24.02.1988
Efri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4795 í B-deild Alþingistíðinda. (3301)

69. mál, útvarpslög

Frsm. minni hl. menntmn. (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir minni hl. menntmn. í þessu máli, 69. máli og nál. er á þskj. 608. Ég vil í upphafi taka undir með hv. 3. þm. Vesturl. að æskilegt hefði verið að hæstv. ráðherra hefði verið hér til þess að fjalla um og gefa hv. deild skýrslu um það hvernig líður því starfi sem nú á sér stað eða þeirri nefnd sem sér um endurskoðun á útvarpslögum.

Þá vil ég líka vegna orða hv. 3. þm. Vesturl. segja að hann, eins og flestir aðrir, sér að það þarf að breyta þessum útvarpslögum gagngert ef við eigum að vera þátttakendur í því starfi sem er nú og er mikið erlendis. Það hafa orðið mjög verulegar breytingar með tilkomu gervihnatta um móttöku á þessu efni. En ég vil lesa upp nál. minni hl. Það er á þessa leið:

„Ný útvarpslög tóku gildi 1. janúar 1986. Var þá í fyrsta sinn heimilaður rekstur frjálsra útvarps- og sjónvarpsstöðva. Áttu lögin að gilda til ársloka 1988 en sæta endurskoðun fyrir þann tíma á grundvelli þeirrar reynslu sem þessi aðlögunartími leiddi í ljós. Nú þegar er komin nokkur reynsla á rekstur frjálsra útvarpsstöðva og á sama tíma hefur orðið mikil framþróun í fjarskiptum og sjónvarpssendingum milli landa. Viss ákvæði í núgildandi lögum, eins og þau voru samþykkt vorið 1985, standa í vegi fyrir því að Íslendingar geti nýtt sér þessa tækni. Er hér átt við þá túlkun á 5. og 6. gr. laganna sem hindrar sveitarfélög og aðra aðila í samstarfi við þau í því að dreifa útvarps- og sjónvarpsmerkjum beint til notenda. Krafa um þýðingu á öllu erlendu sjónvarpsefni með textum eða íslenskum þul, ef um er að ræða fleiri en 36 notendur á sama loftneti, hefur reynst jafngilda því að móttaka og dreifing slíkra sendinga sé bönnuð. Hér er átt við strengkerfi þar sem heilu hverfin eða bæjarfélög nota sama loftnet til móttöku hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrár. Slík kerfi hafa á undanförnum árum rutt sér til rúms í nágrannalöndum okkar. Þau eru boðberar byltingar á sviði fjarskiptatækni og upplýsingamiðlunar.

Þörf manna fyrir aukið sjónvarpsefni, einkum frá erlendum sjónvarpsstöðvum, hefur orðið til þess að flýta fyrir þessari þróun í nágrannalöndunum þar sem dreifing á erlendu sjónvarpsefni til notenda frá sameiginlegu loftneti hefur verið notuð til þess að standa straum af kostnaði vegna lagningar þessara kerfa. Mikill áhugi hefur verið fyrir því, einkum hjá sveitarfélögum, að koma upp slíkum kerfum. Bæði er um að ræða óskir um breytt móttökuskilyrði fyrir sjónvarp og útvarp, sem víða eru slæm hvað varðar íslensku stöðvarnar, og óskir um að skógur sjónvarps- og útvarpsloftneta lýti ekki bæjarmyndina.

Við afgreiðslu á frv. var leitað eftir umsögnum frá eftirtöldum aðilum: Ríkisútvarpinu, útvarpsréttarnefnd, Póst- og símamálastofnun, Sambandi ísl. sveitarfélaga og nefnd sem fæst við endurskoðun gildandi útvarpslaga. Eru umsagnirnar yfirleitt jákvæðar og beinlínis lagt til að samþykkja beri frv. ef undan er skilin umsögn útvarpsréttarnefndar. Af hálfu Ríkisútvarpsins var bent á aukið samstarf Evrópulandanna á sviði sjónvarpsmála. Er þar vikið að fyrirhuguðum sáttmála Vestur-Evrópuríkja um sjónvarpssendingar milli landa um gervihnetti. Í inngangsorðum hans er gert ráð fyrir að aðilar sáttmálans skuldbindi sig til þess að virða frelsi til þess að taka á móti og endurvarpa sjónvarpssendingum um gervihnetti á yfirráðasvæðum sínum. Er þar gengið út frá þeirri forsendu að Vestur-Evrópubúum verði almennt tryggð skilyrði til þess að taka á móti algerlega óheftum sendingum um gervihnetti frá ýmsum upprunalöndum og málsvæðum. Þýðingarskyldan, sem núgildandi lög mæla fyrir um, er hindrun sem er andstæð þeirri meginhugsun sem byggt er á í sáttmálanum. Það er álit minni hl. að nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana til þess að styrkja íslenska tungu og koma í veg fyrir frekari hrörnun hennar. Það verður hins vegar ekki gert með því að banna erlendar sjónvarpssendingar heldur með því að grípa til harkalegra aðgerða í skólakerfinu. Þar liggur hundurinn grafinn.

Það er álit minni hl. að fráleitt sé að hindra þá tækniþróun, sem hér er verið að fjalla um, eða tefja hana með því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Minni hl. telur að Alþingi verði að taka afstöðu í þessu máli þannig að sú nefnd sem vinnur að endurskoðun útvarpslaganna fái að vita hver vilji löggjafans er í þessu mikilvæga málefni.

Með hliðsjón af framanrituðu leggur minni hl. til að málið fái efnislega afgreiðslu og frv. verði samþykkt.“

Minni hl. er því ekki sammála því sem fram kemur hjá meiri hl. menntmn. að það beri að vísa þessu frv., 69. máli, til ríkisstjórnarinnar. Minni hl. telur að það sé Alþingis að ákveða áður en endanleg niðurstaða fæst í þessari endurskoðunarnefnd hvort afnema eigi þýðingarskylduna eða ekki svo að þessi nefnd geti miðað störf sín út frá ákveðnum forsendum.

Ég vona að mál þetta fái hér líflega umræðu og að hin háa efri deild, Ed., sjái sér fært að taka efnislega afstöðu til þessa mikilvæga máls.