24.02.1988
Neðri deild: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4826 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

293. mál, áfengislög

Forseti (Jón Kristjánsson):

Varðandi orð síðasta ræðumanns vil ég geta þess að það komu fram óskir um að húsnæðismál yrðu ekki rædd í dag og það var í fullu samráði við félmrh. og tilkynnt í upphafi fundar að þetta mál væri tekið út af dagskrá. Hv. 2. þm. Vestf. hefði heyrt það ef hann hefði þá verið kominn til fundar. Það mátti reikna með að þau mál sem á dagskránni eru, sem voru tvö í dag, kæmu á dagskrá þannig að það var alltaf ætlunin að halda áfram þessari umræðu í dag.

Nú er það svo að forseti á ákaflega erfitt með að meta í hverju máli hvað umræður verða langar. Það er ekki ljóst fyrir fram og er erfitt að henda reiður á því. Hins vegar var ætíð ljóst að þessari umræðu yrði haldið áfram í dag. Menn hafa nú bæst á mælendaskrá þannig að það er ekki von á því að umræðunni ljúki fyrir kl. 4. Það er ekki ætlunin að halda fundi áfram lengur.

Í sambandi við þá þraut sem hv. 4. þm. Austurl. lagði fyrir mig og ég tók það sem þraut því hv. 4. þm. Austurl. er fyrrv. forseti Nd. og klókur í þingsköpum: Auðvitað hefur hann þá tækifæri til að koma upplýsingum á framfæri í þessari 1. umr. Hins vegar vil ég segja að auðvitað eru þrjár umræður um hvert mál til þess að menn hafi tækifæri til að koma þar öllum sjónarmiðum á framfæri og það hlýtur hv. 4. þm. Austurl. að vita og ég veit reyndar að honum er það fullkunnugt. Hann getur komið öllum upplýsingum á framfæri við 1. umr. vegna þess að það er sýnt að henni lýkur ekki og hann á eftir af ræðutíma sínum og rétt til að taka til máls aftur við þessa umræðu.

Ég held satt að segja að þessar umræður um vinnutíma þingsins séu algerlega óþarfar í þessu efni vegna þess að það hefur aldrei verið ætlunin, eins og ég hef margtekið fram, að níðast á hv. þm. í þessari umræðu. Ég tel ástæðulaust að halda uppi löngum þingskapaumræðum um það. En fundi verður fram haldið til kl. 4 í dag. Þá er þingflokksfundatími. Eftir það veit ég að m.a. hv. 4. þm. Austurl. hefur boðið hv. þm. að skoða Þjóðminjasafnið þannig að fundi verður ekki haldið áfram lengur en til ki. 4 í dag og vona ég að þm. séu eftir atvikum ánægðir með þá niðurstöðu.