25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4841 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

236. mál, raforkuframleiðsla

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. á þskj. 528, það eru þrjár fsp., vil ég segja þetta:

1. spurning: Hver var kostnaður Rafmagnsveitna ríkisins við raflokuframleiðslu með dísilvélum í janúar 1988? - Svarið er: 5,8 millj. kr. Áætluð framleiðsla dísilvéla í janúar 1988 vegna lækkunar afltopps var 1,6 gwst. Áætlaður framleiðslukostnaður er 3,60 kr. á hverja kwst. og þess vegna er kostnaðurinn samtals 5,8 millj. kr.

2. spurning: Hver hefði kostnaður Rafmagnsveitna ríkisins orðið ef orkan, sem framleidd var með dísilvélum, hefði verið keypt skv. taxta Landsvirkjunar? — Svarið við þessari spurningu er: 36,6 millj. kr. Áætluð lækkun aflkaupa í janúar 1988 var 19,21 mw., áætluð lækkun aflkaupa í heild fyrir árið 1988, sem orsakast af lækkuninni í janúar, er þess vegna 4,8 mw. eða 19,21 deilt með 4. Aflverð frá Landsvirkjun er 7,626 millj. kr. á mw. og kostnaðurinn er þess vegna 36,6 millj. kr. Það þýðir að Rafmagnsveitur ríkisins hafa sparað sér liðlega 30 millj. kr. með því að framleiða raforku með dísilvélum á þessu tímabili.

3. spurning: Hve miklu meiri var afl- og orkuframleiðslugeta Landsvirkjunar í janúar 1988 en nam orkusölu fyrirtækisins í þeim mánuði? — Svar við þessari spurningu er að orkuvinnsla Landsvirkjunar í janúar 1988 var um 388 gwst. samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun, en orkuvinnslugetan er talin vera u.þ.b. 10% hærri. Mesta aflálag í janúar 1988 var um 600 mw. Aflgeta Landsvirkjunar í vatns- og jarðgufustöðvum að frádregnu því umframafli sem jafnan þarf að vera í gangi vegna rekstraröryggis eða svokallað reiðuafl er um 7% hærri eða um 640 mw.

Ég vil, herra forseti, í lokin aðeins segja að gert hefur verið munnlegt samkomulag á milli Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins þannig að varla þarf að koma til þess á næstunni að Rafmagnsveitur ríkisins þurfi að keyra dísilvélar til að lækka afltoppa.