23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4763 í B-deild Alþingistíðinda. (3278)

60. mál, iðnaðarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þarf að eiga örlítinn orðastað við hv. 5. þm. Reykv. ef forseti mundi gera gangskör að því að óska eftir því að hann gengi í salinn.

Það kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv. að hann hefði hlustað nokkuð grannt á það sem ég sagði hér í ræðustól. Það verður varla skilið á annan veg en þann að ég hafi alls ekki útskýrt nægilega vel það sem ég vildi sagt hafa og verð ég því að bæta við nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi skildi hann orð mín á þann veg að ég væri að bera upp vantraust á hæstv. núv. iðnrh. Ég hygg að ef svo færu leikar að hér yrði borið upp vantraust í þinginu á hæstv. núv. ríkisstjórn væru meiri líkur á því að ég greiddi atkvæði með því að verja stjórnina falli en hann með vantraustinu á ráðherrana alla. (AG: Ég mundi líklega flytja það.) Og líklega flytja það, segir hann nú, þannig að eitthvað hefur nú traustið hrunið á stuttum tíma.

Annars vegar var það sem kom fram í hans máli að hann vakti athygli á því að það væru ýmsir fyrirvarar sem hann vildi gjarnan að væru virtir og viðhafðir þegar erlendir aðilar fengju meiri hluta í íslenskum fyrirtækjum. Getur hann álasað nokkrum manni hér í þinginu fyrir það að hafa sömu skoðun, að vilja einnig hafa aðstöðu til að hafa vissa fyrirvara hverju sinni á slíkum málum? Er það ekki rökrétt að það séu fleiri sem hafi þá skoðun að þeir telji að þar eigi að vera ýmsir fyrirvarar? Hann nefndi fyrirvarann um gagnkvæmni.

Ég vakti aftur á móti athygli á því og dreg það ekki til baka að mér þótti það nokkuð djarft teflt að halda því fram að það hefði verið einhver misskilningur hjá hæstv. fyrrv. iðnrh. á sínum tíma, eða mistök, að bera frv. fram á þann veg sem hann gerði þá. Ég fellst ekki á þá söguskýringu.

Þá verð ég einnig að víkja að hinum þættinum sem snýr að dótturfyrirtækjum. Einnig virtist sem það hefði algjörlega verið misskilið. Ég var ekki að gera lítið úr dótturfyrirtækjum eða telja þau ómerkilegri en önnur fyrirtæki. Ég var að undirstrika tvennt: Í fyrsta lagi að vel rekið fyrirtæki sem byrjar smátt getur orðið stórt. Í annan stað að samkvæmt íslenskum lögum getur það fyrirtæki jafnframt stofnað dótturfyrirtæki sem starfa í hvaða grein sem er hér innan lands. Ég ætla að nefna dæmi um fyrirtæki sem byrjaði smátt en varð stórt og hefur stofnað dótturfyrirtæki eða á í dótturfyrirtækjum sem starfa hér innan lands á mjög mörgum sviðum. Við skulum bara taka Eimskipafélag Íslands. Þetta fyrirtæki byrjaði ekki stórt, en það er stórveldi í dag. Það hefur verið vel rekið. Það á stóran hlut í Flugleiðum. Það átti ef ég man rétt um 40% í Flugfélagi Íslands. Það fyrirtæki á svo aftur á móti hótel. Þar með er það komið inn í þjónustu. Eimskipafélag Íslands á einnig beina aðild að iðnfyrirtækjum í þessu landi. Hvar eru ákvæðin í þessu lagafrv. sem ganga út á að tryggja að svona fyrirtæki verði aldrei stórt ef það verður stofnað innan lands með erlendri aðild? Hvar eru þau? Það eru engin slík fyrirmæli, enda hlægileg vitleysa að láta sér detta það í hug að hægt væri að setja þau.

Og ég ætla að segja meira þó að ég hafi ekki setið á þeirri vísindaráðstefnu um orkumál þar sem fram kom m. a. hvílíkur auður er til hér á landi. Ég ætla að halda því fram sem staðreynd að í dag sé verið að stofnsetja í þessu landi lítil iðnaðarfyrirtæki sem eiga eftir að verða mjög stór sem betur fer. En ástandið í þessu þjóðfélagi í dag er slíkt að hér er fjármagnssvelti. Hér er algjört fjármagnssvelti. Hvað haldið þið að það ýti ekki á marga aðila að leita út fyrir landsteinana eftir samstarfsaðilum til þess að koma fjármagni inn í fyrirtæki og byggja þau þannig upp? Ég held að nær væri að byrja á `því að koma fjármálamarkaði þessa lands í eðlilegt ástand. Ég held að það væri það fyrsta sem þyrfti að gera.

Ég undirstrika það að ég hef ekki talað gegn einu einasta frv. frá hæstv. iðnrh. þar sem hann leggur til að ákveðið fyrirtæki fái erlendan samstarfsaðila. En hvers vegna er ekki hægt að flytja lagafrv. um þetta efni og leggja þau fyrir þingið? Hvað er það sem veldur? Er þá kannski rétt að gagnálykta? Er það vantraust hæstv. iðnrh. á Alþingi Íslendinga? Telur hann að þingið sé ekki fært um að fjalla um slíka hluti? Er það niðurstaðan og ástæðan fyrir því að það er ekki gert?

Nei, ég vara við því að menn reyni á nokkurn hátt að snúa út úr því sem hér er sagt eða ætla mönnum einhverjar annarlegar hvatir. Ég hef ekki borið það á þá menn sem sitja í ráðherrastólum að þeir virði aðra hagsmuni meir en íslenska. Ég hef ekki borið það á þá. Ég undirstrika það hins vegar að ég tel að smáþjóð þurfi að gæta sín mun meir í þessum efnum en stórveldin. Og það er athyglisvert að fyrrv. nýlenda, Bandaríkin, hefur svo ströng lög í þessum efnum að hv. 5. þm. Reykv. telur þau algjörlega óaðgengileg. Það kom fram í hans máli áðan. Ef þetta stórveldi telur að slíkrar aðgæslu sé þörf, hvað þá með okkur?

Við skulum ræða þessi mál efnislega og við skulum ekki ætla hver öðrum aðrar skoðanir en menn hafa. Ég tel mig nú hafa talað það skýrt að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að menn hafi misskilið það sem ég var með sem aðalatriði míns máls.