24.02.1988
Efri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4805 í B-deild Alþingistíðinda. (3305)

69. mál, útvarpslög

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör. Ég mundi kannski vilja bæta aðeins við það sem áður er komið fram að eftir því sem mér skilst, ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kanna það alveg til fullnustu, munu tilraunasendingar danska og norska sjónvarpsins vera hafnar um gervitungl sem hefur verið sett upp á vegum Eutelsat-samtakanna. Þessar sendingar munu nást hér á Íslandi þannig að nú þegar er væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að við getum náð sendingum danska og norska sjónvarpsins og með norsku sjónvarpsdagskránni er dreift sænsku sjónvarpsdagskránni þannig að nú þegar er líklegt að við getum séð dagskrár allra Norðurlandanna að Finnlandi undanskildu.

Það er því ósköp eðlilegt að í samstarfi Norðurlandanna á sviði sjónvarpstækni, þ.e. varðandi hugmyndir manna um að koma upp sameiginlegum norrænum sjónvarpsgervihnetti, hefur dregið verulega úr áhuga manna á því að vinna að því máli þar sem tæknin hefur raunverulega hlaupið fram úr þeim hugmyndum. Það er þegar hægt að gera þetta á miklu hagkvæmari og ódýrari hátt með því einfaldlega að leigja rásir hjá Bandalagi evrópsku póst- og símamálastofnananna, Eutelsat, sem leysir þetta verkefni á miklu auðveldari og ódýrari hátt.

Þessi þróun hefur verið mjög ör erlendis. Hins vegar staðnaði hún hér á Íslandi með tilkomu útvarpslaganna 1985, frá og með áramótum 1986. Fyrir þann tíma voru uppi hugmyndir um að leggja sjónvarpsdreifikerfi um allt höfuðborgarsvæðið. á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í samráði og samvinnu við Póst- og símamálastofnun var skipuð nefnd snemma árs 1986 til þess að vinna að því að koma upp sameiginlegu sjónvarpsdreifikerfi, kapalkerfi, um allt höfuðborgarsvæðið. Þessi nefnd var skipuð þremur fulltrúum frá Póst- og símamálastofnun og þremur fulltrúum frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Minnist ég þess að borgarverkfræðingur átti m.a. sæti í þessari nefnd.

Nefndin kom nokkrum sinnum saman fyrri hluta árs 1986 og var mikill hugur í mönnum að það skyldi hafist handa við að leggja kapaldreifikerfi um allt höfuðborgarsvæðið. Voru tilkallaðir fulltrúar allra sveitarfélaganna hér á svæðinu á fund nefndarinnar og menn voru sammála um að þetta væri mjög æskilegt og jákvætt verkefni til úrlausnar. Þegar leið á árið 1986 og mönnum varð ljóst hvað útvarpslögin segðu um þetta mál var það ljóst að þetta verkefni var ekki mögulegt vegna þess að það yrði ekki framkvæmt nema með því að nota hið erlenda sjónvarpsefni til þess að skapa þann áhuga meðal almennings að hægt væri að fjármagna verkefnið. Nefndin nánast leystist því upp síðla árs 1986 og hún skilaði aldrei af sér neinu áliti. Menn sáu að það var ekkert annað að gera en bíða eftir því að löggjafanum snerist hugur, að hann vitkaðist um staðreyndir málsins. Þýðingarskyldan veldur því einfaldlega að svona sjónvarpsdreifikerfi verða aldrei lögð, aldrei, því að það er ekki nokkur leið að standa undir kostnaði við að leggja kapalkerfi einungis til þess að það verði eitthvað auðveldara að horfa á Stöð 2. Það er alveg fráleitt. Við getum þá gleymt öllu um það að leggja boðveitukerfi og upplýsingaveitukerfi framtíðarinnar því að það voru allir sammála um að til þess að geta komið á boðveitukerfi framtíðarinnar varð fyrst að byrja á því að leggja sjónvarpsdreifikerfið. Það var grunnurinn að því að geta síðar meir farið út í upplýsingaveituna.

Nú má vel vera að Póst- og símamálastofnun takist að koma á einhvers konar upplýsingaveitu um ljósleiðarakerfi sem þó er aldeilis óvíst vegna þess að ljósleiðarakerfið er aðeins hagkvæmt í þeim tilgangi að tengja saman símstöðvarnar. Það er þó langt í land og alveg óljóst hvort það kemur til með að gagnast þannig að leggja megi dreifikerfi úr ljósleiðurum frá símstöðvunum til notenda. Það var hins vegar hugmynd okkar þegar við unnum að þessum málum á árinu 1986 að með því að sameina þetta hvort tveggja, nota ljósleiðarakerfi milli símstöðvanna, leggja síðan sjónvarpsdreifikerfi sem tengdist inn á hverja símstöð fyrir sig, mætti ná þarna mjög góðri samvinnu milli Pósts og síma og sveitarfélaganna og dreifa sjónvarpsmerkjum og síðar meir upplýsingamerkjum og hvers konar boðum á mjög hagkvæman og ódýran hátt öllum til hagsbóta. Það var hins vegar alveg ljóst að þetta gat ekki orðið nema með því að opnað yrði fyrir að hægt væri að taka á móti erlendum sjónvarpsdagskrám og dreifa þeim um þetta kerfi. Því neyðumst við til þess að bíða eftir að fá endanlega úr því skorið hvort þetta verður bannað áfram eða ekki. Það er alveg ljóst að ef menn ætla að halda því til streitu að það verði að texta allt erlent sjónvarpsefni og þar með koma í veg fyrir að því verði dreift viðstöðulaust til notenda eða krefjast þess að þulur þýði allt slíkt efni jafnharðan munum við fara á mis við þá tækni sem ryður sér nú mjög ört til rúms alls staðar erlendis, þ.e. undanfara upplýsinga- og boðveitukerfisins.