24.02.1988
Efri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4793 í B-deild Alþingistíðinda. (3300)

69. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. menntmn. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. deildar hefur á nokkrum fundum fjallað um frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, nr. 68 frá 1985, 69. mál.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins og meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Sú tillaga er gerð á þeim forsendum að yfir stendur endurskoðun útvarpslaga og það er eðlilegt að bíða með breytingar á lögunum þar til þeirri endurskoðun lýkur.

Mál þetta var sent til umsagnar m.a. til Sambands ísl. sveitarfélaga, til útvarpsréttarnefndar, til nefndar er vinnur að endurskoðun útvarpslaga á vegum menntmrh., til Póst- og símamálastofnunar og til Ríkisútvarpsins.

Um umsagnirnar er það að segja að Samband ísl. sveitarfélaga leggur til að frv. verði samþykkt, án þess að nokkuð sé í umsögninni fjallað um málið efnislega, en niðurstaða þeirra aðila annarra, sem málið fengu til umsagnar, þeirra sem taka afstöðu, er í skemmstu máli sú að um þetta beri að fjalla samtímis því sem lögin eru endurskoðuð. Nú spyrja menn væntanlega: Hvað líður þeirri endurskoðun? Því er til að svara að í gildandi útvarpslögum er kveðið svo á að þau skuli endurskoða áður en þrjú ár eru liðin frá setningu þeirra og þrjú ár eru liðin frá setningu laganna á miðju þessu ári, þ.e. í júní á þessu ári. Af því dreg ég þá ályktun að hæstv. menntmrh. muni leggja frv. til nýrra útvarpslaga fyrir það þing sem nú situr. Hann hlýtur að gera það samkvæmt efni máls.

Í umsögn útvarpsstjóra, sem ég leyfi mér að vitna hér til, segir, með leyfi forseta:

„Í ákvæði til bráðabirgða í útvarpslögum frá 27. júní 1985 er tekið fram að lögin skuli endurskoða innan þriggja ára frá setningu þeirra. Endurskoðun laganna í heild er hafin og hefur sérstök nefnd skipuð af menntmrh. það verk með höndum.

Undirritaður [þ.e. útvarpsstjóri, Markús Örn Antonsson] telur fjölmörg atriði nýju útvarpslaganna þurfa gagngerrar endurskoðunar við og það væri þar af leiðandi rétt að taka ekki einstaka þætti þess fyrir á þessu stigi eins og það frv. til breytinga sem nú liggur frammi gengur út á.“

Þetta er held ég kjarni málsins alveg burt séð frá því hvaða skoðun menn hafa á þeim efnisatriðum sem tekin eru til meðferðar og ráð er fyrir gert að breyta í frv. hv. þm. Júlíusar Sólnes og Guðmundar Ágústssonar.

Þessi ummæli útvarpsstjóra sem ég vitnaði til staðfesta raunar þá skoðun, sem ég hélt mjög rækilega fram hér í þessari hv. deild vorið 1985 þegar útvarpslög voru til umræðu, að þau væru meingölluð á margan veg. Það hefur komið í ljós við framkvæmd laganna að þau eru það og þess vegna er auðvitað brýnt að þessari endurskoðun verði hraðað og nýtt frv. til útvarpslaga verði lagt fram sem allra fyrst. Það er raunar miður að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu þannig að hann gæti þá kannski skýrt nánar frá því hvað þeirri endurskoðun líður og hvernig þeirri vinnu miðar.

Það er alkunna að sjónvarpsendurvarpshnöttum hefur fjölgað gífurlega og alveg tímabært að endurskoða reglur þar um, en rétt að það gerist þá í samhengi við annað. Sömuleiðis varðandi þau ákvæði sem gilda um útvarp um streng eða kapalkerfi eða boðveitukerfi, sem hefur líka verið kallað, það er ástæða til að skoða þau ákvæði sérstaklega vegna þess að slík kerfi munu koma og nauðsynlegt að um það séu reglur.

Að því er varðar erlent sjónvarp frá gervihnöttum þá gefur það auga leið að það verður æ algengara að almenningur taki á móti slíku efni. Ég hef stundum orðað það svo að fjöldi þessara móttökuhlemma eða loftneta standi yfirleitt í öfugu hlutfalli við íbúatölu, a.m.k. hér á norðurslóðum og þarf ekki annað en líta til Færeyja og Grænlands til að sannfærast um það. Það verður líka þannig að það verður æ auðveldara fyrir almenning að taka beint á móti slíku efni frá gervihnöttum, erlendu efni, eftir því sem svokölluðum DBS-hnöttum fjölgar, þ.e. hnöttum sem eru beinir útvarpshnettir og senda beint til notenda.

Ég átti þess kost í janúar að gera stuttan stans hjá sænska sjónvarpinu. Sjónvarpsstjórinn þar afhenti þeim hóp sem ég var í för með yfirlit yfir þær erlendu stöðvar sem menn gætu nú tekið á móti í Svíþjóð og sem þar er tekið á móti í ýmsum kapalkerfum. Það voru 14 stöðvar. Víða eru möguleikar á enn þá fleiri kostum og þetta er hið fjölbreytilegasta efni. Það eru þekktar stöðvar eins og Sky Channel, Super Channel, hverra framtíð virðist nú raunar nokkuð óráðin. Síðan eru dagskrár frá Frakklandi, Sovétríkjunum, rás með norrænu efni, sérstök kvikmyndarás, sérstök íþróttarás, menningarrás með bresku tali, sérstök rás með barnaefni, sérstök rás með kvikmyndum og sérstök rás með fréttaefni stöðugt. Þetta er bara hluti af því sem á boðstólum er og áreiðanlega mun fara vaxandi og gæta hér eins og annars staðar.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð að sinni nema sérstakt tilefni gefist til, en meiri hl. nefndarinnar, svo sem ég sagði í upphafi míns máls, leggur til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.