23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4770 í B-deild Alþingistíðinda. (3281)

60. mál, iðnaðarlög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er nú tóm vitleysa hjá frænda mínum og vini, hæstv. iðnrh., að ég hafi kallað hann framhleypinn. Það dytti mér aldrei í hug að gera. Mér dytti kannski í hug að hæstv. ráðherra væri fljótfær, en að þessi hógværi og hlédrægi maður væri framhleypinn, það dytti mér aldrei í hug að segja. (RA: Það tíðkast ekki í ykkar ætt.) Nei, við erum ekki svoleiðis frændurnir. Frændi minn og vinur, hæstv. iðnrh., má heldur ekki taka það sem eitthvert vantraust á sig og það má hv. þm. og hæstv. fyrrv. iðnrh. Albert Guðmundsson ekki heldur gera þó að ég hafi lagst gegn því að iðnrh. fengi þessar heimildir.

Albert Guðmundsson, hæstv. fyrrv. iðnrh., óskaði eftir því að fá að flytja svona stjfrv. á sinni tíð, fá þessar heimildir. Því var hafnað af flokki mínum og átti ég m.a. þátt í því., Það var ekkert vantraust á hann sem ráðherra. Ég vil bara ekki skrifa á óútfyllta víxla. Ég vil vita hvað þarna hangir á spýtunni og til hvers þetta muni leiða. Ég vil fá að meta það í hverju tilfelli hvort mér sýnist skynsamlegt að hleypa útlendingum að með meirihlutaaðild. Til þess er Alþingi að setja lög og það er ekkert ofverkið okkar að fara ofan í svona mál. Við getum alveg eins gert það eins og ráðherra eða starfsmenn hans.

Ég met þessa hæstv. ráðherra, fyrrv. iðnrh. Albert Guðmundsson og núv. iðnrh. Friðrik Sophusson, báða mjög mikils sem ráðherra og menn og þeir mega ekki taka það sem eitthvert vantraust á sig þó é,g vilji ekki skrifa á þessa víxla fyrir þá.

Hæstv. iðnrh. vitnaði til hæstv. sjútvrh., sem líka er vitur maður, og las úr ræðu hans í Ed. Ég met vitsmuni Halldórs Ásgrímssonar afar mikils, eins og menn sjálfsagt vita, eins og ég met vitsmuni hv. 2. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar ekki síður. Það er ekkert vantraust á hæstv. sjútvrh. þó að ég fullyrði að ég kæmi ekki til með að standa að lagasetningu ef hæstv. sjútvrh. óskaði eftir heimildum til að fá að veita útlendingum aðgang að íslenskum fiskiðnaði svo að ég taki dæmi og það ætti ekki að skoða það sem vantraust á ráðherrann.

Hér hafa menn deilt um hvort afglöp hafi orðið við lagasetninguna 1978 og þetta ákvæði hafi fallið niður. Þetta ákvæði var ekki í því frv. eins og það var lagt fyrir Alþingi og þess vegna var frv. samþykkt si svona. Ef það hefði verið í frv. hefði ég a.m.k. ekki staðið að samþykkt þess.