23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4789 í B-deild Alþingistíðinda. (3289)

293. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa undrun minni á minnisleysi forseta og ég verð því miður að aumkva hann fyrir það minnisleysi. Mér þykir hart að þurfa að búa við það að menn muni ekki hvað þeir segja frá morgni til kvölds. Það er alvarlegt mál. Ég ber það ekki á forseta að hann hafi látið undan þrýstingi og látið hræða sig til að halda áfram fundi, en það er ákaflega erfitt ef þm. geta ekki tekið mark á forsetum um hvenær þeir segjast ætla að ljúka fundum í þinginu. Það þýðir nánast að menn geta aldrei treyst einu né neinu um það hvenær hér sé vinnuskylda og hvenær ekki. Ég ætla ekki að eiga orð frekar við hæstv. forseta um þetta. Mér þykir það miður og þetta mun verða til þess að ég fyrir mitt leyti mun ekki treysta mér til að kjósa hann til forsetadóms oftar. En ég er reiðubúinn að tala hér.