25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4840 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

232. mál, hvalarannsóknir

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spurðist fyrir um hrefnu. Því er til að svara að það hefur ekki verið tekin ákvörðun í því sambandi og engir samningar um það gerðir. Hins vegar hefur ekki verið fallið frá fyrirætlunum um rannsóknir á hrefnustofninum og mun það mál verða tekið inn í endurskoðun áætlunarinnar, en eins og ég tók fram í svari mínu sagði ég að endurskoðun rannsóknaráætlunarinnar stæði yfir og þeirri endurskoðun ljúki í maí nk. þannig að það ætti að hafa verið nokkuð skýrt að ég sagði frá því að það væri verið að endurskoða þessa áætlun.

Hv. fyrirspyrjandi vitnaði til hundraða virtustu vísindamanna. Ég bendi hv. fyrirspyrjanda á að ræða við þá vísindamenn okkar sem starfa að þessum málum. Eru þeir að störfum á Hafrannsóknastofnuninni í sérstöku húsnæði þar. Vænti ég þess að hv. fyrirspyrjandi hafi komið í þá stofnun fyrir nokkru og kynnt sér þessi rannsóknarmál, eins og ég veit að allir þingflokkar munu annaðhvort hafa gert eða ætla sér að gera.

Að lokum spurðist hv. þm. fyrir um hvort ég hefði engar áhyggjur af því að við yrðum beittir refsiaðgerðum. Ég hef að sjálfsögðu áhyggjur af því og ég vænti þess að það hafi komið nokkuð skýrt fram í umræðum að undanförnu. En hitt er svo annað mál að ég tel ekki að slíkar áhyggjur eða slíkar hótanir megi koma í veg fyrir nauðsynlega þekkingarleit nema menn vilji almennt vera í miðaldamyrkri í þessum málum sem því miður fjölmargir vísindamenn og kannski þessi „hundruð vísindamanna um allan heim“, eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, vilja gjarnan gera. Það er því miður svo að margir þessara vísindamanna vilja vera áfram í myrkrum miðalda.