25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4841 í B-deild Alþingistíðinda. (3325)

236. mál, raforkuframleiðsla

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 528 að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. varðandi raforkuframleiðslu. Það vakti óneitanlega athygli margra í löngum og samfelldum frostakafla um daginn, þegar orkukerfi Landsvirkjunar gekk mjög vel, hafði nægt vatn þrátt fyrir frost, að dísilstöðvar út um allt land voru látnar ganga stundum nótt sem nýtan dag á sama tíma og í kerfi Landsvirkjunar var næg orka að ég hygg. Því hef ég beint svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

„1. Hver var kostnaður Rafmagnsveitna ríkisins við raforkuframleiðslu með dísilvélum í janúar 1988?

2. Hver hefði kostnaður Rafmagnsveitna ríkisins orðið ef orkan sem framleidd var með dísilvélum hefði verið keypt skv. taxta Landsvirkjunar?

3. Hve miklu meiri var afl- og orkuframleiðslugeta Landsvirkjunar í janúar 1988 en nam orkusölu fyrirtækisins í þeim mánuði?"