25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4839 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

232. mál, hvalarannsóknir

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Það er með hreinum ólíkindum hvað fsp. mínar um hvalveiðideiluna fara í skapið á hæstv. ráðherra, þessum annars gæfa og prúða manni, og það hvarflar ekki að mér að fara að rífast við hann hér. Ég held að við, ég og hæstv. ráðherra og þingheimur allur, eigum hér sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Það var hins vegar ýmislegt sem kom fram í svari hæstv. ráðherra, sem ég að sjálfsögðu þakka, sem vekur athygli. Hann minntist t.d. ekkert á fyrirhugaðar hrefnuveiðar. Ég vil þess vegna spyrja hvort fyrirhugað sé að veiða hrefnu eða ekki. Einhvern veginn er hrefnan fallin út úr allri þessari umræðu. Það vekur einnig athygli mína að það stendur ekki til að endurskoða áætlunina og þess vegna stendur óbreytt talan 80 langreyðar og 40 sandreyðar. Ég vil hins vegar vekja athygli hv. þm. á því að það er aukning um 20 sandreyðar vegna þess að það var aldrei veiddur fullur kvóti á sl. ári. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telur það nú einmitt það sem við þurfum varðandi útflutning okkar og önnur viðskipti að það sé hægt að setja á herðar okkar að við séum að auka hvalveiðar.

Auðvitað ber að fagna þeim rannsóknum sem farið hafa fram á lifandi dýrum og hvalatalningar eru auðvitað af hinu góða og sú aðgerð öll hin prýðilegasta, en eftir stendur að það er ekki bara ég, virðulegi forseti, sem dreg í efa gildi hinna vísindalegu rannsókna á dauðum dýrum. Það eru ærið margir aðrir og mér viturri einstaklingar um allan heim. Það er nú einu sinni eðli skynsams fólks að efast og heldur litið merki um þekkingu manna að halda því fram að þeir viti alla skapaða hluti. Ég hef aldrei haldið því fram að ég hafi hugmynd um ástand hvalastofna. Ég hef hins vegar fulla ástæðu til að hlýða á það ef hundruð virtustu vísindamanna um heim allan og þeir sem mesta þekkingu hafa á ferli hvalanna í lífríkinu óttast um afkomu stofnsins. Þá sé ég ekki annað en hver einasti þjóðkjörinn þm. hljóti að hlusta á það og hafa af því verulegar áhyggjur.

Þriðja atriðið sem ég hnaut um í upplýsingum hæstv. ráðherra ef hér er ekki um að ræða prentvillu ... (Sjútvrh.: Kíló.) Já, ég skil það, hæstv. ráðherra. En skil ég það svo að þarna muni um 3000 kg á útflutningnum 1986 og 1987 varðandi hvalkjöt. Ég bið aðeins um skýringu á þessum tölum á eftir og ástæður fyrir því.

Í Morgunblaðinu í dag er þó nokkuð löng grein um svokallaðar vísindaveiðar Japana og viðbrögð Bandaríkjamanna við þeim. Nú er beðið eftir ákvörðun um hvort beita eigi Paekwood/Magnússon-lögunum varðandi refsiaðgerðir gegn Japönum. Ég vil því spyrja að lokum: Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af því að ef svo skyldi fara að Japanar yrðu beittir refsiaðgerðum vegna vísindaveiða sinna kunni það jafnframt að bitna á Íslendingum? Ég verð að játa að ég hef það. Og ég læt ekki í þessu máli fyrr eða síðar, hæstv. ráðherra, afgreiða mig með uppblásinni þjóðrembu. Ég mun svo sannarlega vinna að því eins og ég hef ævinlega gert að koma hernum úr landi, en ég ætla ekki að gera það með afstöðu minni í hvalamálinu.