24.02.1988
Efri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4796 í B-deild Alþingistíðinda. (3302)

69. mál, útvarpslög

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég vil byrja með því að lýsa yfir furðu minni á því að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera hér og sýna okkur þm. í hv. Ed. þá virðingu að vera til staðar þegar verið er að fjalla um svo mikilvægt mál sem útvarpslögin eru og væntanlega endurskoðun þeirra. Ég hefði viljað spyrja hann ýmissa spurninga, t.d. hvernig liður þeirri endurskoðun sem vísað er til í áliti menntmn., bæði meiri hl. og minni hl. Eins tel ég alveg nauðsynlegt að fá úr því skorið hver er afstaða ríkisstjórnarinnar og hver er afstaða hæstv. menntmrh. til þeirra efnisatriða sem við höfum fjallað um í frv. okkar. Ég get ómögulega fallist á það að það eigi að vera hlutverk þriggja manna nefndar að taka afstöðu í því máli fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur ríkisstjórnin sjálf að þurfa að gera og hér var einmitt tækifærið til að fá þessa afstöðu hennar fram. Varðandi það að þar sem þessi endurskoðun útvarpslaga sé nú í gangi og henni skuli lokið fyrir árslok, ég geri ráð fyrir því að svo verði þar sem ég get ekki spurt hæstv. ráðherra að því hvernig þetta verk gangi.

Ég vil minna á það að hér var fyrir skömmu til umfjöllunar í hv. Ed. breyting á iðnaðarlögum. Þar kom glögglega fram að fyrirhuguð er heildarendurskoðun á iðnaðarlögum, en mönnum þótti engu að síður sjálfsagt að taka og afgreiða þessa brtt. og fjalla um hana efnislega. Þá komu engin mótmæli gegn því að það ætti ekki að afgreiða frv. á þeim forsendum að heildarendurskoðun iðnaðarlaga væri í gangi. Þá var öldin eitthvað önnur.

Það er mjög fróðlegt að lesa umsagnir þeirra aðila sem voru beðnir um að láta álit sitt í ljósi á þeim tillögum sem koma fram í frv. okkar flm. Sérstaklega las ég með mikilli athygli mjög ítarlega umsögn útvarpsstjóra sem fjallar á mjög málefnalegan hátt um þróun sjónvarpssendinga milli landa um gervihnetti og við hverju búast má. Mig langar til, með leyfi hæstv. forseta, að grípa niður í umsögn útvarpsstjóra á nokkrum stöðum, en hann segir m.a. svo:

„Undirritaður vann ásamt útvarpsstjórum ríkisútvarpsstöðva annarra Norðurlanda að tillögugerð um dagskrárgerð og dagskrármiðlun um Tele-x-hnött samkvæmt beiðni norrænu ráðherranefndarinnar og að höfðu samráði við fulltrúa menntmrn. Athugun á sérstakri móttöku norsks sjónvarpsefnis var þá frestað. Ljóst var að íslenskur almenningur mundi ekki hafa aðgang að Tele-x með beinni móttöku frá gervitungli líkt og fólk á hinum Norðurlöndunum. Því var helst gert ráð fyrir því að Tele-x-efni yrði í framtíðinni dreift um kapalkerfi til íslenskra notenda frá einni móttökustöð, en þar til kapalkerfi hefðu verið lögð að einhverju marki mundi sjónvarpið leitast við að flytja hið norræna Tele-x-efni að nokkru leyti í beinu endurvarpi frá gervihnettinum, en þó aðallega með sýningu efnis af myndböndum sem hingað bærust flugleiðis og tekin væru til útsendingar utan hins reglulega dagskrártíma sjónvarpsins. Ítrekað skal að umrætt fyrirkomulag var hugsað til bráðabirgða, en álitið að framtíðarskipan fælist í dreifingu um kapalkerfið.

Varðandi þýðingu á íslensku á hinu norræna gervihnattaefni skal tekið fram að aldrei hefur verið gert ráð fyrir öðru en það bærist íslenskum áheyrendum með upprunalegu tali án þýðingar að því undanskildu að í Tele-x-umræðunum var jafnan gengið út frá því að finnskir þættir yrðu þýddir á sænsku eða norsku til notkunar hér á landi. Af hálfu Ríkisútvarpsins hefur því verið litið á það sem eðlilega framvindu í fjarskiptatækni og dreifingarmálum sjónvarps að kapalkerfi ryddu sér hér til rúms til að greiða fyrir margvíslegum boðskiptum með hagkvæmum hætti, þar með taldar sýningar á sameiginlegu norrænu efni og vestur-evrópsku, sbr. bréf frá menntmrh. frá því í janúar 1985.

Svo sem bent hefur verið á er útbreiðsla kapalkerfa fyrir sjónvarp orðin mjög umtalsverð í mörgum nágrannalöndum okkar og fjölbreytni dagskrár í framboði um gervihnetti sem kapalkerfum stendur til boða fer vaxandi. Sérstök sjónvarpsfyrirtæki einbeita sér að útsendingu efnis um gervihnetti til kapalkerfa eða beinnar móttöku og byggja afkomu sína á alþjóðlegum auglýsingum. Franskar og þýskar sjónvarpsstöðvar hafa tekið höndum saman um rekstur gervihnattarása og þjóna málsvæðum sínum með sameiginlegum dagskrám er teljast mega af menningarlegum toga. Fer það efni einnig um kapalkerfi vítt og breitt um Vestur-Evrópu.“ - Það má í þessu sambandi geta þess að það er orðið mjög algengt að vestur-evrópskir háskólar taki við slíku sjónvarpsefni. Sérstaklega hefur franska sjónvarpsrásin TV-5 orðið mjög vinsæl og eru þessar sjónvarpssendingar notaðar í sambandi við kennslu og nám í frönsku sem fer fram í háskólum víða í Vestur-Evrópu.

„Þá hafa ýmsar af hinum stóru sjónvarpsstöðvum eins og BBC í Bretlandi áform uppi um að senda dagskrár sínar í heild um gervihnetti þannig að fólk utan viðkomandi þjóðlanda geti haft aðgang að þeim í kapalkerfum.“ - Hér vil ég aftur skjóta því að að einmitt nýlega er farið að dreifa dagskrá BBC-sjónvarpsstöðvarinnar um kapalkerfi í Kaupmannahöfn sem hefur orðið þess valdandi að eftirsókn eftir tengingu við kapalkerfi, sem verið er að leggja í Kaupmannahöfn á vegum dönsku póst- og símamálastofnunarinnar, er mjög mikil. - „Þá má rifja upp að samkvæmt samningi Televerket í Noregi við sænska sjónvarpið er dagskrá þess send um gervitungl til kapalkerfa í Noregi.“

Ég gríp á öðrum stað niður í umsögn útvarpsstjóra, þar segir: „Evrópubandalag útvarps- og sjónvarpsstöðva EBU, sem Ríkisútvarpið er aðili að, hefur unnið að gerð áætlana um sameiginlega tónlistardagskrá um gervihnött. Enn fremur hefur bandalagið nú nýlega ákveðið að hefja rekstur á sérstakri sjónvarpsrás um gervihnött þar sem einungis verða sýndar fréttir og dagskrár frá íþróttaviðburðum. Fyrst í stað er áformað að dreifa þessu efni til notenda um kapalkerfi í Evrópu. Af því sem hér að framan er ritað má glöggt ráða að hvarvetna, þar sem fulltrúar Ríkisútvarpsins eru beinir aðilar að fjölþjóðlegu samstarfi eða fylgjast með á útvarps- og sjónvarpssviði og framvindu þess málaflokks, snýst umræðan mjög um framtíð gervihnattasendinga í Evrópu. Þá er jafnan gengið út frá þeirri forsendu að Evrópubúum verði almennt tryggð skilyrði til að taka á móti algjörlega óheftum sendingum um gervihnetti frá ýmsum upprunalöndum og málsvæðum og að fyrst um sinn a.m.k. fari miðlunin fram um kapalkerfi byggðasvæða í viðkomandi löndum.

Undanfarið hefur fjölmiðlunarnefnd Evrópuráðsins unnið að drögum að sáttmála Vestur-Evrópuríkja um sjónvarpssendingar milli landa um gervihnetti. Í inngangsorðum hans er gert ráð fyrir að aðilar sáttmalans skuldbindi sig til að tryggja tjáningarfrelsi og miðlun upplýsinga í samræmi við 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og skulu þeir virða frelsi til að taka á móti og endurvarpa á yfirráðasvæði sínu sjónvarpssendingum um gervihnetti sem fara fram í samræmi við ákvæði sáttmálans. Af þessum drögum og viðbrögðum ríkja Vestur-Evrópulanda við þeirri þróun sem þegar er orðin og fyrirsjáanleg er á þessu sviði kemur skýrt fram að móttaka erlends sjónvarpsefnis með eigin búnaði einkaaðila eða sameiginlegum móttökustöðvum sem tengjast kapalkerfum er staðreynd. Og í stað þess að amast við óheftu framboði dagskrárefnis á erlendum tungumálum er áhersla lögð á hinn þáttinn sem lýtur að fjölbreytileika evrópskrar menningar og þeim tækifærum sem sjónvarpstækni og gervihnettirnir veita til eflingar samskiptum Evrópuþjóða.

Að endingu skal vikið nokkuð að þeim þætti málsins sem snýr að ávinningi Ríkisútvarpsins sjálfs, að einföldun gervihnattatækninnar í því skyni að taka á móti fréttum og öðru dagskrárefni til notkunar í útsendri dagskrá sjónvarpsins.“

Ég held að það fari ekkert á milli mála að hér talar sá sem hefur kynnt sér þetta mál vel og veit hvað hann er að segja. Í þeim ummælum sem þarna koma fram er alveg ljóst að þetta er orðið staðreynd og það að ætla að tregðast við því að taka á móti erlendum sjónvarpssendingum og miðla þeim til almennings á Íslandi á sem einfaldastan, ódýrastan og hagkvæmastan hátt, er þröngsýni og tímaskekkja sem minnir einna helst á afstöðu nokkurra bænda hér fyrst á öldinni sem komu til Reykjavíkur til að mótmæla því að sími yrði lagður um landið - sem væntanlega stafaði af vanþekkingu og kannski af hræðslu við það nýja.

Ef gripið er niður í fleiri umsagnir þá er athyglisverð umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á stjórnarfundi Sambands ísl. sveitarfélaga 18. þ.m. var lagt fram bréf menntmn. Ed. Alþingis, dags. 2. þ.m., þar sem leitað er umsagnar Sambandsins um frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, þskj. 72, 69. mál. Í frv. er m.a. ákvæði um að leyfi til útvarps um streng verði háð samþykki sveitarstjórnar. Stjórnin mælti með samþykkt frv. þessa. Þetta tilkynnist hv. þingdeildarnefnd hér með.“

Það er ekkert launungarmál að mörg sveitarfélög hafa óskað eftir að fá að stuðla að því að sjónvarpsdreifikerfi með kapli verði lagt um lönd þeirra. Víða eru móttökuskilyrði mjög slæm fyrir sendingar íslensku sjónvarpsstöðvanna og því æskilegt að bæta móttökuskilyrði fyrir sendingar þeirra með ýmsum ráðum. Þetta er á hagkvæmastan og einfaldastan hátt gert með því að leggja strengkerfi, þar sem sett er upp eitt loftnet fyrir heilu bæjarhverfin og/eða heilu bæjarfélögin og síðan er sjónvarpsmerkjunum dreift til allra notenda sem tengjast við slíkt kapalkerfi þannig að allir fái eins gott merki inn á sjónvarpsskjá sinn og framast er unnt. Því miður kostar lagning slíkra kerfa allmikla fjármuni. Er áætlað að kostnaður við að leggja slíkt kapalkerfi í sæmilega þéttbýlu sveitarfélagi geti numið eitthvað u.þ.b. 20–30 þús. kr. fyrir hvern notanda í einbýlishúsi, eitthvað ódýrara fyrir notanda sem byggi í íbúð í fjölbýlishúsi. Þetta mun vera hliðstætt, a.m.k. hvað varðar notandann í íbúð í fjölbýlishúsi, við þann kostnað sem er því samfara að kaupa lykil að Stöð 2.

Nú skal ég ekki fara að bera saman sjónvarpsdagskrá Stöðvar 2 og sjónvarpsdagskrár hinna ýmsu evrópsku sjónvarpsstöðva sem við eigum kost á að sjá hér í gegnum gervitunglasendingar, en mér segir svo hugur um að margt það efni sem við eigum völ á í gegnum sjónvarpsgervitungl, sem við höfum aðgang að, sé öllu menningarlegra en það sem boðið er upp á á Stöð 2 og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.

Í umsögn útvarpsréttarnefndar er sagt m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Útvarpsréttarnefnd telur rétt að fylgjast náið með þróun á sviði fjölmiðlatækni og telur að taka verði fullt tillit til þeirrar þróunar við yfirstandandi endurskoðun útvarpslaga. Í gildandi útvarpslögum er það viðhorf ríkjandi að leggja beri áherslu á að erlendu sjónvarpsefni fylgi íslenskur texti. Það er í sjálfu sér sjálfstætt úrlausnarefni en útvarpsréttarnefnd bendir á þessi ákvæði útvarpslaganna í þessu sambandi.

Frv. það sem hér er til umfjöllunar hefur þá breytingu í för með sér að ekki er lengur áskilin íslensk þýðing á því sjónvarpsefni sem móttekið er hér á landi og dreift hefur verið um gervihnetti. Að þessu leyti mundi frv. þetta, ef það verður að lögum, mismuna innlendum sjónvarpsstöðvum sem eftir sem áður yrðu skyldugar til þess að þýða erlent dagskrárefni að átvarpslögum óbreyttum.“

Hér vil ég aðeins staldra við og spyrja hvort útvarpsréttarnefnd hafi skilið hvað felst í því að taka við erlendum sjónvarpssendingum og dreifa þeim um kapalkerfi til notenda viðstöðulaust án nokkurrar dagskrárgerðar. Í mínum huga er íslensk útvarpsstöð, sem sendir út efni, sendir út dagskrá sem er unnin af hálfu útvarpsstöðvarinnar, allt annað og á ekkert sameiginlegt við það að hlustandi á Íslandi stillir inn á erlenda útvarpsstöð og hlustar á dagskrár hennar. Þetta tvennt er gjörsamlega óskylt. Alveg það sama er um að ræða ef sjónvarpsáhorfandi á Íslandi með eigin loftnetsbúnaði eða tengdur við kapalkerfi stillir inn á erlenda sjónvarpsstöð og horfir á dagskrá hennar, það á ekkert skylt við að það séu íslenskar sjónvarpsstöðvar sem sendi út sérstakar dagskrár. Þetta er ekki sambærilegt og þess vegna er það að mínum dómi alveg út í hött að tala um að það sé verið að mismuna innlendum og erlendum sjónvarpsstöðvum með þessu. Þetta eru algjörlega óskyld atriði. Annars vegar er um að ræða íslenska sjónvarpsstöð sem sendir út unna dagskrá. Í hinu tilvikinu er ekkert um annað að ræða en að sjónvarpsáhorfandi stillir inn á einhverja erlenda sjónvarpsstöð og horfir á bút úr hennar dagskrá. Hér er alls ekki um sama hlutinn að ræða.

Úr því að hæstv. menntmrh. er nú kominn hér hefði ég mjög gjarnan kosið að heyra álit hans á þessum efnisatriðum sem koma fram í frv. okkar, hvort það á áfram að hamla gegn því að við getum notfært okkur þessa tækniþróun sem nú ryður sér mjög hratt til rúms í öllum nágrannalöndunum, hvort á að meina okkur að horfa t.d. á norrænu sjónvarpsstöðvarnar, hvort við megum ekki taka beint við, við skulum segja sendingum danska sjónvarpsins, sænska sjónvarpsins eða norska sjónvarpsins, hvort við megum ekki búast við því að fá leyfi til þess að horfa hér á þýskt, franskt og ítalskt sjónvarpsefni. Því við skulum aðeins átta okkur á einu. Hafi menn áhyggjur af íslenskri tungu — og svo sannarlega tek ég undir með mörgum sem hafa lýst yfir miklum áhyggjum sínum út af því hvernig vart verður við ýmis hrörnunareinkenni í málfari fólks og að íslensk tunga virðist eiga í vök að verjast. Það er svo sannarlega ekki vegna þess að fólk horfi hér á erlendar sjónvarpsstöðvar. Það er eitthvað að í skólakerfinu. Ég þarf ekki annað en rifja það upp þegar börn mín gengu í skóla fyrir nokkrum árum hvernig þeirri íslenskukennslu var háttað, hvaða íslenskunám þau gengu gegnum þar. Það var alveg augljóst að þar kreppir skórinn að.

Þegar ég lærði íslensku bæði í barnaskóla og síðar í menntaskóla fyrir orðið ansi mörgum árum, þá var það gert með þeim hætti að mikill agi var viðhafður í kennslunni. Ég minnist þess mætavel að það var það fag sem enginn þorði að mæta ólesinn í í skólann. Það sem hafði verið sett fyrir til lærdóms í þeim fræðum lásu menn og lærðu. Það var það fag sem enginn þorði að slugsa við. En nú á dögum virðist það ekki skipta nokkru máli hvort börnin læri eitthvað í íslensku eða ekki, a.m.k. er það orðið mjög algengt að háskólastúdentar, sem eru að ljúka embættisprófi í hinum ýmsu faggreinum sem eru kenndar þar, eru ekki ritfærir á íslensku, þannig að það er eitthvað meira en lítið að í skólakerfinu.

Ég hygg að það væri öllu skynsamlegra að taka þá fjármuni sem hugsunin er að verja til þess að þýða erlent sjónvarpsefni og nota þá til þess að styrkja íslenskukennslu í skólum landsins. Það er hugsanlegt að betri árangur næðist með þeim hætti.

Þá langar mig til að segja frá einu skemmtilegu dæmi. Ágætis útvarpstæknimaður, sem ég þekki vel og býr úti á Seltjarnarnesi, hefur verið mjög áhugasamur um móttöku erlends sjónvarpsefnis. Lagði hann í það að kaupa sér loftnetsmóttökubúnað sem hann setti upp á húsi sínu. Hann sagði mér að eftir fimm mánaða reynslu af því að horfa á erlendar sjónvarpsstöðvar hefði hann skráð sig til þýskunáms í Námsflokkum Reykjavíkur því að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að það sem honum fannst áhugaverðast af þeim erlendu sjónvarpsstöðvum eða því erlenda sjónvarpsefni sem var á boðstólum var efni þýsku stöðvanna. Hann sagðist aldrei hafa lært þýsku í skóla, hann hafði ekki farið í langskólanám, en þetta hefði vakið það mikinn áhuga hans að hann hafi nú drifið sig í Námsflokkana til þess að læra þýsku.

Ég held nefnilega að með því að opna fyrir þennan möguleika, að gefa okkur færi á því að horfa á sjónvarpsefni Vestur-Evrópulandanna, gæti það jafnvel orðið til þess að draga verulega úr þeim áhrifum sem ensk tunga veldur nú hér á landi. Ensk tunga er nú orðin jafnmikill ógnvaldur við íslenskuna og danskan var á sínum tíma. Besta leiðin til þess að hamla gegn því er einmitt að hvetja fólk til þess að horfa meira á stöðvar á meginlandi Evrópu, þ.e. þýskar, franskar, ítalskar og ekki síst Norðurlandastöðvarnar. Þannig gæti sú aðgerð að opna fyrir möguleika almennings á því að horfa á erlendar sjónvarpsstöðvar þvert á móti orðið til þess að draga úr þeim máláhrifum sem engilsaxneskan veldur nú í mjög ríkum mæli á Íslandi.

Að lokum langar mig svo aðeins til þess að segja þetta. Það er svo fjarri lagi að bannað sé að taka á móti erlendu sjónvarpsefni hér. Aðilar geta slegið sér saman, 36 eða færri, og gert það án þess að það teljist vera útvarpsstöð, án þess að þeir þurfi þá að texta efnið sem þeir taka á móti og dreifa til þeirra sem gerast notendur í slíku kerfi eða hafa þar íslenskan þul. Að sjálfsögðu geta síðan einstaklingar sett upp sjónvarpsmóttökubúnað og horft á erlendar sjónvarpsstöðvar án þess að þurfa að hafa neinar áhyggjur af þýðingarskyldunni svokölluðu.

Þetta er náttúrlega grófleg mismunun á aðstöðu fólks til þess að nýta sér þann möguleika að horfa á erlendar sjónvarpsstöðvar. Þessi móttökubúnaður er mjög dýr og það er því ekki á færi nema þeirra sem eru sæmilega fjárhagslega stæðir að veita sér það að kaupa loftnetsmóttökubúnað fyrir erlendar sjónvarpsstöðvar. Hann mun kosta svona á bilinu 1000–150 þús. kr. og því er þannig várið að jafnvel þótt fleiri en einn aðili ætli að notfæra sér sama loftnetið, allt að 36 samkvæmt núgildandi lögum, verður kostnaðurinn litlu minni vegna þess að þá þarf að kaupa dýran og flókinn tækjabúnað til þess að breyta sendingunni þannig að hún geti gagnast allt að 36 aðilum samtímis.

Hins vegar er ekki nokkur vafi á því að ef þetta bann verður áfram við lýði mun almenningur að sjálfsögðu taka þetta mál í sínar hendur. Fólk mun í ríkara mæli leggja út í þennan kostnað. Búast má við að þessi tæki verði eitthvað ódýrari á næstu árum þannig að þau verði þá viðráðanlegri og við eigum væntanlega eftir að sjá, eins og er sagt í áliti minni hl., skóg af sjónvarpsloftnetum hér í bæjarmyndinni. Það er einmitt þetta sem sveitarfélögin hafa haft áhyggjur af. Þau vilja nefnilega ná utan um þessa þróun og hamla gegn því að sjónvarpsloftnet, stórir hlemmar, komi upp á næstum því hvert einasta hús hér í bænum sem yrði til stórkostlegra lýta og mundi verða að flokkast undir umhverfisspjöll. En ekki er nokkur vafi á því að svo verður ef löggjafinn ætlar að tregðast við þessu. — Ég veit satt að segja ekki hvaða hugmyndir liggja þarna að baki. Eru þetta hugmyndir til þess að vernda Stöð 2, til þess að gefa henni einokun á þessum markaði meðan hún er að festa rætur? Ég leyfi mér að varpa fram þessari spurningu. Ég sé ekki nokkra skynsemi að baki þessarar reglu að banna mönnum að taka á móti erlendu sjónvarpsefni og dreifa því á sem hagkvæmastan og ódýrastan hátt annan en þann að það séu einhverjir hagsmunir þarna á bak við sem ekki hafa komið fram. Ég mundi mjög vilja heyra álit hæstv. menntmrh. á þessu og gjarnan fá að heyra hvernig gengur með endurskoðun útvarpslaganna og hver er stefna og vilji ríkisstjórnarinnar og þá fyrst og fremst hæstv. menntmrh. í þessu máli.