23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4768 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

60. mál, iðnaðarlög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er auðvitað ljóst af þessum umræðum að hæstv. iðnrh. er í miklum mótbyr með þetta stjfrv. sitt, jafnvel lentur hér í hávaðasömum deilum við frænda sinn og vin, formann þingflokks Framsfl., en báðir munu þeir vera afkomendur fornfrægra Vatnsdælinga. (Gripið fram í: Orrastaðakyn.) Af Orrastaðakyni, já. Ég ætla nú ekki að blanda mér frekar í ætterni þeirra félaga en ég gat ekki látið hjá líða að vekja athygli á ótrúlegri fullyrðingu, ótrúlegu sjónarmiði sem fram kom hjá hæstv. ráðherra hér áðan þegar hann hélt því fram að það væri nánast enginn munur á því hvort fyrirtæki hefði fengið að láni fé erlendis frá eða hvort því væri stjórnað erlendis frá og hvort eigendur þess væru erlendir menn. En þessu hélt hæstv. ráðherra blákalt fram hérna áðan og spurði menn að því hvort þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að mörg fyrirtæki yrðu að byggja á erlendum lánum og væru þar með háð skilyrðum erlendra aðila, gaf jafnvel í skyn að það væri hálfu verra heldur en hitt að fyrirtæki kynnu að vera í eigu þeirra. Auðvitað þarf ekki að svara svona ótrúlega einföldum málflutningi mörgum orðum.

Það kemur einstöku sinnum fyrir að maður heyrir svona fráleitar athugasemdir en þá er það vegna þess að menn þekkja ekki ýkja mikið til og átta sig ekki á því að sá sem þiggur lán sætir fyrir fram ákveðnum skilyrðum sem hann samþykkir þegar lánið er tekið. Hann veit að hverju hann gengur. Þessum skilyrðum verður ekki breytt eftir að lánið hefur verið undirskrifað. Þar hefur verið gerður samningur sem stendur síðan meðan sá samningur lifir. En fyrirtæki, sem er eign manna, er ekki aðeins háð þeim skilyrðum sem sett eru þegar hlutafé er keypt og eignin verður til heldur er það síðan áframhaldandi undir stjórn þeirra manna sem eiga hlutaféð. Á þessu tvennu er augljóslega reginmunur - satt að segja svo mikill munur að manni finnst maður verða hálfbarnalegur að þurfa að benda á þetta, en það er gert hér fyrst og fremst vegna þess að það var enginn annar en hæstv. iðnrh. sem leyfði sér að bjóða hv. alþm. upp á svo einfeldnislegan málflutning.

Nei, auðvitað fer það ekkert á milli mála að með frv. hæstv. ráðherra er verið að breyta verulega stefnunni frá því sem verið hefur og í frv. er fólgið örlagaríkt valdaafsal. Menn geta borið góðan hug til manna, rétt eins og hv. þm. Albert Guðmundsson er vanur að gera. Hann treystir mörgum og hann getur lýst því hér yfir að hann treysti á dómgreind núverandi iðnrh. og þeirra sem sitja í hans sæti hér eftir, en ég tel mig ekki vera neitt verri mann þótt ég geti ekki tekið undir þessi orð.

Ég verð að segja það alveg eins og er, og taka þá undir með ýmsum öðrum sem hér hafa talað, að menn eru misjafnir, misjafnlega trausts verðir. Ég mun ekki ráða því hverjir sitja í sæti iðnrh. á komandi árum og ég get ekki átt það undir vali kannski allt annars þingmeirihluta en ég styð hverjir setjast í það sæti og hvaða ákvarðanir eru þá teknar af þeim sem í því sæti situr. Þetta vona ég að hv. þm. Albert Guðmundsson skilji fullkomlega þó að viðhorf okkar skilji að þessu leyti.

Ég vil enn fremur ítreka það sem hér hefur margoft komið fram að auðvitað er það fyrir neðan virðingu hæstv. ráðherra að reyna að telja fólki trú um það hér að lagabreytingin árið 1978 hafi verið gerð fyrir mistök eða misskilning og það sé núna 10 árum seinna sem menn séu að uppgötva þetta og benda á að þarna hafi verið misskilningur á ferðinni.

Ég hygg að hv. þm. Albert Guðmundsson hafi á sínum tíma líka viljað breyta þessu þegar hann var iðnrh., en ég minnist þess ekki að hann hafi haldið því fram að ákvæðið væri komið inn í löggjöf fyrir misskilning.

Og ég segi bara eitt hér að lokum: Hæstv. ráðherra hefur sagt okkur frá því að ætlunin sé að endurskoða þessi mál, virða þau öll í víðara samhengi síðar á þessu ári og hvað er þá sjálfsagðara en að fresta ákvörðun um þetta átaka- og ágreiningsmál þangað til sú endurskoðun á sér stað?