25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4837 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

232. mál, hvalarannsóknir

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Fyrirspyrjandi hefur nú farið allmikið út fyrir þá fsp. sem hér hefur verið borin fram og vænti ég þess að vegna þess geti ég aðeins komið inn á það og einnig farið þá út fyrir fsp. og svarað því þá eftir að ég hef lokið að svara hinni formlegu fsp.

Í svari mínu við fsp. um sama efni í Sþ. 3. febr. 1987 var athygli fyrirspyrjanda vakin á því að samningur sá, sem vitnað er til og gerður var í því skyni að auka vísindalega þekkingu á ástandi hvalastofna hér á landi og skapa nauðsynlegan grundvöll fyrir árið 1990 til endurmats á áhrifum veiðistöðvunar, er á milli Hafrannsóknastofnunar í Reykjavík annars vegar og Hvals hf., Miðsandi, Hvalfjarðarstrandarhreppi, hins vegar. Þetta er endurtekið hér því að fsp. ber með sér að þessar upplýsingar hafi ekki náð eyrum fyrirspyrjanda og má vera að það sé að einhverju leyti um aðrar upplýsingar í þessu máli að þær eigi stundum erfitt með að ná eyrum hv. fyrirspyrjanda.

Vík ég þá að 1. tölul. Hvor samningsaðili um sig getur óskað eftir endurskoðun samningsins og skal ósk þar að lútandi hafa borist gagnaðila fyrir 15. janúar hvers árs. Hvorugur samningsaðila setti fram ósk um endurskoðun samningsins innan þessara tímamarka. Hafrannsóknastofnun gerir hins vegar ráð fyrir að árleg endurskoðun rannsóknaáætlunar taki mið af gangi og niðurstöðum rannsóknanna og fjárhagsstöðu þeirra. Stefnt er að því að þeirri endurskoðun ljúki í maí nk.

2. Á yfirstandandi ári er ráðgert að veiða 80 langreyðar og 40 sandreyðar, enda leiði endurskoðun rannsóknaáætlunar ekki til annarrar niðurstöðu.

3. Á sl. ári fóru fram afar ítarlegar rannsóknir á öllum hvölum sem landað var í Hvalfirði. Gerðar voru athuganir á aldri og viðkomu dýranna, fæðu þeirra og orkuástandi þar sem tekin voru m.a. mismunandi vefjasýni til mælinga á hitaeiningagildi vefja og fæðu skepnunnar og líffæri þeirra vegin í rannsóknaskyni. Haldið var áfram athugunum á eggjahvítusamsetningu og erfðamörkum nokkurra hvalategunda ásamt svokölluðu DNA eða erfðaefnisrannsóknum sem nú virðast opna nýja möguleika á þessu sviði. Ljóst er að jafnítarleg og reglubundin sýnasöfnun og nú er framkvæmd í tengslum við veiðarnar á sér vart hliðstæðu og mun efniviðurinn gera kleift að stunda margvíslegar rannsóknir er að gagni koma.

Á sl. ári voru gerðar nokkrar breytingar á gagnaöflun á sjó í tengslum við veiðarnar sem auka mun nytsemi reglubundinna skráninga á hvölum á skipunum og gera samanburð við önnur talningargögn auðveldari. Jafnframt var haldið áfram öflun upplýsinga um ástand umhverfisþátta á miðunum og sýnum safnað í þeim tilgangi.

Íslendingar höfðu forustu um framkvæmd umfangsmestu hvalatalninga sem framkvæmdar hafa verið á Norður-Atlantshafi í júní og júlí 1987. Talningarnar fóru fram samkvæmt hvalrannsóknaáætluninni á svæðinu milli Íslands og Grænlands allt í kringum land, norður fyrir Jan Mayen og suður af Írlandi. Samstarf tókst við Norðmenn, Færeyinga, Grænlendinga og Spánverja sem lögðu til skip og flugvélar og jók þetta mjög gildi rannsóknanna sem náði til stórs hluta Norðaustur-Atlantshafs allt frá Svalbarða suður að ströndum Spánar. Jafnframt tóku vísindamenn frá Japan, Bretlandi og Bandaríkjunum þátt í rannsóknunum ásamt fulltrúum frá Alþjóðahvalveiðiráðinu sem sérstaklega var boðin þátttaka.

Á Íslandsmiðum var talið úr flugvél með svipuðum hætti og sumarið 1986 og staðfesta athuganir fyrri niðurstöður um fjölda og útbreiðslu hrefnu á grunnslóð við landið. Þrjú skip okkar önnuðust talningar á djúpslóð og bendir allt til að tilraun þessi hafi skilað verulegum árangri.

Eins og undanfarin ár voru háhyrningar athugaðir með ljósmyndunartækni á síldveiðimiðunum austan lands. Rannsóknir þessar miða að aukinni vitneskju um fjölda og útbreiðslu háhyrninga við landið, afrán þeirra á síld og tengsl þeirra við háhyrninga annars staðar á Norður-Atlantshafi. Úrvinnsla sýna og talningar gagna fer fram jafnóðum þar sem m.a. liggur mikið starf að baki við tölvuvæðingu gagna og prófun þeirra. Flestar rannsóknanna eru langtímaverkefni og verða niðurstöður kynntar í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins næsta vor í sem endanlegustu formi eftir því sem tilefni gefur til.

Rannsóknirnar í Hvalfirði 1988 munu í flestu verða með mjög svipuðu sniði og í fyrra. Talið er of snemmt að efna til endurtekinna talninga á þessu ári þar sem lokaniðurstöður liggja ekki enn fyrir. Hins vegar er gert ráð fyrir atferlisrannsókn á hrefnu sem bæta á túlkun talninganiðurstaðna sl. árs. Jafnframt er hafinn undirbúningur að umfangsmiklu verkefni þar sem ætlunin er næsta haust að fylgjast með göngum langreyðar og sandreyðar vestur af Íslandi úr flugvél í allt að þrjá mánuði.

4. Heildarmagn hvalafurða sl. ár er eftirfarandi í kg nettó:

1986: Hvalkjöt 2 157 700 kg. Aðrar hvalafurðir: 1 720 700 kg. 1987: Hvalkjöt 1 888 800 kg og aðrar hvalafurðir 1 517 100 kg. Útfluttar hvalafurðir 1986: Hvalkjöt 1 046 277. Aðrar hvalafurðir 533 343. 1987: Hvalkjöt 799 384 og aðrar hvalafurðir 424 706.

Vænti ég að ég hafi þar með svarað þeirri fsp. sem hv. þm. kom hér með, en ég vildi aðeins út af orðum hennar um að við stunduðum hér enn hvalveiðar benda henni á að hér er verið að stunda vísindalega starfsemi og þetta er talið nauðsynlegt til að sinna því. Og ég mótmæli sífelldum útúrsnúningum hennar í þessu sambandi um að hér sé staðið niðurlægjandi að málum. Þá tel ég vera mest niðurlægjandi, eins og kemur fram í orðum hv. þm., að það eigi að hlíta í einu og öllu því sem öfgahópar erlendis leggja til í þessu máli.