29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti tjáði mér seint í gær að hv. þm. Hreggviður Jónsson hygðist kveðja sér hljóðs utan dagskrár til að leggja fyrir mig einhverjar spurningar. Ég spurðist fyrir um hverjar þær spurningar væru og fékk ekki svör um það. Ég fékk heldur engin svör í máli hv. þm. Hreggviðs Jónssonar. Hitt er svo annað mál að ég er ekki að gera lítið úr þeim vandamálum sem byggðarlög á Suðurnesjum standa frammi fyrir, en ég er ekki viss um að þau verði leyst í stuttum umræðutíma utan dagskrár á Alþingi.

Ég vildi minna á að auðvitað verður að beina hér ákveðnum spurningum fram. Hitt er svo annað mál að ýmislegt villandi kom fram í máli hv. þm. Það skip sem hér um ræðir, þótt ég þekki ekki þar nákvæmlega til, hefur lent í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum sem eru ástæðan fyrir sölu þess. Það hefur ekki skort, mér vitanlega, á fiskveiðiheimildir til handa þessu skipi. Menn verða að muna að það er öðruvísi fiskveiðimunstur á þessu landsvæði en norðanlands. Karfaafli er mun meiri á þessu svæði og þorskafli minni. Ég býst hins vegar við því að minni þorskafli sunnanlands - og veit það — er ekki fyrst og fremst afleiðing af kvótakerfinu heldur af þeirri einföldu ástæðu til kominn að þorskstofninn stendur að verulegu leyti saman af mjög smáum fiski sem heldur sig mikið norðan við land, fyrir Vestfjörðum og Austurlandi. Það kemur fram í því að mun minna gengur af fiski sunnan við land.

Ég hygg að þetta sé nú aðalástæðan fyrir þeim miklu erfiðleikum sem víða hafa orðið á Suðurnesjum þótt ýmsar aðrar ástæður séu fyrir hendi. Það er því ekki rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta skip fái 550 tonna aukningu. Það hlýtur að veiða mun minni karfa fyrir norðan land en á því svæði sem það var á.

Hitt er svo annað mál að það hefur engin ákvörðun verið tekin um það hvernig þessum málum verði komið fyrir á næsta ári. Það er nægur tími til að ræða það og á eftir að ræða það þó sá tími styttist óðum sem til stefnu er. En það þarf að ræða hvernig aflaréttindum skuli jafnað á milli togaranna. Um það má að sjálfsögðu deila. Það er byggt á ákveðinni viðmiðun frá fyrri árum. Hins vegar hefur jöfnun átt sér stað tvívegis og þessi aflamörk verið færð saman. Hvort þau skuli færð meira saman skal ég ekki um segja nú, en í þeim tillögum og hugmyndum sem hafa verið lagðar fram er gert ráð fyrir því að aflahámark verði jafnframt sett á karfa með sama hætti og á þorsk.

Það er út af fyrir sig mjög slæmt að fyrirtæki á Suðurnesjum skuli hafa lent í margvíslegum erfiðleikum. Ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt að menn skilgreini þann vanda á réttan hátt ef á að takast að leysa hann. Ég tel að ekki hafi komið fram í máli hv. frummælanda neitt sem bendir til þess að hann hafi skilið þann vanda enn þá.