24.02.1988
Efri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4810 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

285. mál, sala hluta ríkisjarðarinnar Þóroddsstaðar í Ljósavatnshreppi

Flm. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 586 um heimild til að selja hluta ríkisjarðarinnar Þóroddsstaðar í Ljósavatnshreppi.

Tildrög þessa máls eru þau að fyrir alllöngu var ríkisjörðinni Þóroddsstað skipt í þrjú lögbýli, Þóroddsstað sem er 7/12 hlutar jarðarinnar, Staðarholt sem er 2/12 hlutar og Engihlíð sem er 3/12 hlutar. Staðarholt hefur um margra ára skeið verið í eyði og nytjað með Þóroddsstað þannig að Þóroddsstað hafa í raun fylgt 9/12 eða 3/4 hlutar upphaflegu jarðarinnar en Engihlið 3/12 eða 1/4 hluti.

Jörðin Engihlíð var seld af ríkinu með afsali dags. 19. des. 1975. Við ábúendaskipti á Þóroddsstað árið 1984 ákvað jarðeignadeild landbrn. að leiðrétta þáverandi magnskiptingu jarðarinnar Þóroddsstaðar og óhagkvæm landskipti með því að sameina eyðibýlið Staðarholt jörðinni Þóroddsstað og auka nokkuð hlut Engihliðar í upphaflegu landi Þóroddsstaða með því að gefa eiganda og ábúanda Engihliðar kost á að kaupa 2/12 hluta úr upphaflegu landi Þóroddsstaðar. Að beiðni landbrn. vann Stefán Skaftason héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga tillögur að nýjum landskiptum milli jarðanna Þóroddsstaðar og Engihlíðar. Hinn 10. des. 1987 undirrituðu eigandi Engihliðar og landbrh. fyrir hönd jarðadeildar landbrn. landskipti á upphaflegu landi ríkisjarðarinnar Þóroddsstaðar. Byggjast hin nýju skipti jarðanna að verulegu leyti á tillögum Stefáns Skaftasonar héraðsráðunautar og eru í samræmi við breytingu á landnýtingu ábúenda jarðanna frá fardögum 1984.

Ábúandi Þóroddsstaðar, Björgvin Björgvinsson, hefur fyrir sitt leyti samþykkt þá tilfærslu á mörkum jarðanna sem hér um ræðir. Þá hafa hreppsnefnd Ljósavatnshrepps og jarðanefnd Suður-Þingeyjarsýslu samþykkt endurlandskipti á jörðinni Þóroddsstað og enn fremur að eigandi Engihlíðar fái hluta Þóroddsstaðar keyptan. Jafnframt hefur Búnaðarfélag Íslands samþykkt landskiptin.

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að lokum eftir að hafa kynnt mér málavöxtu betur að ég vil að það verði athugað í hv. landbn. hvort ekki sé rétt að fram komi í frv. um hversu stóran hluta jarðarinnar Þóroddsstaðar þarna sé að ræða að seldur verði. Þau leiðu mistök áttu sér stað í umfjöllun nokkurra fjölmiðla um þetta mál að orðið „hluta“ féll niður þegar sagt var frá sölu jarðarinnar og er ekki að spyrja að því að íbúum á Þóroddsstað varð nokkuð hverft við þegar þau lásu það í blöðum að lagt hefði verið fram frv. til laga á Alþingi þess efnis að selja undan þeim jörðina. Enn fremur vil ég að athugað verði hvort ekki sé unnt að fella inn í frv. eða flytja annað mál þar sem heimilað yrði að selja ábúanda á Þóroddsstað það sem eftir yrði af þeirri jörð ef þetta frv. verður samþykkt, þar sem mér er kunnugt um að hann hefur áhuga á kaupum.

Hæstv. forseti. Með þessu frv. er nánast verið að leitast við að skipta upphaflegu Þóroddsstaðarjörðinni í tvö lögbýli á sem réttlátastan hátt. Ég óska eftir því að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.