24.02.1988
Neðri deild: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4812 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

293. mál, áfengislög

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Enn á ný er bjórmálið komið á dagskrá þessarar virðulegu deildar. Það er ekki ástæða til þess að fara mjög mörgum orðum um þetta nýja frv. sem hefur tekið þó nokkrum breytingum frá fyrra frv. Ég get þó ekki látið hjá líða að svara ýmsum fullyrðingum sem hafa komið fram þar sem vefengdar hafa verið ýmsar vísindalegar niðurstöður um áhrif bjórneyslu á heildarneyslu og á heilbrigðisástand hverrar þjóðar sem í hlut á.

Mér þótti heldur lakara að lesa það í Morgunblaðinu í morgun, að ég hygg, að hv. þm. Guðrún Helgadóttir og minn elskulegi félagi hefði haft það á orði í umræðum í gær að þeir menn sem mest töluðu um bjórinn hefðu minnst vit á honum. Ég hygg að hið þveröfuga hafi verið staðreynd í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram. Ég hef a.m.k. ekki látið tilfinningar ráða afstöðu minni til bjórmálsins heldur hef ég látlaust vitnað í vísindalegar niðurstöður og rannsóknir frá fjölmörgum löndum og einkum og sér í lagi reynt að minna menn á að á sama tíma og flestar þjóðir heims, einkum á Vesturlöndum, eru að gera miklar tilraunir til að draga úr áfengisneyslu almennt er Alþingi Íslendinga að gera tilraun til að auka hana. Þetta skýtur mjög skökku við þær staðreyndir lífsins sem við okkur blasa, þau áhrif sem áfengisneysla hefur haft á mannlíf almennt, á heilbrigðiskerfið, kostnað þjóðfélagsins við heilbrigðiskerfið upp til hópa. Ég vil endurtaka það, sem ég hef sagt hér áður, að mér þykir það býsna mikil ábyrgð sem flm. frv. af þessu tagi takast á herðar; að berjast fyrir framgangi þessa máls á hinu háa Alþingi og ég vænti þess fastlega að þeir séu menn til að takast á við þann vanda sem samþykkt þessa frv. hefur í för með sér. Ég hygg að þær afleiðingar verði meiri og alvarlegri en menn vilja almennt í gleði hvunndagsins gera sér grein fyrir og það beri í þessum málum eins og öðrum að fara varlega og a.m.k. horfast í augu við þær staðreyndir sem blasa við öðrum þjóðum sem hafa farið þessa leið og reynt hana.

Ég segi það alveg eins og er að samkvæmt upplýsingum sem komið hafa fram um t.d. rannsóknir á áfengisvenjum Íslendinga og rannsóknir sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur látið frá sér fara get ég ekki greint það, og segi það í fyllstu einlægni, að neysla áfengs öls hafi bætandi áhrif á neysluvenjur áfengis almennt eða á útgjöld þjóðfélaganna sem í hlut eiga vegna heilbrigðiskerfisins. Þess vegna skil ég ekki þann mikla ákafa og þann mikla áhuga sem menn hafa á því að keyra í gegnum þingið þetta frv. Mér er það í raun alveg óskiljanlegt og ég hygg að þeir menn sem ljá nafn sitt við frv. af þessu tagi hafi raunverulega ekki gert sér grein fyrir því um hvað þeir eru að tala, ekki nokkra. Ég vildi gjarnan spyrja þá þegar þeir koma væntanlega upp í ræðustól hér á eftir: Hvaða athuganir, hvaða vísindalegar niðurstöður, hvaða rannsóknir hafa þeir í höndunum sem benda til þess að áfengisvenjur verði eitthvað skárri, áfengisneysla minnki og að heilbrigðiskerfið bíði ekki skaða af? Hvaða rannsóknir hafa þeir í höndum sem sýna þetta? Hið þveröfuga eru niðurstöður allar sem ég hef á mínum borðum. Ef menn sjá einhverja aðra liti í þessu máli er það vegna þess að þeir hafa einhverjar aðrar upplýsingar.

Vegna þátttöku, sérkennilegrar þátttöku vil ég segja, lækna í umræðum um þessi mál vil ég minna á að á aðalfundi Læknafélags Íslands 1987 var samþykkt opið bréf til ríkisstjórnar og alþm. um heilsuvernd og nauðsyn á að draga úr heildarneyslu áfengis. Þetta bréf gengur þvert á undirskriftalista rösklega 130 lækna sem sumir hverjir vilja í dag ekki kannast við að þessar undirskriftir hafi verið settar á blaðið frá þeim sem læknum heldur sem einstaklingum. Ég spyr: Hver er munurinn?

Í samþykkt Læknafélagsins segir m.a., með leyfi forseta:

„Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Reykjavík 22.–24. sept. 1987, lýsir fullum stuðningi við erindi tólfmenningana“ - og er nú vísað í bréf sem tólf kunnir læknar og einstaklingar í þjóðfélaginu skrifuðu - „og tekur undir áskorun þeirra til ráðherra og alþm. að gera það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr framboði áfengis og eftirspurn eftir því þannig að heildarnotkun þess minnki hér á landi í samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.“

Þá kem ég aftur að samþykktum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um þetta efni sem Íslendingar hafa undirgengist, sem Íslendingar hafa samþykkt, um meginreglurnar í því hvernig eigi að berjast gegn áhrifum, óheillavænlegum vil ég segja, ofnotkunar og misnotkunar áfengis á þjóðfélög sem aðild eiga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Þar eru alveg skýrar leiðbeiningar um að hverju beri að hyggja og hvað beri að varast. Hver sá sem les samþykkt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar getur ekki lesið annað út úr henni en það að allt sem geti orðið til þess að auka heildarneyslu áfengis sé til að auka heilbrigðisvanda þeirrar þjóðar sem að því stuðlar.

Í bréfi, sem fyrrnefndir tólfmenningar rituðu ríkisstjórn og alþm. í desember 1986, segja þeir m.a., með leyfi forseta:

„Ástæða þessa er sú að öll vandamál sem tengjast áfengi vaxa margfalt með aukinni heildarneyslu. Áfengissýkin er aðeins einn þáttur þessara vandamála. Aðrir sjúkdómar fólks á starfsaldri eiga að verulegu leyti rót sína að rekja til ofnotkunar áfengis. Sama er að segja um slys. Hvort tveggja veldur þjáningu og örorku, auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu og meiri dánarlíkum. Lítill vafi er á að aukin áfengisneysla á sinn þátt í vaxandi kostnaði við heilbrigðisþjónustu á undanförnum aldarfjórðungi.“

Ef nú hv. þm., sem eru að bauka við að koma saman fjárlögum og standa frammi fyrir því að kostnaður við almannatryggingar og heilbrigðiskerfið er kominn upp í 25 milljarða kr., eru tilbúnir að ganga einhverja þá leið sem eykur á kostnað heilbrigðisþjónustunnar almennt, er það stóralvarlegt mál. Eru þeir tilbúnir til að koma hér og finna tekjupósta fyrir því að greiða út hærri upphæðir til heilbrigðiskerfisins en ástæða hefði ella verið til? Ég spyr og svari hver sem getur.

Ég held, herra forseti, að það sé full ástæða til að minna á nokkrar staðreyndir varðandi þá tilraun sem Svíar gerðu með svonefnt milliöl. Þar var sala á milliöli leyfð 1965 og ég hygg að það sé skýrasta dæmið um afleiðingar af því að heimila sölu á sterku öli sem við höfum fyrir hendi. Það eru engar staðreyndir, sem hafa komið fram, herra forseti, sem vefengja niðurstöður Svía í þessu máli.

Þar var ein aðalröksemdafærsla þeirra sem fengu í gegn sölu á milliöli sú að ölneysla myndi draga úr neyslu sterkra drykkja. Reynslan varð nákvæmlega þveröfug. Um þetta eru tölulegar staðreyndir sem ekki nokkur einasta leið er að hnekkja. (GHelg: Þetta er ekki rétt, enda var þetta hrakið í gær í ræðu.) Ég skal svara þessu betur, hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Þetta hefur ekki verið hrakið vegna þess að þessar tölur standa svartar á hvítum blöðum. Ég hygg þá að það væri rétt að kalla til félagsmálaráðherra Svíþjóðar frá þessum tíma og láta hann bera vitni um það. Hann kallaði þetta eitt mesta heilbrigðisvandamál sem komið hefði upp í Svíþjóð, sem sænsk ungmenni ættu eftir að hafa slæma reynslu af á næstu árum, jafnvel eftir að salan var bönnuð.

Það kom í ljós samkvæmt upplýsingum sem fyrirliggjandi eru að unglinga- og barnadrykkja jókst gífurlega og það svo að sænska þingið sá sig tilknúið til að banna framleiðslu og sölu milliöls frá 1. júlí 1977. Það eru staðreyndir þessa máls, gjörsamlega óhrekjanlegar.

Þá má líka geta þess, ef hv. þm. Guðrún Helgadóttir vill reyna að hrekja það, að fyrir liggja tölur um að á milliölsáratugnum í Svíþjóð jókst áfengisneysla um 39,5% en á sama árabili jókst neysla á Íslandi um 26%. Ég vil vegna frammíkalls hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur geta þess að félagsmálaráðherra Svía sagði m.a. um þetta mál og er nú haft eftir honum orðrétt: „Ég er eindregið þeirrar skoðunar að á nýliðnu tíu ára tímabili milliöls í Svíþjóð hafi grunnur verið lagður að drykkjusýki sem brátt muni valda miklum vanda.“

Ef menn geta ekki og þora ekki að horfast í augu við þær staðreyndir sem hér er verið að tala um vegna þess að það heitir frelsi að veita þessa heimild til framleiðslu og bruggunar á öli hygg ég að menn eigi að láta það eiga sig að bera fram mál af þessu tagi. Þetta er miklu alvarlegra en menn gera sér grein fyrir í daglegu vafstri.

Ég vil líka vitna í það að kunnur sænskur doktor í félagsfræðilækningum, Gunnar Ågren, sagði um milliölsáratuginn að hörmulegar afleiðingar barna- og unglingadrykkjunnar á milliölsáratugnum séu nú að koma í ljós. Afleiðingar öldrykkjunnar, sem dr. Gunnar Ågren minnist á, eru einkum heilaskemmdir.

Mönnum finnst kannski tekið of djúpt í árinni þegar menn eru að tala um að heimila sölu, bruggun á áfengu öli og það eigi bara að seljast í Áfengisverslun ríkisins. Engu að síður verður þetta viðbót við það magn sem þegar er drukkið í þjóðfélaginu. Engu að síður er það staðreynd að ungt fólk drekkur miklu frekar öl en brennda drykki og aldursmarkið hjá þeim sem byrja að neyta áfengs öls lækkar um a.m.k. tvö ár miðað við það sem gerist gagnvart brenndum drykkjum. Þetta eru tölulegar staðreyndir líka. Síðan vitum við eftir m.a. mjög víðtækar rannsóknir í Bandaríkjunum að áfengisneysla unglinga leiðir í mjög mörgum tilvikum, jafnvel talið að 60 hundraðshlutum, út í notkun annarra vímuefnagjafa, hassneyslu, amfetamínneyslu o.s.frv., þannig að við erum ekki að tala un neitt saklaust öl sem á að koma inn á markað. Við erum bara að tala um nýja tegund af áfengi. Öl er ekki svaladrykkur. En menn hafa leyft sér að tala um það með þeim hætti.

Ég hef minnt á það enn fremur að í Finnlandi var sala áfengs öls gefin frjáls árið 1968. Fyrir þann tíma var áfengisneysla Finna minni en annarra norrænna þjóða, að Íslendingum undanskildum. Við vorum með minni heildarneyslu en Finnar. En eftir að sala áfengs öls í Finnlandi hófst jókst áfengisneysla gífurlega og nú drekka Danir einir Norðurlandaþjóða meira áfengi en Finnar. Það má kannski geta þess í framhjáhlaupi að það eru margir sem telja drykkjuvenjur Finna svipaðar drykkjuvenjum Íslendinga.

Þá má geta þess að á tímabilinu 1969–1974 jókst áfengisneysla Finna um 52,4%. Á sama tíma jókst áfengisneysla hér um 35%. Allt þetta verðum við að taka með inn í myndina.

Við höfum stundum litið til Danmerkur og talað um Dani sem hina „notalegu“ neytendur áfengis eða að þeir neyti áfengis á mjög notalegan hátt, fari vel með áfengi, það sjáist ekki drukknir menn á götum í Kaupmannahöfn o.s.frv. En það sem við blasir þar er m.a. það að vegna ölsins er meðalaldur við upphaf áfengisneyslu u.þ.b. fjórum árum lægri en hér á landi. Þær staðreyndir liggja enn fremur fyrir að í helmingi sjúkrarúma í Kaupmannahöfn og á Norður-Sjálandi er fólk sem er þangað komið vegna ofneyslu áfengis. Síðan spyr ég bara: Af hverju vilja menn auka á vandann sem þegar er fyrir hendi hér á landi? Þessari spurningu hljóta flytjendur þessa frv. að verða að svara.

Ég nefndi áðan að það eru líka talsverðar líkur á því að þeir sem byrja ungir að neyta áfengis fari m. a. út í kannabisefni fyrr en ella. Það hefur komið í ljós í könnun sem gerð var í Danmörku, sem amtsráðin þar stóðu fyrir, að meðalaldur neytenda kannabisefna hefur farið hækkandi undanfarin ár eða úr 1819 árum 1970 í 25–26 ár nú. Hins vegar hefur þar á móti tekið við misnotkun á áfengu öli og pillum. Slík ofneysla er núna nánast faraldur eins og landlæknir Dana getur borið vitni um.

Þá skulum við líta á tölur í samhengi við það sem ég hef núna sagt. Á árabilinu 1966–1982 jókst áfengisneysla Íslendinga um 34,7%, Dana um 98% og Finna, sem gáfu ölið frjálst 1969, um 146%. Af því að menn hafa talað um þetta mál, finnst mér, meira af tilfinningu en nokkurn tímann af rökum held ég að það sé rétt að við lítum á fleiri tölur.

Hjá bjórþjóðum eins og Vestur-Þjóðverjum og Tékkum jókst heildarneysla áfengis á árunum 1950–1967 um 196% en hérlendis um 70% þannig að það er alveg glöggt og kemur alveg skýrt fram að þær hömlur sem við höfum þó viðhaft í sambandi við sölu á áfengi, framreiðslu á áfengi, aðgengi að áfengi, aldurstakmörk vegna áfengiskaupa hafa haldið áfengisneyslunni niðri og þykir þó mörgum vandamálið vera nægjanlegt.

Ég hygg að flytjendur þessa frv. ættu að spjalla eina dagstund við yfirmenn geðdeilda Landspítalans og Borgarspítalans, við yfirmenn meðferðarheimilanna í Vogi og á Reykjalundi og spyrja þá um ástandið þar. Þeir gætu líka talað við presta þjóðarinnar og spurt þá hvernig sé um sálgæsluþjónustuna um þessar mundir, sem er að sliga þá, m.a. vegna ofneyslu áfengis margra sem til þeirra koma. Það kemur auðvitað margt til. Það kemur til aukin vinna, aukin streita í þjóðfélaginu. Engu að síður: þetta er að verða einn af dýrustu þáttunum í heilbrigðiskerfinu á Íslandi og við verðum að horfast í augu við þá staðreynd. Við verðum líka að viðurkenna að allt sem við gerum til að auka þessa heildarneyslu verður til að auka útgjöld samfélagsins til heilbrigðisþjónustunnar og til samneyslunnar almennt. Mér finnst þetta hafa gleymst í allri umræðu um þetta mál. Menn verða að hugleiða þessar staðreyndir. Menn komast ekkert fram hjá því að allar tölur sem við höfum undir höndum um áhrif bjórneyslu á heildarneyslu áfengis eru þess eðlis að það ber að gjalda varhug við þessu máli hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Ég verð að spyrja t.d. foreldra sem eiga börn á unglingsaldri um þessar mundir hvort það er ekki áhyggjuefni hjá þeim ef aðgangurinn að þessum „saklausa“ drykk, eins og menn vilja vera láta að hann sé, muni hafa alvarleg áhrif í för með sér á vímuefnanotkun ungs fólks á Íslandi.

Ég hef líka getið þess að t.d. í Belgíu, þar sem 70% alls áfengis sem neytt er eru í formi öls, eru u.þ.b. 95% allra drykkjusjúklinga öldrykkjumenn. Þá er kannski rétt að hugleiða hvort þessi eftirsótti drykkur er svo hættulaus eins og menn vilja vera láta. Ég hygg ekki.

Það skaðar kannski ekki heldur að vitna í Þuríði Jónsdóttur félagsráðgjafa sem starfaði lengi í Halifax í Kanada. Hún hefur látið þess getið að þar leitaði til hennar mun yngra fólk en gerðist eftir að hún fór að starfa hér á landi og það einkum og sér í lagi vegna vímugjafaneyslu árum saman. Þar voru það tvær tegundir sem skáru sig gjörsamlega úr, áfengt öl og hass.

Það sýnir sig líka að í hinu mikla öldrykkjulandi Bretlandi, þar sem menn sjá ölneysluna kannski í einhverjum rómantískum ljóma í formi pöbba eða kráa þar sem menn sitja og eiga gott mannlegt samneyti, hefur komið í ljós að öldrykkja hefur aukist gífurlega og einnig neysla sterkra drykkja á síðustu árum. Á sama tíma og neysla áfengra drykkja í heild, sterkra drykkja, hefur aukist hér á Íslandi um 54% hefur hún aukist um 300% á Bretlandi eða sex sinnum meira en hér á landi. En þar búa þeir ekki við skort á bjór. Það verður ekki bent á með nokkrum rökum að skortur á bjór valdi því að þeir drekki svo mikið af sterku áfengi á Bretlandseyjum. Kenningin um að aðgangur að öll muni draga úr neyslu sterkra drykkja er býsna veik.

Af því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur komið mjög við sögu í þessari umræðu og menn túlka ályktun hennar á ýmsan hátt er kannski rétt að láta koma skýrt fram að á 62. fundi stjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar 1979 voru þessi mál tekin sérstaklega fyrir. Þar er m.a. niðurstaðan sú í ályktun sem ráðið sendi frá sér og ég ætla að fá að lesa það, með leyfi forseta:

„Ljós tengsl eru milli heildarneyslu áfengis og tjóns af völdum neyslunnar. Þessi staðreynd gengur þvert á þá venjubundnu skoðun að drykkjusýki sé eiginleiki ákveðinna einstaklinga en ekki vandamál sem sé tengt því hversu mikið sé drukkið. Niðurstaðan af þessu er sú: aukin áfengisneysla jafngildir auknum áfengisvanda.“

Þessi sama stofnun birti 1980 í tímariti World Health Organization Technical Report Series grein um afstöðu stofnunarinnar og þar segir m.a. í niðurstöðu frá stofnuninni: „Þá tókst að lokum að draga mjög úr þessari miklu áfengisneyslu og því félagslega tjóni sem hún olli með markvissri stjórnun og ýmiss konar löggjöf svo sem:

1. Hömlum á sölu áfengra drykkja.

2. Styttingu á opnunartíma áfengisútsölustaða og vínveitingahúsa.

3. Hækkuðum sköttum á áfengi.

4. Banni við áfengissölu til ungmenna.“

Síðan hafa menn hér á landi farið á skeiði í blöðum og á þingi og lýst því yfir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi ekkert við þessa stefnu að athuga, þessa útþenslustefnu í afengismálum. Mér finnst það í raun og veru sorglegt að ungt fólk; sem á að taka afstöðu til talna af þessu tagi þegar um er rætt jafnveigamikið mál og nú er hér inni í sölum Alþingis, skuli raunverulega leyfa sér að taka afstöðu af einhverjum tilfinningalegum ástæðum og kannski af þeirri ástæðu að fólkið veit að meiri hluti þjóðarinnar, einkum yngra fólkið er hlynnt þessu máli. Slíkt vil ég kalla berum orðum atkvæðaveiðar sem ekki byggjast á ábyrgri afstöðu gagnvart því vandamáli sem um er rætt á þessari stundu. Það er heldur ómerkileg afstaða að því leytinu til að hún er ekki byggð á neinum staðreyndum.

En það tekur kannski enginn mark á Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem er fylgjandi bjórfrumvarpinu. Þó hefur ríkisstjórn Íslands og Alþingi undirgengist sáttmála þessarar stofnunar og hefur undirgengist að fylgja áfengismálastefnu þessarar stofnunar og hefur ákveðið sjálft að koma á fót nefnd sem á að móta áfengismálastefnu sem ekkert hefur verið gert með. En frá þessari stofnun, sem við þó eigum aðild að, hefur komið eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælist nú til þess við aðildarríkin að þau í áfengismálastefnu sinni taki mið af nauðsyn á ýmiss konar hömlum. Tilmælin eiga rót að rekja til þess að sérfræðingar stofnunarinnar eru komnir á þá skoðun að aðgerðum verði að beina gegn áfenginu sjálfu en ekki aðeins ofneyslu þess. Það er í fullu samræmi við þær niðurstöður rannsókna undanfarinna ára að tjón er áfengisneyslu fylgir margfaldist ef heildarneysla eykst.

Jafnframt er áhersla lögð á að afstaða almennings til áfengis skiptir sköpum um hve alvarlegt tjónið verður.“

Afstaða almennings til áfengis skiptir sköpum. En hver á þá að vera afstaða ábyrgra þingmanna sem kjörnir eru í kosningum til að fjalla um jafnveigamikil mál og þessi? Eiga þeir að leyfa sér að ganga þvert á yfirlýstar skoðanir færustu sérfræðinga á þessu sviði, manna sem hafa fjallað um þessi mál meðal milljónaþjóða þar sem reynslan er fyrir hendi. Hún er ekki fyrir hendi á Íslandi. Kannski ættu menn, ef það hillir undir að þetta frv. verði samþykkt, að setja í það eins konar sólarlagsákvæði um það að ef áfengisneyslan aukist í framhaldi af samþykkt þessa frv. svo einhverju nemi beri að afnema lögin. Það væri svolítill kjarkur af flm. að setja slíkt ákvæði inn í frv.

Herra forseti. Ég vildi einkum og sér í lagi hnykkja á með ýmsum viðbótartölum. Ég hafði um þetta nokkuð langt mál þegar fyrra frv. þessarar lotu kom hér fram og tel því ekki ástæðu til að lengja þetta, enda er ég þeirrar skoðunar að þetta mál eigi að afgreiða, á hvorn veg sem það fer. Það er óþinglegt að þvælast með svona mál í nefndum eða á milli deilda og þetta ber að afgreiða. Þeir sem fylgja þessu verða þá auðvitað að taka ábyrgðina sem fylgir því hugsanlega að auka á áfengisneysluna í þjóðfélaginu. Þetta er ekkert gamanmál þó menn fjalli þannig um það á stundum. Það er ekki gamanmál að Alþingi Íslendinga skuli samþykkja þetta, kannski með opnum augum sumir hverjir, í von um einhverja hugsanlega fylgisaukningu sem ég hygg nú að geti orðið skammgóður vermir. Menn eiga að skoða þetta mjög svo vandlega.

Ég hygg að við mundum ekki samþykkja hér á Íslandi og í þessari virðulegu stofnun umferðarlög sem bentu til þess að fleiri færust í umferðinni en ella. Það er nákvæmlega það sama sem á við um þetta mál, nákvæmlega sama áhættan.

Ég vil að lokum leggja höfuðáhersluna á að ég hef verulegar áhyggjur af því að vaxandi áfengisneysla í lægstu aldursflokkum hafi í för með sér nákvæmlega það sama og gerst hefur í ýmsum nágrannalöndum, kalli á aukna neyslu vímuefna af öðru tagi. Það eru kannski skelfilegustu hætturnar sem við horfumst í augu við. Það eru alveg klárar rannsóknir sem sýna það, meðal annars í Bandaríkjunum, ég get komið með þykka doðranta um það, að því fyrr sem unglingar byrja að neyta áfengis þeim mun meiri hætta er á að þeir hefji neyslu annarra vímuefna. Önnur rannsókn, sem ég nefndi hér áðan, hefur sýnt að aldurshóparnir sem hefja áfengisneyslu í bjórlöndum eins og t.d. Danmörku eru tveimur til fjórum árum yngri, þ.e. aldurinn er 2–4 árum lægri, en hér. Ég bendi einkum og sér í lagi á þessa hættu.

Herra forseti. Lokaorð mín í þessu máli verða þessi: Afstaða mín til bjórfrv. byggir á tölulegum staðreyndum, vísindalegum staðreyndum, ekki tilfinningalegum rökum eða tilfinningalegu mati. Og ég segi þetta að lokum: Mikil verður ábyrgð þeirra manna sem koma þessu máli í gegnum hið háa Alþingi.