25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4848 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

234. mál, söluskattur af heilsurækt

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Aðeins varðandi síðasta málið, sem hæstv. fjmrh. nefndi hér með kvikmyndirnar, vil ég leyfa mér að segja að með því að innheimta söluskatt af kvikmyndum með þeim hætti sem hann upplýsti þá er bersýnilega verið að brjóta í bága við b-lið 6. gr. söluskattslaganna sem fjallar um sölu listamanna á eigin verkum. Það verður þokkalegt ef listamannasamtökin þurfa að höfða mál gegn hæstv. fjmrh. en það gæti orðið óhjákvæmilegt í sambandi við þetta atriði.

Í þessum tölulið dagskrárinnar, herra forseti, legg ég hér fram fsp. sem er svona:

„Hverju nema áætlaðar söluskattstekjur íslenska ríkisins 1988 af heilsurækt?"

Fyrirspurnin er borin fram í tilefni af nýsamþykktum söluskattslögum þar sem gert er ráð fyrir því að eftirfarandi þættir verði nú söluskattsskyldir sem hafa áður verið söluskattslausir, þ.e. aðgangseyrir að gufubaðsstofum, nuddstofum, ljósastofum og heilsuræktarstofum. Fsp. er líka borin fram vegna þess að í söluskattslögunum er ákvæði um það að aðgangseyrir að starfsemi íþróttafélaga er undanþeginn söluskatti. Því spyr ég hæstv. fjmrh. rétt eins og hér áðan:

Í fyrsta lagi: Hvað ætlar hann að hafa mikið af heilsurækt í ríkissjóð þetta ár, árið 1988?

Í öðru lagi ætla ég að spyrja hann að því hvernig hann ætlar að fara að því að innheimta þetta án þess á sama tíma að brjóta gegn lagaákvæðum um það að íþróttafélögin séu söluskattsfrjáls.