann að bregðast við því? Og það þarf auðvitað ekkert svar við því því að ég geri ráð fyrir að þessi stjórn verði ekki það langlíf að oft komi til hans atbeina að gefa slíka úrskurði. Í nál. meiri hl. Ed. stendur, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að frv. þetta er flutt áður en heildarendurskoðuninni er lokið er sú að á síðustu mánuðum hafa leitað til iðnrn. nokkur innlend fyrirtæki sem hyggja á samstarf við erlend fyrirtæki um iðnrekstur hér á landi þar sem sammæli er um að erlendu aðilarnir eigi jafnan hlut eða meiri hluta.“

Sammæli hverra? Ríkisstjórnarinnar? Ég held a.m.k. að komið hafi fram að það er ekki sammæli Alþingis. Það liggur á hreinu. Og í sjálfu sér er þetta nál. nokkuð merkilegt. En ég ætla ekki að fara mikið út í það. Hér stendur að vísu nokkuð sem ég ætla aðeins að drepa á, með leyfi forseta:

„Heimildarákvæði þetta nær fyrst og fremst til smærri eða meðalstórra fyrirtækja.“

Hver er mælikvarðinn? Er það mælikvarði á heimsvísu eða hver er mælikvarðinn? Er ekki hugsanlegt að hægt sé að segja að hvaða fyrirtæki sem væri sem ætlaði að hefja rekstur í þessu dvergríki falli undir þetta?

Ég held hins vegar að á svona frv. megi hv. þm. vara sig. Það gæti komið þeim í koll. Það þarf enginn að halda að það hafi verið að ástæðulausu sem þetta var fellt úr lögum 1978. Það var engin tilviljun. Miðað við þá frjálshyggjuhugsun sem veður uppi í þjóðfélaginu er ekki síður ástæða nú til að gjalda varhug við svona heimildum. Ég er raunar hissa á hæstv. iðnrh. að hann skuli bara vilja fá þetta vald og verða að liggja undir þrýstingi ýmissa manna um það að nota það í vissum tilvikum. Það er ekkert spaug. Í hans sporum hefði ég ekki flutt þetta frv. af þeirri ástæðu, hvað þá af ýmsum öðrum sem ég hef raunar komið inn á.

Ég ætla bara að endurtaka það að ég held að menn verði að gera vel upp sinn hug í sambandi við svona mál. Frv. er ekki stórt, en það sem í því felst getur orðið afdrifaríkt.