25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4843 í B-deild Alþingistíðinda. (3328)

191. mál, tjón á ljósleiðurum

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Um nokkurt skeið hefur Landssíminn lagt ljósleiðara í jörð víða um land af miklu kappi. Þegar hafa verið lagðir um 300 km, en það er aðeins byrjunin því eftir mun að leggja um 1300 km af þessum leiðurum. Ljóst er að viðgerð á leiðurum er óvenjulega dýr. Hver viðgerð kostar mörg hundruð þúsund kr. Einnig er ljóst að óbeint tjón, sem orðið getur vegna þess að leiðarinn slitnar, getur orðið enn meira. Hins vegar er kannski nokkuð óljóst um bótaskyldu af óbeinu tjóni í slíkum tilvikum.

Þessir ljósleiðarar hafa verið lagðir víða um byggð ból, en hins vegar hafa eigendur lítt verið spurðir hvort þeir vildu fá þessa þræði í lönd sín. Mér skilst að lengst af hafi ekki verið gerðir neinir samningar við landeigendur þegar ljósleiðarar hafa verið lagðir. Því er það þannig að menn eru komnir með inn á sig viðkvæmar leiðslur og er ljóst að það er dýrt spaug fyrir menn ef þeir lenda í því að valda skemmdum á þessum leiðurum, jafnvel þótt af gáleysi sé.

Þetta hefur valdið áhyggjum víða um land og dálitlum vangaveltum meðal manna. Fsp. er að sjálfsögðu sprottin af þessum umræðum. Menn gera sér grein fyrir því að bótakröfur geta hugsanlega komið efnalitlu fólki á vonarvöl og því er ekki óeðlilegt að spurt sé eins og hér er gert:

„1. Ber sá ótakmarkaða ábyrgð á tjóni sem verður fyrir því óhappi að slíta af gáleysi ljósleiðara sem síminn er að leggja í jörð víða um land?

2. Er ekki nauðsynlegt að setja sérstök ákvæði í lög um merkingar á legu ljósleiðara, ábyrgð á tjóni, t.d. um hámarksábyrgð þeirra sem tjóni valda, og hugsanlegar tryggingar þar sem bótakröfur gætu numið óvenjulega háum fjárhæðum?"

Síðan er hér viðbótarspurning. Sú fyrri var til hæstv. samgrh., en viðbótarspurningin yrði þá til hæstv. félmrh. en af sama tilefni. Ráðuneytið gaf sem sé út úrskurð þann 4. ágúst sl. og þessi úrskurður kom nokkuð á óvart, en hann fjallaði einmitt um samskipti Landssímans og skipulagsyfirvalda varðandi lagningu ljósleiðara. Úrskurðurinn verður varla skilinn öðruvísi en svo að Skipulagi ríkisins sé m.a. skylt að fá samþykki Landssíma Íslands fyrir nýju eða breyttu skipulagi, þar sem byggt er á skipulagsskyldum stöðum sem og stöðum sem ekki eru skipulagsskyldir, ef jarðstrengur Landssímans liggur á því svæði sem skipuleggja á. Því finnst mér ekki óeðlilegt að spyrja hvort þessi úrskurður ráðuneytisins kalli ekki á breytingu á gildandi skipulagslögum.