25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4855 í B-deild Alþingistíðinda. (3349)

237. mál, raforkuverð

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er gott að menn eru farnir að ókyrrast yfirleitt út af því misrétti sem er í þessu landi. Ég held að þeir sem ráða þessum málum ættu að íhuga hvort ekki er hægt að setja eitthvert ákveðið fast verð á t.d. raforku til húshitunar miðað við hitaveituverðið þar sem raforkan nýtist ekki, a.m.k. eins og er, öll, hún fer til ónýtis. Ef menn meina eitthvað með því að vilja jafna aðstöðuna í landinu hljóta þeir að leiða hugann að þessu. En það þarf að leiða hann að fleiri atriðum í þessu efni.

Ég sting upp á t.d. að hitunarkostnaðurinn úti á landi væri ekki nema helmingi hærri en t.d. það sem er hér eða hjá 4–5 hitaveitum sem eru lægstar í landinu. Menn sýna það í verki. Er þetta bara til að sýnast eða ætla menn að taka á málunum?