25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4853 í B-deild Alþingistíðinda. (3344)

237. mál, raforkuverð

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. flutti yndislega ræðu áðan sem draga má saman í eina setningu: Þetta er allt Alþfl. að kenna.

Það er út af fyrir sig gott að hv. stjórnarliðar eru vaknaðir til lífsins yfir því mikla óréttlæti sem hið háa raforkuverð á landsbyggðinni til húshitunar er, en það væri betur að þessir hv. þm. og hæstv. ráðherrar hefðu komið til meðvitundar fyrir áramótin þegar verið var að greiða atkvæði um og fella með atkvæðum þessara hv. þm. brtt. okkar alþýðubandalagsmanna og fleiri um hærri fjárveitingar til að niðurgreiða raforku til húshitunar. Ég ætla að vona, úr því að þessi kostulega umræða er komin af stað milli stjórnarliða um orkuverðið, að áhuginn og meðvitundin endist fram að næstu afgreiðslu fjárlaga og þá fari öðruvísi þegar fluttar verða sanngjarnar tillögur um meiri fjárveitingar til að greiða niður hið háa orkuverð á landsbyggðinni.